Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:48:53 (586)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég held að það hljóti að vera leyfilegt að spyrja spurningar þeirrar sem ég hef í hyggju að spyrja undir þessum dagskrárlið þar sem hér er fjallað um gjaldeyrisviðskipti, bæði í beinum fjárfestingum og fasteignakaupum o.s.frv., skammtímahreyfingum fjármagns og erlendum langtímalántökum og öðru slíku.
    Í hv. fjárln. kom í morgun til fundar við okkur virðulegur ríkisendurskoðandi og ég beindi til hans fyrirspurn um það hvort ekki stæði til að samræma bókhaldsskyldu og reikningsfærslu fyrirtækja ef til samnings um Evrópskt efnahagssvæði kemur. Það segir sig sjálft að þegar verið er að flytja fé milli landa og jafnvel fyrirtæki þá hlýtur það að skipta máli hvernig upplýsingar liggja fyrir um rekstur fyrirtækjanna. Það kom mér mjög á óvart að ríkisendurskoðandi sagðist hreinlega ekkert um þetta vita og vissi ekki til

þess að verið væri að vinna að slíku. Ég held að þetta sé afar mikilvægt vegna þess að ég hef grun um að Íslendingar séu ekki sérlega til fyrirmyndar um bókhald og góðan frágang á uppgjöri fyrirtækja sinna og ég held að við höfum einfaldlega látið ýmislegt líðast sem ég hygg að aðrar þjóðir geri síður. Þess vegna leikur mér nokkur hugur á að vita hvað hæstv. viðskrh. hyggst fyrir í þessu mjög svo mikilvæga máli að ég tel.
    Ég vona að það sé líka leyfilegt að spyrja, hæstv. forseti, af því að nú er hæstv. viðsk.- og iðnrh. staddur hér eftir alla þá miklu umræðu sem við höfum haldið hér uppi um margumræddan samning og mig hefur langað að spyrja um það lengi og hefur verið erfitt að komast að, hvað menn ætli sér í raun og veru með allar þær lagabreytingar sem hér er lagt af stað með. Hvort tveggja er að ekki er alveg gulltryggt að umræddur samningur hafi meiri hluta og a.m.k. vonum við það svo lengi sem hægt er að vona. En annað er það sem ég held að allir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar hljóti að hafa velt fyrir sér og ekki þá síst hæstv. iðnrh. og viðskrh.: Hvað gerist í raun og veru ef Frakkar fella Maastricht-sáttmálann? Nú sýnist vera að Bretar hörmuðu það ekki mjög ef svo færi og nú berast fréttir frá Ítalíu um að þar sé vaxandi andstaða við samninginn. Utanríkisráðherra Dana, Uffe Elleman-Jensen, hefur margsagt að ef Frakkar felli Maastricht-sáttmálann sé samningur um Evrópskt efnahagssvæði úr sögunni og þá sé nauðsynlegt að hefja alla þá samningsgerð að nýju. Ég vil því spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh.: Er ekki alveg öruggt að við förum ekki að breyta hér lögum fyrir 20. sept. eða a.m.k. höfum biðlund þangað séð verður hvað um Maastricht-málið verður í Frakklandi? Auk þess, eins og ég hef margtekið fram, finnst mér með öllu óeðlilegt að afgreiða lagabreytingar, sem hljótast af samningi um Evrópskt efnahagssvæði, fyrr en sá samningur hefur verið samþykktur. Það er auðvitað gersamlega fráleitt að hér verði eitt einasta mál afgreitt fyrr en það liggur alveg skýrt fyrir. Þetta held ég að hljóti að vera eðlileg niðurröðun mála.
    Það er þetta tvennt sem ég vil ítreka, hæstv. forseti. Annars vegar hvað menn hyggjast fyrir með samræmda bókhaldsskyldu og upplýsingar um rekstur fyrirtækja og hins vegar hvað hæstv. ráðherra hugsar um hin stærri málin, hvort samningur um Evrópskt efnahagssvæði verður að veruleika yfirleitt.