Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 11:14:05 (630)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil í tilefni þessa frv. koma með nokkrar ábendingar sem varða efni þess en í upphafi þó víkja svolítið almennt að þeim verkefnum sem liggja fyrir Alþingi og koma inn á okkar borð í formi frumvarpa sem þinginu er gert að fjalla um og afgreiða í framhaldi af framlögðum samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Það er nokkuð fróðlegt fyrir okkur þingmenn að sjá í einstökum atriðum hvað það er í löggjöf sem þarf að breyta að mati ríkisstjórnarinnar vegna þessa samnings og er full ástæða fyrir okkur að íhuga það jafnhliða því sem fjallað er um samninginn hvers konar skilyrði það eru sem er verið að skapa löggjafarsamkomunni með samningnum.
    Áður en ég vík frekar að þessu vil ég þó nefna að það undrar mig nokkuð að það skuli þykja sæta tíðindum að þingmenn skuli hafa þurft að ræða samninginn við 1. umr. málsins á undanförnum vikum í nokkra tugi klukkutíma en það hefur borið við að fjölmiðlar hafi verið að reikna það saman og tíunda

hvaða tími hefur farið hjá löggjafarsamkomunni í að ræða samninginn. Ég held að það hafi verið Ríkissjónvarpið sem orðaði það eitthvað á þá leið í gær sem fréttir frá Alþingi að það hafi orðið eðlisbreyting á störfum þingsins vegna þess að hér komu á dagskrá og til umræðu 12--14 lagafrumvörp og umræðu um þau flest hver var lokið og við vorum að greiða atkvæði um þau áðan.
    Ég undrast satt að segja að verið skuli að setja málin fram með þessum hætti gagnvart alþjóð vegna þess að það er samningurinn sjálfur sem skapar þann ramma að lagabreytingum sem verið er að leggja til við þingið að gerðar verði og það er undirstaða allra þeirra mála sem ríkisstjórnin leggur fram. Getur það verið undrunarefni að það sé einmitt samningurinn sjálfur sem þarfnist ítarlegrar umræðu og skoðunar þar sem hann er undirstaða þess sem hér er fram sett af ríkisstjórninni í formi fjölmargra frumvarpa? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn átti sig á því, bæði hér á löggjafarsamkomunni og í landinu almennt, að við erum að binda okkur í samningi sem dregur ramma um starfsemi á flestum þýðingarmestu sviðum þjóðmála í landinu til framtíðar á meðan honum er ekki sagt upp, ef samþykktur verður, og við losum okkur úr honum. Hér erum við aðeins að bregðast við því sem að mati stjórnvalda er nauðsynlegt vegna samþykktra laga og reglna Evrópubandalagsins en það er ekki síðasta orðið sem Evrópubandalagið segir um þessi efni. Það er bara staðan eins og hún er núna því að Evrópubandalagið er að setja hundruð nýrra laga á hverju ári og vegna þessa samnings mun mikið af þeim berast inn á Alþingi Íslendinga sem boð frá viðkomandi ráðuneytum og ríkisstjórnum. Alþingi ber skylda til að breyta lögum sínum vegna þeirra breytinga sem verða einhliða ákvarðaðar úti í Brussel þar sem Íslandi, sem þátttakanda í þessum samningi, gefst enginn kostur á að verja sig með atkvæði, aðeins með frómum óskum. Við erum að færa okkur inn á stig bænarskránna á meðan Ísland var hjálenda Danaveldis á fyrri tíð. Það eru þær aðstæður sem verið er að skapa löggjafarsamkomunni og það verður heldur hnípið lið sem mun sitja á Alþingi á næstu árum og áratugum, ef samningurinn verður lögfestur, og taka við þeim boðum sem þannig berast frá Brussel. Það getur í rauninni ekki gert annað en að rétta upp höndina eða ýta á takka eða hvaða aðferðir sem verða notaðar til að stimpla inn þær ákvarðanir sem ólýðræðisleg framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins, án nokkurs þingræðislegs aðals svo teljandi sé, ákveður upp á sitt eindæmi. Ég sé ástæðu til þess af tilefni þessa frv., sem er fyrst til umræðu og á dagskrá í dag, að mæla þessi orð og getur verið þörf á að rifja það upp oftar af tilefni þessara frumvarpa. En ég held að fjölmiðlarnir í landinu ættu aðeins að setja sig inn í það hvers eðlis það mál er sem verið er að fjalla um öðrum fremur á Alþingi á þessum síðsumardögum. Það er þessi ákvarðandi samningur, sem víkur til hliðar íslenskum lögum, og er meginmálið sem við stöndum frammi fyrir. Ætlum við að skapa þau skilyrði í landinu að við verðum að lúta þessu eða ætlar Alþingi Íslendinga að verja sig og rétt sinn til lagasetningar?
