Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:58:04 (589)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég tel að frv. sé í öllum aðalatriðum eðlilegur áfangi eða eðlilegt skref í þróun í átt til frjálsari gjaldeyrisviðskipta sem hér hefur verið í gangi á undanförnum árum og hef ekki í sjálfu sér neinar grundvallarathugasemdir við þá stefnu sem í frv. birtist. Það atriði höfum við rætt hér áður, m.a. á

síðasta vetri í tengslum við tengda hluti þegar gengisskráningarfyrirkomulag og gjaldeyrisviðskipti voru ítarlega til umræðu. Ég læt nægja að vísa í þau sjónarmið sem ég setti þar fram almennt séð um þessi mál.
    Spurningin er fyrst og fremst í mínum huga hvernig við þróum fyrirkomulag þessara hluta hér á Íslandi þannig að breytingar í þessa veru geti tekist með farsælum hætti. Það er framkvæmdaratriði sem ég held að varði ákaflega miklu og tengist m.a. þessum atriðum, viðskiptum með gjaldeyrismál. Það tengist auðvitað gengisskráningunni sjálfri, fyrirkomulagi hennar, það tengist stöðu Seðlabankans og burðum hans til að sinna sínu hlutverki. Það er ákaflega erfitt að ræða þetta aðskilið, svo nátengdir eru þessir hlutir.
    Ég ætla að þessu sinni ekki að hafa langt mál og vísa til þess sem ég hef áður sagt um þetta. Ég á sömuleiðis sæti í þeirri nefnd sem fær þessi mál til skoðunar og hef þar af leiðandi tækifæri til að fara betur ofan í saumana á ýmsu.
    Það eru aðeins nokkur atriði sem ég vil segja á þessu stigi og þau varða í fyrsta lagi öryggisákvæði í 3. gr. frv. Það má auðvitað skoða frá ýmsum hliðum, a.m.k. tveimur. Annars vegar þeirri hvort þarna séu á ferðinni varhugaverð ákvæði hvað það snertir að stjórnvöld geti lagt stein í götu viðskipta og gert fyrirtækjum erfitt fyrir sem standa í viðskiptum með skyndiákvörðunum á grundvelli þessarar greinar. Það má segja að menn væru að skoða þetta frá þeirri áttinni að þeir óttuðust það takmarkandi vald sem stjórnvöldum eða Seðlabanka væri þarna veitt. En það má líka skoða það frá hinni hliðinni og ég tek fram að ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu fyrrnefnda. Ég óttast ekki að þó svo að gripið yrði til takmarkandi aðgerða varðandi skammtímahreyfingar ættu menn að þurfa að bera sig illa undan því og það fer auðvitað líka mikið eftir hvernig því valdi verður beitt. Ég tel ekkert síður ástæðu til að velta því fyrir sér frá gagnstæðri hlið hvort það er tryggilega um hnútana búið að afgreiða breytingar á viðskiptum með gjaldeyri sem afnema með öllu úr lögum heimildir stjórnvalda til að grípa til róttækra ráðstafana ef virkilegur voði er fyrir dyrum, hrun blasir við eða ef þessi viðskipti komast í verulegt uppnám af einhverjum ástæðum. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Hefur það ekki verið rætt að eitthvert almennara öryggisákvæði væri fyrir hendi. Að sjálfsögðu má alltaf hugsa sér að miðað við slíkar aðstæður gætu menn gripið til lagasetningar. Hið fræga bráðabirgðalagavald er enn fyrir hendi, eins og mönnum er í fersku minni hér, ef einhver ósköp dyndu yfir, það yrði meiri háttar verðhun, eitthvert kreppuástand, ófriður eða annað því um líkt leiddi til þess að færu öll venjubundin viðskipti með gjaldeyri í uppnám.
