Húsgöngu- og fjarsala

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:17:51 (607)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég get verið sammála hv. 1. þm. Austurl. að það er engin sérstök hætta á að hér skapist hættuástand þótt frv. verði ekki að lögum allra næstu daga. En ég er ekki sammála honum um það að fjarsölustarfsemin sé ekki felld inn í frv. eða grein fyrir því gerð í frv. og athugasemdum með því hvernig hún tengist þessum væntanlegu lögum. Það er skilgreint í frv. hvað það er sem átt er við með orðinu fjarsala, að það séu fyrst og fremst viðskipti þar sem seljandinn hafi ekki möguleika til að skoða vöruna og hann hafi ekki hitt seljandann augliti til auglitis fyrir tilstilli fjarskipta. Í mörgum tilfellum eiga nákvæmlega sömu atriði við, þ.e. að neytandanum sé gefinn sérstakur réttur til að falla frá samningi sem gerður er við þessi skilyrði. Þetta eru hliðstæðurnar í sambandi við húsgöngusöluna og fjarsöluna og allt er þetta fellt inn í frv. Ég get því ekki varist þeirri hugsun að hv. þm. sé að tala út frá drögum að frv. sem fyrr var rætt. Ég er honum alveg sammála um að það þarf að hafa betri gát í sambandi við tilvísun 5. gr. til reglna sem settar kunna að verða á hinu Evrópska efnahagssvæði um þetta mál.
    Ég vil að endingu, frú forseti, þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir skilning hans á því viðfangsefni sem við erum hér að glíma við en um leið endurtek ég að ég tel að frv. hafi fengið þá meðferð og þann undirbúning sem við sé að búast í þessu máli. Ég held að það sé mjög til bóta að festa þessar reglur í lög og þar sé ekkert bráðræði á ferðum.