    Menn eru að vísa til þess að þetta sé nú ekki svona slæmt, menn geti sagt nei. Það er fræðilega mögulegt og kann til þess að koma í einhverjum tilvikum í framtíðinni ef þessi samningur verður að veruleika. En ég fullyrði að þau tilvik verða ekki mörg, a.m.k. sem stjórnvöld á Íslandi meta þannig að rétt sé að láta reyna á að segja nei af íslenskum löggjafa því að það kallar á gagnaðgerðir og setur samninginn í uppnám og stöðu Íslands undir þessum samningi í uppnám ef íslenskt löggjafarvald metur það svo að nú eigi að verja sig gagnvart reglusetningunni frá Brussel og segja nei. Þetta er hreint formlegt vald. Ég segi ekki að það sé algerlega einskis virði en þannig er í raun um hnútana búið í samningnum að það er lítils virði. Þess vegna er verið að þrengja kosti löggjafans með þeim hætti sem ég er að lýsa. Ætla þingmenn á Alþingi Íslendinga að beygja sig undir þetta? Fróðlegt verður að sjá hverjir það verða þegar til kastanna kemur sem ætla að beygja sig undir slík skilyrði, slíka afarkosti, fyrir þjóðríki sem til þessa hafa viljað kalla sig sjálfstæð.
    Ég ætla að víkja örfáum orðum að þeim frumvörpum sem hæstv. heilbrrh hefur mælt fyrir. Þau varpa ljósi á einn þátt þessa samnings, frjálsa fólksflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins og algerlega jafna réttarstöðu fólks á öllu samningssvæðinu, þessara 380 millj. manna, til atvinnu, til atvinnurekstrar, með örfáum undantekningum sem varðaði störf sem krefjast sérstakrar málakunnáttu eða varða öryggishagsmuni viðkomandi lands. Hæstv. heilbrrh. fór aðeins tæknilega yfir málið. Hann gerði þetta ekki að umtalsefni þegar hann mælti hér fyrir frv. Skoðanir hans í þessu máli komu ekkert fram. Þetta var hrein tæknileg framsöguræða sem var borin fram og hann bætti nánast engu við það sem stendur á þessum fáu blöðum en veruleikinn að baki tillögunum spannar ekki lítið svið sem gæti verið þörf á að ræða og ekki eingöngu varðandi þær starfsstéttir sem er mælt fyrir, heldur sem tengjast öðrum lagafrumvörpum. Eitt mun hafa verið á dagskrá í gær í sambandi við atvinnuréttindi og ríkisborgararétt. Auðvitað er nauðsynlegt að líta á þessa hluti fyrst og fremst í samhengi og það er meginatriði málsins því að hin tæknilega útfærsla skiptir kannski ekki ýkja miklu þó að auðvitað sé sjálfsagt að gaumgæfa þar einstök atriði ef menn ætla að innleiða þetta kerfi sem hæstv. ráðherra mælti fyrir.
    Með samningnum er verið að galopna íslenskan vinnumarkað og hvað snertir ófaglært fólk eru hindranirnar engar. Hvað snertir einstakar starfsstéttir þar sem sérmenntunar er krafist og skilgreininga án þekkingar og færni þarf að liggja fyrir ákveðið mat, en þar er verið að gera íslensk yfirvöld og jafnrétthá eða deila völdum íslenskra yfirvalda með yfirvöldum allra hinna landanna eins og er kjarninn varðandi þessar fimm heilbrigðisstéttir sem á að breyta lögum um. Eins og ég skil þetta eru yfirvöld í öðrum EES-ríkjum jafnbær um að segja til um hvort viðkomandi aðili hafi næga þekkingu, næga færni til þess að starfa á svæðinu öllu. Þetta varðar breytingu á fyrstu greinum þessara lagafrv. sem eru í bandormi hæstv.

