Neytendalán

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:39:10 (619)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um neytendalán sem er á þskj. 14 en þetta frv. er enn eitt í röð þeirra sem lögð eru fyrir þingið í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Hér á landi eru ekki í gildi almenn lög um lánsviðskipti eða afborgunarkaup en slík lög er að finna í öllum okkar nágrannalöndum.
    Við gerð frv. voru hafðar til hliðsjónar tilskipanir Evrópubandalagsins varðandi neytendalán og einnig danskt og sænskt frv. til laga um lánssamninga sem einmitt eru á döfinni um þessar mundir í þessum tveimur löndum. Frv. hefur í sumar fengið nokkra umfjöllun hjá efh.- og viðskn. Alþingis. Eftir fund viðskrn. með nefndinni var ákveðið að taka tillit til margra umsagna sem borist höfðu frá hagsmunaaðilum og var gildissvið frv. þrengt og nafni þess breytt í frumvarp til laga um neytendalán en áður hafði það

verið kynnt sem frv. til laga um lánsviðskipti. Tilgangurinn með tilskipun Evrópubandalagsins um neytendalán er að samræma reglur í löggjöf hvers lands á sviði neytendalána, einkum reglur um það hvaða upplýsingar neytendur skuli fá í tengslum við lánveitingar. Löggjöf um þetta efni var nokkuð ólík í Evrópubandalagslöndunum. Þetta gat leitt til röskunar á samkeppnisstöðu lánveitenda eftir því hvar þeir störfuðu.
    Tilgangurinn með þessari tilskipun og breytingum á henni hefur verið að ná fram jafnari stöðu lánveitenda og að tryggja rétt neytenda. Frumvarpið sem hér er lagt fram nær til lánssamninga sem gerðir eru við lántakanda af hálfu verslana, framleiðenda og þjónustuaðila með fáum undantekningum. Það nær til lána vegna kaupa á lausafé og þjónustu og einnig til almennra neyslulána. Það tekur jafnt til lánssamninga sem einstaklingur gerir og lögaðili. Tilgangur frv. er ekki síst að bæta möguelika lántakenda til að bera saman mismunandi tilboð lánveitenda og eru ákvæði í frv. þess efnis að lánveitandi skuli upplýsa lántakanda í prósentum um svokallaða árlega hlutfallstölu kostnaðar áður en lánssamningurinn nær fram að ganga. Upplýsingar um þetta eiga að gera lántakandanum auðveldara að meta hvort hann kjósi að taka lánið sem í boði er. Gert er ráð fyrir að settar verði reglur um það hvernig árleg hlutfallstala kostnaðar verði reiknuð út og hvernig upplýsingar um hana eigi að koma fram.
    Í frv. er sérstakur kafli um endurheimt eignarréttar. Þar er gert ráð fyrir því að þegar vara er keypt með afborgunum og eignarréttarfyrirvara eigi lántakandi eða kaupandi rétt á því að leysa til sín hlut sem seljandi eða lánveitandi hefur endurheimt að vissum skilyrðum uppfylltum. Frv. hefur þann tilgang m.a. að fullnægja skilyrðum tilskipana Evrópubandalagsins um neytendalán með íslenskri löggjöf. Meginatriðið í tilskipuninni frá 1987 er að neytandinn fái upplýsingar um lántökukostnað í hundraðstölum samkvæmt árlegri hlutfallstölu kostnaðar sem ég hef þegar nefnt. Útreikningurinn á þessari tölu samkvæmt tilskipuninni átti að gerast samkvæmt gildandi aðferðum í löggjöf hvers lands.
