Íslenskt ríkisfang vegna EES

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:53:14 (623)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Það er alveg rétt ábending hjá hv. 18. þm. Reykv. að efnislega fellur 2. gr. undir hv. efh.- og viðskn. og hin fyrsta undir hv. iðnn. En þar sem hér er um að ræða sams konar breytingu í báðum tilfellum þótti eðlilegast að fella þetta í eitt frv. Ég vil benda á að samkvæmt gildandi þingsköpum er ekkert því til fyrirstöðu að hv. efh.- og viðskn. óski álits hv. iðnn. sérstaklega um þetta mál og ég efast ekki um að því máli yrði vel tekið í nefndinni.

    Síðan mætti líka nefna að annað frv., sem var rætt fyrr á þessum fundi, um faggildingu o.fl., heyrir samkvæmt sínu efni kannski jafnt undir iðnn. Ég bendi þá hv. efh.- og viðskn. á það úrræði að leita samstarfs við hv. iðnn.
    Í öðru lagi var eftir því spurt af hálfu 18. þm. Reykv. hvert væri efni tilvitnaðra tilskipana Evrópubandalagsins. Ég tek undir það með hv. þm. að það er alveg nauðsynlegt að þingmönnum sé gert kunnugt um efni og innihald þessara tilskipana áður en málið er afgreitt og mun gera ráðstafanir til að þær berist hv. efh.- og viðskn.