Húsgöngu- og fjarsala

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:56:49 (600)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um húsgöngu- og fjarsölu sem er á þskj. 10 en þetta frv. er flutt í tengslum við frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið. Það var upphaflega lagt fram á 115. löggjafarþingi en fékk þá ekki umræðu. Efh.- og viðskn. fékk frv. til meðferðar í sumar og hún sendi það til umsagnar ýmissa aðila sem láta sig málið varða. Frv. er hér lagt fram að nýju með smávægilegum breytingum í ljósi þessara athugasemda.
    Í 72. gr. EES-samningsins, sem vísar til XIX. viðauka við hann, samþykkja stjórnvöld í EFTA-ríkjunum að laga löggjöf sína að tilteknum gerðum Evrópubandalagsins. Þar á meðal er tilskipun Evrópubandalagsráðsins frá 22. des. 1985 sem fjallar um húsgöngusölu og er þetta frv. sniðið eftir efni hennar. Einnig er við gerð frv. höfð hliðsjón af tillögu að tilskipun Evrópubandalagsins varðandi fjarsölu en með

slíkri sölu er átt við viðskipti þar sem kaupandi og seljandi hittast ekki heldur fer sölustarfsemin fram með aðstoð síma, bréfsíma, sjónvarps, með útsendum pöntunarlistum eða með tölvusamskiptum. Þetta form viðskipta fer nú óðum í vöxt.
    Markmiðið með frv. er að sett verði lög sem verndi neytendur gegn óréttmætum viðskiptaháttum er tengjast sölumennsku utan fastra starfsstöðva verslunarmanna eða verslunarfyrirtækja og verður þörfin fyrir slíka vernd mikilvægari eftir því sem söluaðferðunum fjölgar og augljóst að flest ákvæði gildandi kaupalaga, sem verja hagsmuni neytenda, byggjast á því að um ákveðna verslunarstaði sé að ræða. Viðskiptahættir þar sem seljendur og kaupendur gera með sér samninga eða takast á hendur einhliða skuldbindingar utan starfsstöðvar seljandans verða æ algengari í okkar samfélagi.
    Það sem einkennir þessa samninga er að það er nær undantekningarlaust seljandinn sem á frumkvæðið að viðskiptunum. Neytandinn er því oft óviðbúinn viðskiptum og tilboð seljenda geta komið honum í opna skjöldu. Neytendum gefst sjaldan kostur á að bera gæði og verð tilboðsins saman við önnur tilboð á markaðnum ólíkt því sem er um viðskipt þar sem neytandinn, kaupandinn á frumkvæði að viðskiptunum.
    Virðulegi forseti. Frv. þetta, ef að lögum verður, mun auka vernd neytenda gegn seljendum þegar gerðir eru samningar á faraldsfæti utan fastrar starfsstöðvar seljandans. Ég legg áherslu á að frv. fái afgreiðslu á þessu hausti og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.