Húsgöngu- og fjarsala

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:00:01 (601)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki stillt mig um, þegar verið er að tryggja rétt manna við kaup á því sem selt er við dyrnar, eftir því sem ég skil þetta frv., enn og aftur, af því að nú eru um það bil tíu ár síðan ég gerði það fyrst, að spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. hvað líði löggjöf um greiðslukort. Það er með ólíkindum að það skuli hafa tekið a.m.k. tíu ár að koma í gegnum þingið lögum um greiðslukortaviðskipti. Ég vil spyrja í fáfræði minni: Hvernig er slíku háttað í hinum væntanlegu samstarfslöndum Evrópska efnahagssvæðisins? Illa trúi ég því að greiðslukortaviðskipti hafi ekki lagastoð í þessum löndum og ég vil a.m.k. spyrja hvort ekki sé örugglega svo og þar með hvenær við megum vænta þess að hið háa Alþingi komi frá sér löggjöf um greiðslukortaviðskipti.