    Ég er að spyrja m.a. undir nokkrunm áhrifum af því að við höfum séð til mikilla sviptinga í þessum efnum ekki langt frá okkur á undanförnum dögum. Manni eru auðvitað ofarlega í huga þær miklu sviptingar sem orðið hafa í gjaldeyrismálum vinaþjóðar okkar, Finna, og eru auðvitað talsverð tíðindi þegar litið er yfir þróun þeirra mála síðasta ár. Þar hafa menn einmitt verið, bæði í Finnlandi og reyndar í nágrannalöndunum sem orðið hafa fyrir áhrifum af breytingum hjá Finnum, t.d. Svíar og Norðmenn, að grípa til ýmissa ráðstafana eins og stórhækkunar á vaxta- og skammtímaskuldbindingum. Menn hafa ekki gengið svo langt að stöðva þær en róttækar aðgerðir af skyldum toga hafa þar verið á ferðinni.
    Ég velti því t.d. fyrir mér hvort það sé með öllu óhugsandi að skynsamlegt gæti verið að að loka slíkum viðskiptum einhverja klukkutíma eða sólarhring ef svo ber undir. Nú eru dæmi þekkt um að menn loki fyrir viðskipti, t.d. með hlutabréf eða þvílíka hluti, þegar uppnám skapast og bíða af sér verstu hryðjurnar. Það geta verið klukkutímar eða kannski einn til tveir sólarhringar. Það er auðvitað þekkt úr viðskiptum víða að. Úr því að menn viðurkenna með 3. gr. laganna þörfina fyrir það að hafa einhver úrræði af þessu tagi inni í löggjöfinni um sjálf gjaldeyrisviðskiptin finnst mér það vera á réttum stað að ræða það hver þau úrræði eiga þá að vera, hvers eðlis og við hverju sé skynsamlegt að vera viðbúinn í þeim efnum.
    Ég er talsmaður þess að haldið sé í frjálsræðisátt eins og ég hef hér gert að umtalsefni áður. Ég vona að það verði ekki snúið út úr fyrir mér eða mér lögð orð í munn þó að ég ræði um þetta atriði vegna þess að jafnágætt og frjálsræðið er, þar sem það á heima og þjónar best þeim markmiðum sem menn eru að stefna að, þá er það auðvitað jafnljóst að mönnum er fyrir bestu að búa þannig um hnútana að það gangi, geti með eðlilegum hætti gengið fyrir sig. Stundum þurfa að vera bremsur, einhverjir neyðarhemlar sem hægt er að taka í til að unnt sé að verja og viðhalda slíku kerfi viðskipta. Annars er hætt við að það sæki í alveg öfugt horf og menn freistist til að reyna að binda þetta með öðrum hætti.
    Það er, eins og ég áður sagði, ákaflega erfitt að ræða þetta nema fjalla um það í beinu samhengi við gengisskráninguna sjálfa. Ég leyni því ekki að ég er auðvitað að ræða þetta undir áhrifum af því að menn stefni hér að meiri markaðsskráningu gengis. Það hefur einnig verið rætt og í því ljósi verði að skoðast ákvæði af því tagi sem í 3. gr. eru, að á komandi árum búa menn sig undir vaxandi markaðsskráningu á gengi krónunnar. Þá verður líka búist við þeim sveiflum og sviptingum sem við sjáum allt í kringum okkur að geta orðið í slíku fyrirkomulagi og jafnvel hjá miklu stærri og efnahagslega sterkari þjóðum en okkur.
