Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:20:34 (590)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. að hann teldi þetta frv. eðlilegan áfanga í átt til frjálsari gjaldeyrisviðskipta. Vegna þeirra mála, sem hann vakti sérstaka athygli á, vildi ég taka fram um öryggisákvæðin í 3. gr. að ég tel að þau séu alveg fullnægjandi til að bregðast við vanda af því tagi sem hv. þm. gerði að umtalsefni, óróleika og óstöðugleika í gjaldeyrisviðskiptum. Þau eru til þess hugsuð og að mínu áliti nægilega víðtæk til þess að bregðast við slíkum vandamálum og tel ég ekki þörf á frekari lagaákvæðum þess vegna. En auðvitað er það hárrétt athugað hjá þingmanninum að það er fyrst og fremst á sviði viðskipta með gjaldeyri og verðbréf sem hugmyndin er að Seðlabankinn í framtíðinni hafi áhrif á þessum markaði. En eins og þau dæmi, sem hv. þm. nefndi og eru mönnum fersk í huga, frá óróleika og óstöðugleika á hinum norræna gjaldeyrismarkaði og reyndar víða um Evrópu, eins og þau dæmi sýna, þá getur þar stundum borið að höndum með skyndilegum hætti vanda sem ekki er auðvelt að sjá fyrir. En ég fullvissa hv. 4. þm. Norðurl. um að einmitt þessi mál hafa verið mjög rækilega athuguð og niðurstaðan er þessi tillaga. Ég tel mjög nauðsynlegt að hv. efh.- og viðskn. fjalli einmitt um það hvort þetta öryggisákvæði sé hið rétta og skynsamlega en að sjálfsögðu er það mín skoðun og mín tillaga að þetta sé sá umbúnaður sem við höfum um þetta.
    Ég tek það fram að ég tel að ef við gengjum lengra í þessu værum við farin að ganga gegn tilgangi þessa lagafrv. sem er að gjaldeyrisviðskipti séu yfirleitt frjáls en eingöngu í undantekningartilfellum bundin hömlum með lögum sérstaklega. Það er eðlisbreytingin frá þeim lögum sem eru í gildi og hafa verið að þar er allt í reglugerðarvaldi ráðherrans öfugt við það sem þetta frv. felur í sér og þar með er ég kominn að þeim umræðum sem hafa orðið um reglugerðarvald og reglusetningu. Ég hélt satt að segja að hv. 4. þm. Norðurl. e. ætlaði aldrei að komast að því sem er aðalatriðið í þessu máli hvað þetta frv. varðar að þar eru einmitt sýnd drög að þeirri reglugerð sem menn hugsa sér að gildi verði frv. að lögum og hefði nú kannski verið eðlilegt að byrja á því þegar rætt var um hvernig haldið væri á regluvaldi ráðuneytis.
    Síðan kem ég að því, virðulegi þingmaður, að ég vildi vekja athygli þingheims á því að í þessu

frv. er gildistökuákvæði með mjög venjulegum hætti. Það er sagt að lög þessi öðlist þegar gildi og þá falli jafnframt úr gildi lögin frá 1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Þetta ætla ég ekkert að útskýra frekar og eðlilega eru þess vegna drögin að reglugerðinni miðuð við gildandi lög um fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri. Þetta er umræðuskjal fyrir hv. efh.- og viðskn. Þess er að vænta að fram muni koma í haust tillaga um breytingar á þeim lögum og þá er að sjálfsögðu fyrir höndum að laga reglurnar um gjaldeyrisviðskiptin að því sem þingið ákveður á þeim vettvangi.
    Ég vildi að endingu taka það fram vegna orða sem féllu um það hvernig eðlilegt væri að ákveða reglugerðarvald ráðherra í lögum. Hið almenna ákvæði 14. gr., sem hv. þm. gerði að umtalsefni, er ákaflega venjulegt að formi. Það má heita að það hafi verið regla í lagasetningu á Íslandi um langan aldur að hafa reglusetningarvaldið sett undir lok lagabálks með þeim almenna hætti sem þarna greinir. Um það má hafa marga skoðun. En þetta er venjulega aðferðin. Ég tek undir það sem fram kom að það er eðlilegt að hnitmiða regluvaldið þar sem það er sérstaklega stofnað eins og gert er í 8. gr. og 10. gr. einmitt til þess að alveg sé ljóst frá upphafi að um þetta megi setja reglur sérstaklega þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um að þarna sé lagastoðin í lagi. Um þessi efni ætla ég ekki að hafa fleiri orð en þakka þær ábendingar og þann stuðning við þetta frv. sem fram hefur komið við umræðuna.