Húsgöngu- og fjarsala

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:10:42 (605)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl. dró athygli okkar að því að í 5. gr. frv. er tilvísun til reglna sem samþykktar kynnu að verða um neytendavernd í samstarfi ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Ég get verið honum sammála um að það kunni að mega orða þetta með öðrum hætti og ég treysti því að hv. efh.- og viðskn. hugi gaumgæfilega að því. En ég er ekki sammála honum um að þetta sé ekki tímabær löggjöf. Því miður er ég sannfærður um að við verðum að tryggja réttarstöðu neytenda í þessum málum fyrr frekar en síðar. Ég er fullkomlega sammála honum um að við þurfum ekki að hafa þarna einhvers konar fyrirframsamþykkt á þeim reglum sem þarna kynnu að verða settar. Það má vel vera að það megi orða með öðrum hætti og ég treysti á að nefndin finni þar lausnir í samstarfi við ráðuneytið.
    En ég vil líka benda á, eins og kom reyndar fram í máli hv. 1. þm. Austurl., að það hefur verið unnið að málinu eftir að athugasemdir komu fram við það í hv. efh.- og viðskn. og reyndar hafa borist um það umsagnir og ég treysti því að þarna sé búið að halda því til haga sem mestu máli skiptir. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að vinda að því bráðan bug að skýra þessa réttarstöðu þar sem svo mjög hallar oft á aðstöðu samningsaðilanna þegar slíkir samningar eru gerðir um kaup sem hér er verið að festa í lög og reglur.
    Ég er sammála hv. 3. þm. Vesturl. um að ónæði á heimilum sem fylgir sölumennsku, bæði á dyratröppum og í gegnum síma, er oft til baga. En ég held að það sé eðlilegra að um slík málefni sé fjallað í lögum um friðhelgi einkalífsins og heimilanna en í neytendaverndarlögum eins og hér er verið að brydda upp á. En ég endurtek að ég þakka þann áhuga sem þessu máli er sýndur og vonast til þess að við finnum leið til að festa þessar reglur í lög sem fyrst.