Íslenskt ríkisfang vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:49:42 (621)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á tvennum lagaákvæðum er varða íslenskt ríkisfang. Frv. er á þskj. 15.
    Þetta frv. er samið í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og er í því fjallað annars vegar um breytingu á lögum nr. 41 frá 2. maí 1968, um verslunaratvinnu, og hins vegar um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42 frá 18. maí 1978. Efni frv. er einfalt. Það fjallar um það að veita ríkisborgurum annarra ríkja á hinu Evrópska efnahagssvæði sömu réttindi og íslenskum ríkisborgurum eru gefin með þessum lögum. Það er lagt til að skilyrðið um íslenskt ríkisfang sé fellt niður en að önnur skilyrði laganna haldist óbreytt.
    Hér er að sjálfsögðu um að ræða grundvallaratriði í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, en það er gagnkvæmur réttur ríkisborgara svæðisríkjanna til að flytja búsetu sína á milli ríkja og stunda þar atvinnu án mismununar gagnvart ríkisborgurum viðkomandi ríkis. Að sjálfsögðu fylgir það samningnum að íslenskir ríkisborgarar njóti sömu réttinda til atvinnu og starfa á þessum sviðum hvarvetna á hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á nánari framsögu fyrir þessu frv. en legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.