Verðbréfaþing Íslands

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:32:55 (617)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi þrjú frv. sem verið er að fjalla um og snerta verðbréf og verðbréfaviðskipti eru áreiðanlega þörf frumvörp til að ræða í sambandi við þann samning sem hér liggur frammi. E.t.v. hefði þurft að taka afstöðu til einhverra þessara mála þó svo að við værum ekki að ræða samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Ég hnaut um eina setningu þegar hæstv. viðskrh. var að mæla fyrir þessu frv. Síðasta mgr. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Heimili og varnarþing Verðbréfaþingsins er í Reykjavík.`` Mér er spurn hvort fyrirtækið sé þannig að eðli að nauðsyn sé á að það sé staðsett í höfuðstað landsins, hvort þetta byggi ekki meira á viðskiptum í gegnum fjarskipti, tölvur og aðra skrifstofuvinnu, hvort einhver nauðsyn sé á að heimili og varnarþing sé í Reykjavík.
    Í III. kafla frv. er rætt er um framkvæmdastjóra og hlutverk hans. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Framkvæmdastjórinn skal vera búsettur hér á landi.`` Ekki er tiltekið að hann skuli vera búsettur í Reykjavík, þannig að hægt væri að hugsa það mál svolítið lengra. Hvort nauðsynlegt sé ef verið er að setja á stofn eitt fyrirtæki, sem e.t.v. byggir starfsemi sína að miklu leyti á þeim viðskiptamáta sem sífellt færist í vöxt, að menn þurfa ekki að vera að rétta hver öðrum pappírana beint yfir borðið, mætti skoða staðsetninguna í víðara samhengi. Í framhaldi af því dettur mér í hug að miklar umræður hafa orðið um það að flytja hinar ýmsu stofnanir, ekki hvað síst á vegum ríkisins, út á land og þar hefur líka komið fram að mjög erfitt sé að leggja niður stofnanir í Reykjavík, eða flytja þær til eins og það heitir, en það ætti að vera miklu hægara um vik þegar verið er að búa til nýja stofnun.