heilbrrh. um það að auka þarna við þannig að yfirvöld annarra landa fái sömu stöðu og íslenskum yfirvöldum hefur verið afmarkaður samkvæmt löggjöf okkar. Þetta leiðir af eðli samningsins að svona er á þessu haldið. Menn komast ekkert undan því að breyta hlutum í þessa veru og innleiða fjölmargar aðrar breytingar sem hér eru lagðar til vegna yfirákvæða samningsins.
    Stjórnvöld og fleiri, sem hvetja til þess að EES-samningurinn verði samþykktur, hafa verið að hugga launafólk á Íslandi sem hefur eðlilega miklar áhyggjur af samningnum með því að í honum séu undantekningarákvæði eða eitthvað slíkt þar sem hægt sé að stinga við fótum ef í óefni horfir. Hér er farið mjög villandi með stöðu mála svo að vægt sé til orða tekið. Það eru nákvæmlega engin undanþáguákvæði að því er snertir frjálsa fólksflutninga til og frá landinu í samningnum, ekki nokkur önnur en hin almennu öryggisákvæði samningsins eins og þau eru kölluð, nauðvörnin, sem gefur hins vegar öðrum rétt til þess að grípa til gagnaðgerða. Aðeins er um að ræða einhliða yfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar, smáprótokoll, sem fylgir samningnum um að hún áskilji sér rétt til að grípa til öryggisráðstafana. En ekki liggur nokkur skapaður hlutur fyrir um það sem gefur þessari yfirlýsingu einhverja réttarlega stoð í samhengi samningsins, ekki nokkra. Ég vek m.a. athygli á þessu í tengslum við þær breytingar sem er mælt fyrir af hæstv. heilbrrh. varðandi breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Menn hafa rætt stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs í tengslum við stöðu atvinnuleysistrygginga hér á landi, stöðu þessa sjóðs sem verður gjaldþrota innan skamms ef ekki verður séð fyrir auknum tekjustofnum og ef svo hörmulega heldur fram sem spádómar liggja fyrir um frá stofnunum í landinu og stjórnvöldum um vaxandi atvinnuleysi hérlendis. Öllum á EES-svæðinu, sem fá atvinnurétt á Íslandi, er veittur aðgangur að atvinnuleysistryggingum og má auðvitað segja að það sé ofureðlilegt eins og málið er fyrir lagt. Það er þessi jafnstaða allra í landinu varðandi vinnumarkaðinn, en ég held að menn þurfi aðeins að staldra við þessar ákvarðanir og hugleiða svo hverjar afleiðingarnar geta orðið af þessari breytingu fyrir atvinnu okkar fólks, okkar Íslendinga sem leita atvinnu í okkar landi og þeirra sem hingað sækja og leita atvinnu og fá þennan rétt og verða þar með samkeppnisaðilar í þessum efnum.
    Ef litið er til liðinnar tíðar er það ekki síst í fiskvinnslu sem útlendingar hafa leitað starfa hér á landi, flestir tímabundið, enda ekki um að ræða nema tímabundinn rétt samkvæmt núgildandi löggjöf um atvinnuleyfi, þriggja mánaða leyfi sem þarf þá að endurnýta eða endurmeta. En með þessum samningi fellur slíkt burtu. Ef atvinnurekandi ræður starfsmann er hann búinn að fá sama rétt og Íslendingar í landinu til atvinnu til ótiltekins tíma og rétt til tryggingabóta, félagsleg réttindi til jafns við aðra. Út af fyrir sig er þetta ósköp falleg hugsun og grundvallast á þeirri réttarstöðu sem verið er að innleiða með samningnum.