    Ég spyr hæstv. viðskrh. um þessi atriði. Telur hann að það sé fullnægjandi eða skynsamlegast að ganga frá þessu svona í löggjöf um gjaldeyrisviðskiptin sjálf? Er það e.t.v. í trausti þess að önnur úrræði, þ.e. þau sem menn hafa samkvæmt gjaldeyrisskráningarreglunum og í gegnum afl miðbankans til að kaupa og selja og þannig jafnvægisstilla gengi gjaldmiðlanna, með slíkum sameiginlegum úrræðum sé þetta nógu tryggt. Ég vil a.m.k. fyrir mitt leyti að það komi fram að ég væri tilbúinn til að skoða 3. gr. eða aðrar slíkar með mjög opnum huga og þá með því hugarfari að menn hefðu þarna inni þau öryggisúrræði sem teldust alveg fullnægjandi miðað við okkar aðstæður. Auðvitað verðum við að muna að við erum að tala nánast um það heimsviðundur og það merkilega ,,experiment`` sem það auðvitað er að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli hjá jafnlítilli sjálfstæðri þjóð sem Ísland er og ætla okkur jafnvel að stíga skref í átt til frjálsrar markaðsskráningar á þeim gjaldmiðli á komandi árum.
    Því er auðvitað ekki að leyna heldur að það er fleira en ástandið í Finnlandi sem gæti verið áhugavert að ræða við þessar aðstæður og hér var aðeins komið inn á þróun mála í Evrópu af hv. síðasta ræðumanni. Það er fleira en álitamál um framtíð markaðarins sem tengist atkvæðagreiðslu Frakka um Maastricht-samningana sem þar er að gerast. Þar eru líka miklar hræringar á gjaldeyrismarkaði. Gjaldeyrissamstarf Evrópubandalagsþjóðanna hangir á bláþræði að margra mati og ríkisstjórnir Bretlands og Ítalíu hafa neyðst til að grípa til stórtækra aðgerða til að reyna að verja sig og sinn gjaldmiðil innan ramma gjaldmiðlasamstarfs Evrópubandalagsins. Þar má nánast ekkert út af bera eins og menn vita. Það er til marks um það hversu vakurt þetta ástand er, ég vona að menn skilji þá líkingu, að ekki þó stærri eða þyngri gjaldmiðill en finnska markið skuli setja allt þetta gjaldeyrisgúmmúlaði í uppnám eins og gerðist og að gengisfelling finnska marksins skyldi valda umtalsveru umróti á öllum gjaldeyrismörkuðum Evrópu og breyta innbyrðis hlutföllum milli dollars og Evrópumynta og hvað eina. Það segir sína sögu um það hversu viðkvæmt þetta ástand er. Þetta held ég að við verðum að hafa í huga þegar við ræðum kerfisbreytingar eins og hér eru á ferðinni í gjaldeyrisviðskiptum í átt til meiri þátttöku okkar eða tengingar við þennan markað. Ég læt þetta nægja um þessi efni en mér fyndist fróðlegt að heyra hæstv. viðskrh. koma inn á þessa hluti.
    Ég vil aðeins nefna, eins og fleiri, 11. gr. Mín spurning til hæstv. viðskrh. í því sambandi er einmitt um hana: Verður það ekki tryggt að nauðsynlegar upplýsingar komist til skila, þeim verði kerfisbundið safnað og skráð sem leyfisbundin gjaldeyrisviðskipti hafa áður sjálfkrafa tryggt að væru fyrir hendi? Ég er t.d. að hugsa hér um hagskýrsluupplýsingar og upplýsingar um gjaldeyristekjur einstakra atvinnugreina og annað því um líkt. Ég kynntist því sjálfur fyrir nokkrum árum síðan að þar var veruleg brotalöm að ýmsu leyti hjá okkur, t.d. hversu aðgengilegar upplýsingar lágu fyrir um gjaldeyristekjur atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu. Það var talsvert unnið að því á sínum tíma að safna slíkum upplýsingum og bæta úr þeim hlutum. Ég vænti þess og veit reyndar að það er að mörgu leyti í batnandi horfi. En nú er hér verið að leggja til breytingu sem getur haft talsverð áhrif á aðstæður í þessum efnum. Þá er sett inn 11. gr. um að það sé skylt að veita Seðlabankanum allar upplýsingar til þess að hann geti sinnt nauðsynlegu eftirliti og hagsýslugerð. Ég held að það skipti mjög miklu máli að vandaður verði allur undirbúningur hvað framkvæmdina snertir og ekki komi upp nein totgstreita milli aðila í þessu sambandi, bankanna, Seðlabankans, Hagstofunnar og þeirra aðila sem hér þurfa að starfa saman. Það er ákaflega mikilvægt að hafa greiðar og góðar upplýsingar um hluti eins og þessa, gjaldeyristekjur og gjaldeyrisútgjöld og annað sem fróðlegt getur verið að skoða þegar afkoma og starfsskilyrði og framlegð einstakra aðila til þjóðarbúsins eru metin. Og ég vona að hæstv. viðskrh. geti fullvissað okkur um að þessum hlutum verði bærilega fyrir komið.
