Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:54:08 (587)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vegna fyrirspurnar hv. 14. þm. Reykv. um samræmdar kröfur um bókhald og upplýsingar um rekstur fyrirtækja, vil ég taka fram að Alþingi samþykkti á 115. þingi reglur um uppgjör lánastofnana þar sem samræmdar voru m.a. kröfur um eiginfjárstöðu þessara stofnana sem eru í gildi um allt hið Evrópska efnahagssvæði og reyndar víðar. Það er angi af þessu máli.
    Ég bendi líka á að á verkefnaskrá viðskrn. er að koma hér til þingsins í haust með lagafrv. um breytingar á félagalöggjöfinni til þess að samræma hana því sem gerist á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þar verða að sjálfsögðu líka ákvæði um gerð ársreikninga og upplýsingaskyldu hjá fyrirtækjum. Bókhaldslög sem, eins og kunnugt er, heyra undir fjmrh. kynni að þurfa að taka til skoðunar í því samhengi þótt ég leyfi mér að efast um að Íslendingar séu eftirbátar annarra Evrópuþjóða hvað hina lögformlegu hlið varðar. Það má vel vera að í framkvæmd sé víða pottur brotinn en ég held að okkar ákvæði um þetta í lögum og reglum séu alveg frambærileg. Hitt er annað mál að þarna má lengi betur gera og ég tek alveg undir það með hv. þm. að huga þarf að þessu máli vegna viðskipta milli landa.
    Ég kem svo að seinni spurningu hv. þm. um það hvað gerast muni í samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði fari svo að Frakkar samþykki ekki Maastricht-samning Evrópubandalagsins sunnudaginn 20. sept. eða hvenær sem það er sem sú þjóðaratkvæðagreiðsla á að fara fram. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé ekki spurning um hið Evrópska efnahagssvæði heldur eingöngu spurning um það hvort Evrópubandalagið fer inn á næsta áfanga í þróun til enn nánara samstarfs sem Maastricht-samkomulagið fjallar um og nú er leitað samþykkis þjóðanna við en snertir ekki hið Evrópska efnahagssvæði.