Öryggi framleiðsluvöru

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:41:32 (594)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um öryggi framleiðsluvöru sem er á þskj. 8 en þetta frv. er samið í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það var upphaflega lagt fram á 115. löggjafarþingi en kom þá ekki til umræðu.
    Efh.- og viðskn. fékk frv. til umfjöllunar og sendi það til umsagnar ýmsum aðilum sem málið varðar. Það bárust engar efnislegar athugasemdir en hins vegar nokkrar formlegar athugasemdir og málið er því lagt fram svo til óbreytt frá því sem það var á 115. þingi.

    Við samningu frv. var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópubandalagsins varðandi öryggi framleiðsluvöru en þessi tillaga var endanlega samþykkt í júní sl. og eiga ákvæði tilskipunarinnar að hafa tekið gildi í löndum Evrópubandalagsins eigi síðar en 1. júlí 1994. Frv. er einnig byggt á sænskum og norskum lögum um þetta efni, en í nágrannalöndum okkar hafa verið í gildi almenn lög um vöruöryggi árum saman.
    Hér á landi hafa ekki verið í gildi sérstök lög um öryggi framleiðsluvöru en hins vegar hafa ákvæði laga nr. 24/1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, náð til þessa atriðis að hluta. Þessi lög eru nú í endurskoðun að því er varðar matvælin og kemur þetta frv. í stað þess sem þá stendur eftir af lögunum frá 1936.
    Samkvæmt 72. gr. og XIX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er áformað að samræma löggjöf ríkja efnahagssvæðisins á sviði neytendamála með ákveðnum hætti og eru þar á meðal nefndar tilskipanir Evrópubandalagsins varðandi öryggi leikfanga og um vörur sem geta reynst hættulegar heilsu og öryggi neytenda þar eð þær virðast aðrar en þær eru. Í viðskrn. eru í undirbúningi reglugerðir til þess að uppfylla ákvæði þessara tilskipana og munu þær verða samdar á grundvelli laganna um öryggi framleiðsluvöru ef þetta frv. verður að lögum.
    Markmiðið með setningu þessara laga er að koma í veg fyrir að vara og þjónusta geti valdið tjóni á mönnum, munum og umhverfi. Til að stuðla að því er seljanda gert skylt að gefa nauðsynlegar upplýsingar í öryggis- og aðvörunarskyni og í vissum tilfellum er hægt að banna honum að bjóða fram vöru eða þjónustu eða skylda hann til þess að afturkalla vöru eða þjónustu af markaði. Framkvæmd laganna mun verða í höndum viðskrh. og er áformað að hann setji reglugerð um nánari fyrirmæli um framkvæmd.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. til neytendalaga, ef að lögum verður, mun mjög auðvelda eftirlit með vöru og þjónustu á markaðnum þannig að hægt ætti að vera að koma í veg fyrir að slík vara eða þjónusta nái til neytanda og valdi honum tjóni. Ég legg því áherslu á að frv. fái afgreiðslu á þessu hausti og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.