Innflutningur

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:25:36 (591)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um innflutning. Þetta frv. er á þskj. 6. Það er flutt samhliða frv. til laga um gjaldeyrismál sem er á þskj. 5 og hér er lagt til að þessi tvenn lög komi í stað núgildandi laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Í þeim lögum er bæði fjallað um gjaldeyrismál og innflutningsmál, enda hafa gjaldeyrisverslun og gjaldeyrishöft löngum verið nátengd innflutningsverslun og innflutningshöftum. Nú er lagt til að þessir tveir málaflokkar verði aðskildir í lögum þar sem gjaldeyrismál tengjast í æ ríkara mæli ýmiss konar fjármagnshreyfingum fremur en greiðslum fyrir innflutning og lántökum vegna hans.
    Frv. er í samræmi við ákvæði EES-samningsins um frjáls viðskipti með vöru og þjónustu.
    Í lögunum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála frá 1979 kemur fram sú meginregla að innflutningur skuli ekki háður leyfum nema annað sé ákveðið í sérstökum lögum, reglugerðum eða auglýsingum. Listi yfir þær vörur, sem háðar eru innflutningsleyfi, hefur styst smátt og smátt. Landbúnaðarvörur hafa lengst af verið meginuppistaða þessa lista. Á síðari árum hafa einnig verið á honum ýmsar olíuvörur, bensín og ýmiss konar burstar. 1. jan. 1991 var bensín fellt út af listanum. Í október 1991 hurfu þaðan nokkrar tegundir bursta og pensla og frá og með 1. jan. 1992 voru brennsluolíur, gasolíur og jarðolíur með öllu felldar út af þessum lista. Eftir standa fjölmargar landbúnaðarvörur auk tveggja vöruflokka af burstum en með þeim innflutningstakmörkunum er verið að vernda framleiðslu Blindrafélagsins.
    Efnisatriði frv. eru nánast þau sömu og innflutningsákvæðanna með lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Í frv. kemur fram sú meginregla að innflutningur á vöru og þjónustu til landsins skuli vera óheftur. Innflutningsfrelsið hefur reynst okkur vel og ég trúi ekki að nokkur vilji hverfa frá því. Lagt er til að einungis verði unnt að víkja frá meginreglunni um innflutningsfrelsi með stoð í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.