    Samkvæmt 5. gr. tilskipunarinnar nægði að tilgreina eða gefa upp a.m.k. heildarlánskostnað neytandans á meðan beðið væri eftir samþykkt aðildarríkjanna varðandi útreikningsaðferðir fyrir þessa árlegu hlutfallstölu kostnaðar. Með tilskipun frá 1990 var þessi 5. gr. felld úr gildi og aðildarríkin skylduð til að taka upp í löggjöf sérstakan útreikning á þessari kostnaðarmælingu samkvæmt nánar tilgreindum reglum og reikna lántökukostnaðinn út samkvæmt því. Í tilskipuninni er gert ráð fyrir því að neytandinn hafi ætíð, í tengslum við lánssamning, upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar í prósentum, þ.e. samanlagðan kostnað vegna lánsins lýst sem árlegri hundraðstölu sem reiknuð er út samkvæmt sérstakri stærðfræðiformúlu. Tilskipunin leiðir einnig að öðru leyti til samræmingar á kostnaðarliðum sem eiga að koma inn í útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
    Samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði þurfa Íslendingar að uppfylla báðar tilskipanirnar og er eðlilegt að það sé gert með einni lagasetningu. Þar sem hér á landi eru hvorki í gildi lög um upplýsingaskyldu í lánsviðskiptum né neytendalán ætti frv. að vera veruleg réttarbót fyrir neytendur. Frv. tekur til lánssamninga sem gerðir eru við lántakanda í atvinnuskyni af hálfu verslana, framleiðenda og þjónustuaðila og skiptir þá ekki máli hvort lántakandi er að kaupa sér eitthvert lausafé með afborgunum eða hvort hann er að kaupa þjónustu. Nokkrar tegundir lánssamninga eru undanþegnar ákvæðum frv. Það eru einkum lánssamningar sem eru ætlaðir til að afla eða viðhalda eignarrétti á landi eða byggingu sem reist hefur verið eða áformað er að reisa eða sem ætlaðir eru til að endurnýja eða bæta slíka byggingu. Frv. undantekur einnig lán sem eru til styttri tíma en þriggja mánaða, vaxta- og kostnaðarlaus lán og lán að lægri fjárhæð en 15 þús. kr.
    Meginatriðið í frv. er að lántakandi skuli fá upplýsingar um hina árlegu hlutfallstölu kostnaðarins í prósentum í tengslum við samþykkt samningsins.
    Í íslenskum rétti hefur fram að þessu ekki verið í gildi krafa um að lántakandi skuli eiga rétt á slíkum upplýsingum. Tilgangurinn með ákvæði þessu er að gefa lántakandanum færi á að meta hversu hár kostnaður fylgir láninu. Árleg hlutfallstala kostnaðar gefur upp samanlagt verð á því að taka að láni 100 kr. í eitt ár og greinir þannig frá kostnaðinum við lánið án tillits til fjárhæðar eða greiðsluskilmála. Upplýsingar um hlutfallstöluna gera lántakandanum auðveldara að bera saman mismunandi lánstilboð og geta því komið að gagni í samkeppni og jafnvel haft áhrif til lækkunar á lántökukostnaði.
    Um útreikning þessarar tölu fer eftir stærðfræðiformúlu sem sett verður í reglugerð og er þar gert ráð fyrir að farið verði eftir samræmdum reglum á Evópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt frv. skulu upplýsingarnar um árlega hlutfallstölu kostnaðar ásamt upplýsingum um vexti og lántökukostnað koma fram í auglýsingum þar sem neytendalán eru boðin. Tilgangurinn með þessu ákvæði er að gefa lántakandanum færi á því, áður en hann tekur slíkt lán, að meta kostnaðinn og bera hann að öðru leyti saman við önnur tilboð. Verðlagsstofnun er samkvæmt þessu frv. ætlað að framfylgja lögunum. Frv. gerir ráð fyrir að lögin taki gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Lánveitandi á m.a. frá þeim tíma að upplýsa lántakanda um árlega hlutfallstölu kostnaðar í tengslum við lántöku. Það er því mjög nauðsynlegt að þessar reglur verði kynntar sem fyrst þar sem útreikningurinn er nokkuð flókinn og reyndar tel ég að með þessu frv. sé bætt úr brýnni þörf, að skylda þá sem lán bjóða að hafa skilmerkilegar upplýsingar á takteinum um það hvað þau kosti.
    Virðulegi forseti. Frv., ef að lögum verður, mun bæta réttarstöðu neytenda við gerð lánssamninga og hvetja til meiri samkeppni á þessu sviði. Ég legg því áherslu á að frv. fái afgreiðslu á þessu hausti og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.