    Að lokum um reglugerðaráráttu sem er eðlilegt að menn staldri við, kannski ekkert sérstaklega út af þessu frv. heldur vegna þess að við höfum á undanförnum mánuðum ekki síst séð ærið skrautlega hluti í vissum tilvikum um hugkvæmni manna í þeim efnum að skipa meira og minna út og suður öllum hlutum með reglugerðarvaldi. Að afla svo víðtækrar heimildar löggjafans til reglugerðarútgáfu að það jaðrar við að meira og minna lagasafnið yrði óþarft með tímanum, ef svo heldur fram sem horfir, og óhætt væri bara að setja ein stutt lög fyrir hvert málasvið sem hljóðuðu þannig að ráðherra skipaði þeim með reglugerð. Frægust er auðvitað 4. gr. frv. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem er með ólíkindum og annað eins hefur líklega aldrei í samanlagðri sögu löggjafarsamkomunnar sést eins og það altæka vald til reglugerðarútgáfu um öll framkvæmdaratriði samningsins, allt sviðið, sem þar er á ferðinni.
    Það eru á dagskránni líka kunningjar þar sem eru nokkuð skrautleg reglugerðarákvæði. Ef ég man rétt eru á dagskránni frv. til laga um húsgöngusölu, eða hvað það nú heitir, ( GHelg: Húsgöngu- og fjarsölu.) húsgöngu- og fjarsölu og síðast þegar ég sá það frv. var í því ærið skrautleg heimildargrein til reglugerðarútgáfu. Kannski er búið að laga það eitthvað til, ég veit það ekki. En þetta var uppkast að frv. sem við fengum í efh.- og viðskn. í sumar. Hér er, án þess þó að þetta frv. skari fram úr á nokkurn hátt í þessari reglugerðarhugkvæmni, ákveðinn ósiður á ferðinni í þessum efnum sem ég kann ekki vel við og hann er sá að í einstökum greinum frv., á einum tveimur stöðum, er sagt að þessum tilteknu atriðum skuli ráðherra skipa nánar með reglugerð. Í 8. gr. segir:
    ,,Ráðherra setur í reglugerð að fenginni tillögu Seðlabankans nánari reglur um leyfi til gjaldeyrisviðskipta, þar á meðal um skilyrði fyrir leyfisveitingu og afturköllun leyfis.``
    Og í 10. gr. segir: ,,Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd 1. mgr.``
    En þetta er ekki nóg því þetta er afmarkað og þetta bindur reglugerðarvaldið sem þarna er framsalað við ákvæði þessarar greinar og skilyrðir það nánar. Þess vegna er sett í lokin, eins og stundum áður, nánar tiltekið í 14. gr., þessi setning:
    ,,Viðskrh. fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.``
    Og þá spyr ég: Til hvers eru ákvæðin í 10. gr. og 8. gr. úr því að í lokin er svona til öryggis sippað inn í lögin einu almennu reglugerðarákvæði um allt saman? Þetta kemur inn á það mál hvernig menn vilja ganga frá, takmarka og búa um heimildir til reglugerðarútgáfu í lögum af þessu tagi almennt séð. Er það t.d. hin rétta formúla að hafa inni í einstökum greinum frv. sjálfstæðar heimildir til reglugerðarútgáfu hvað þær snertir en klykkja svo út í lokin með einni almennri heimild sem tekur yfir allt svið laganna og þar með er í rauninni tvítekin með vissum hætti þessi heimild til handa hæstv. ráðherra? Mér finnst þetta ekki skemmtilegur