Verðbréfaþing Íslands

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:36:06 (618)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. 1. þm. Austurl. gerði rekstrarform og stjórnarfyrirkomulag Verðbréfaþingsins að umræðuefni. Mig langar að taka fram í því sambandi að eins og fram kom í minni framsöguræðu er rekstrarform verðbréfaþinganna í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við, í Danmörku og Noregi, einmitt í formi sjálfseignarstofnana. Þar er reyndar, að ég tel víst, formaður stjórnanna skipaður af viðskiptaráðherranum. Ég veit að það er svo í Danmörku og ég hygg að það muni einnig vera þannig í Noregi. Ég tók hins vegar alveg sérstaklega fram í minni framsöguræðu áðan að með þessu frv. er ekki gerð tillaga um breytingu á stjórnarfyrirkomulagi Verðbréfaþingsins, sem starfað hefur samkvæmt reglum settum af Seðlabankanum, frá því sem samkomulag náðist um í upphafi þessa árs þótt vel megi hugsa sér aðra samsetningu á stjórninni.
    Ég vil eingöngu nefna þessi sjónarmið en tel ástæðu til að hv. efh.- og viðskn. fjalli um þetta og kynni sér hvernig þessu er fyrir komið í löndunum í kring. Ég tel að mjög mikilvægt sé að þessari stofnun verði fengin sú staða í okkar stjórnkerfi að hún njóti viðurkenningar og virðingar í okkar samstarfslöndum á Evrópska efnahagssvæðinu, þannig að ekki verði um það villst að hún hafi sterka stöðu og að eftirlit með starfsemi á þinginu sé í traustum og öruggum höndum.
    Hv. 6. þm. Vestf. gerði það að umtalsefni sem reyndar kom fram í mínu máli hér áðan, að heimili og varnarþing Verðbréfaþingsins væri fyrirhugað í Reykjavík. Þá vildi ég vekja athygli á að hér er í raun og veru ekki um það að ræða að setja á fót nýja stofnun, heldur er verið að breyta formi hennar. Hún er til og eins og ég hef þegar sagt í þessum fáu orðum er stjórn hennar óbreytt frá því sem var en í því að þarna er ekki tilgreint ríkisfang eða heimilisfang í nánari atriðum, annað en það að væntanlegur framkvæmdastjóri eigi að eiga heima á Íslandi, felst svo sem ekki neitt sérstakt nema að hann gæti átt lögheimili hvar sem væri á Íslandi eins og reyndar er algengt um menn sem starfa í Reykjavík.
    Um þetta tel ég ekki þurfa að hafa fleiri orð, en held að með tilliti til þess að höfuðstöðvar peninga- og fjármálastofnana í landinu eru allar í Reykjavík og að Verðbréfaþingið starfar hér þegar væri næsta óheppilegt að hugsa sér annan stað fyrir það þótt það sé að sjálfsögðu eitt af því sem hv. efh.- og viðskn. hlýtur að kanna.