svipur a.m.k. hvað uppsetninguna á þessu snertir. Ég er ekki að halda því fram að þarna sé út af fyrir sig á nokkurn hátt verið að ganga lengra en oft er gert. Mér finnst þó að mörgu leyti eðlilegast að reglugerðarvaldið sé skilyrt, þ.e. búið sé um það með ákveðnu orðalagi hvaða þáttum ráðherra getur skipað með reglugerð á grundvelli laganna og í grófum dráttum hvernig. Þannig fylgi af hálfu löggjafans ákveðin leiðsögn um hversu víðtækt reglugerðarvaldið sé, til hvaða þátta laganna það taki og hvernig skuli um það búa í grófum dráttum. Ég tel ákvæði 8. gr. í raun og veru alveg eðlilegt. Ég held að það sé einmitt hlutur sem sé eðlilegt að tekið sé fram um að með vissum og tilskildum hætti ráðherra skuli skipa með reglugerð. Ég held að hvað viðskiptafyrirkomulagið sjálft snertir þá væri það ástæðulaus sparðatíningur að fara að hafa það inni í lögunum sjálfum og þess vegna sé að mörgu leyti fullkomlega eðlilegt að þar sé sérstaklega aflað heimildar til að skipa því nánar með reglugerð.
    En alla vega hvað þetta snertir að lokum, þá tel ég að framsetingin í þessu litla frv. sé ekki til fyrirmyndar þó að hún sé út af fyrir sig ekki verri en við höfum oft áður séð.
    Hér er þó eitt sem er jákvætt og er rétt að halda því til haga og viðurkenna það sem vel er gert, þ.e. að birt eru drög að reglugerð um gjaldeyrismál sem fskj. með frv. Það er til bóta. Það er, má segja, til fyrirmyndar að við afgreiðslu laganna á þinginu sé einmitt þannig staðið að málum. Ég skal verða manna fyrstur til að viðurkenna það sem vel er gert og það breytir ekki miklu í mínum huga þó að ég sjái að vísu, ef maður fer nú ofan í smáatriðin, að þessi drög eru í reynd úrelt því að þau miða við ákvæði óbreyttra eða gildandi laga um fjárfestingu erlendra aðila en frv. sjálft er hins vegar tengt gildistöku EES-samningsins sem mun aftur leiða til viðamikilla breytinga á nefndum lögum og fella þarf út fjölmörg ákvæði sem í reglugerðardrögunum eru inni, t.d. um takmarkanir á heildarfjárfestingum erlendra aðila, takmarkanir á eignarhlut erlendra aðila í flugrekstri, bönkum og fleira. Þess vegna er það auðvitað þannig að væntanlega stendur til og er í undirbúningi reglugerð á grundvelli svo breyttra ákvæða um þessi efni sem af gildistöku EES-samningsins leiðir nema hæstv. viðskrh. sé e.t.v. að gefa okkur í skyn að hann reikni ekki með því að sá samningur gangi í gegn á næstunni heldur muni lögin um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri frá 1991 standa óbreytt um ókomin ár og þess vegna séu reglugerðardrögin svo úr garði gerð. En hvað sem innihald þeirra snertir þá er það jákvætt að mínu mati að sýnd er sú viðleitni að hafa sem fskj. með frv. uppkast að reglugerð sem málinu tengist.
    Herra forseti. Ég læt þetta nægja af minni hálfu en áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess við síðari umræðu málsins að útlista sjónarmið mín betur eftir að hafa haft þá tækifæri til þess að skoða það nánar í nefnd.