    En það verður dálítil breyting á eðli íslensks vinnumarkaðar eftir að þetta hefur verið innleitt. Við skulum hugsa okkur fyrirtæki í fiskvinnslu sem hefur ráðið útlendinga í vinnu vegna tímabundinna aðstæðna eins og gerst hefur á liðnum árum til þriggja mánaða með réttindi til að segja viðkomandi upp og án þess að það skapi nokkrar sérstakar tryggingalegar skyldur eða að öðru leyti til lengri tíma. Þetta verður með allt öðrum hætti ef þetta verður lögfest sem hér er lagt til. Þá fer sá sem sagt er upp atvinnu af viðkomandi atvinnurekanda inn á atvinnuleysisbætur ef hann verður sér ekki úti um aðra vinnu og heldur rétti til atvinnuleysisbóta alveg til jafns við Íslendinga og til annarra bóta og réttinda. T.d. hljóta sveitarfélögin, sem verða nú ekkert lítill aðili þessa máls, að þurfa að sjá fyrir þjónustu gagnvart þessu fólki ekkert síður en öðrum og hafa nákvæmlega sömu skyldu þar að gegna í þeim efnum.
    Ég held að það geti orðið freistandi í framtíðinni fyrir ýmsa sem búa við lakari kjör og lakari aðstæður á Evrópsku efnahagssvæði en við Íslendingar höfum, t.d. fyrir fólk úr Miðjarðarhafslöndum, að leita hingað í skjól þeirra réttinda sem íslensk verkalýðshreyfing hefur áunnið sér og fengið fram með löggjöf og nýta sér það sem hér er boðið upp á, ekki aðeins fyrir viðkomandi aðila sem hér fær atvinnuleyfi samkvæmt þessum rétti sem er verið að skapa, heldur fyrir skyldulið sitt sem samningurinn gerir ráð fyrir að geti flust til landsins óhindrað og sest hér að og fái þá sömu réttindi og aðrir sem búa í landinu.
    Í tengslum við samninginn hefur verið talað um svokallaða félagslega vídd og er margt ágætt í sambandi við þá hugsun út frá því spori sem menn eru hér inn á, það er ágætt. En svo vill bara til að það er allt saman laust í hendi sem snýr að hinni svokölluðu félagslegu vídd, ,,sósíal dímensjón`` eins og þetta er kallað á útlendu máli. Það er allt saman enn sem komið er frómar óskir á blaði, ófrágengið af hinni almáttugu framkvæmdastjórn í Brussel en hefur auðvitað verið svona reitt fram til að hugga sósíaldemókratíið í Evrópu sem er einn af frumkvöðlum þessa máls ásamt stórfyrirtækjunum. Hugmyndalegir smiðir þessa samnings eru fremstu foringjar sósíaldemókrata í Evrópu, þ.e. í Evrópubandalaginu og á Norðurlöndum, ásamt talsmönnum stórfyrirtækjanna, fjölþjóðafyrirtækjanna sem eru í rauninni aðalleikarinn á sviðinu, kapítalið í Evrópu samfléttað við alþjóðlegt kapítal utan Evrópu og ætla ég ekki að fara rekja þær aðstæður frekar í mínu máli. Það er ósköp eðlilegt að þessir aðilar hafi þurft að reiða fram ýmsar frómar hugsanir á blaði varðandi félagslega vídd í tengslum við þetta mál. Það hefur líka verið til umræðu í Evrópubandalaginu sjálfu og varð til þess að bresk stjórnvöld hikuðu við að gerast fullir aðilar að Maastricht-samkomulaginu af því að þeim leist ekki alveg á blikuna. Það væri ekki allt eftir ,,recepti`` Margrétar Thatcher sem þar var sett á blað. Þeir eru býsna kaþólskir í þessum efnum, breskir íhaldsmenn, og bakland þeirra.
    Þetta er svona hinn almenni bakgrunnur þeirrar opnunar að því er varðar vinnumarkaðinn sem kemur fram í frv. varðandi þýðingarmiklar starfsstéttir á heilbrigðissviði sérstaklega.
    Mig langar svo, virðulegur forseti, að koma að örfáum atriðum sem snerta útfærslu á þessum hugsjónum sem hæstv. ráðherra hefur borið fram og mælt hér fyrir tæknilega. Þar mætti grípa á ýmsu en ég skal ekki hafa það mörg atriði því að auðvitað mun þingnefnd fara yfir þessi mál og verður það verkefni þingnefndar að meta þessar tillögur út frá útfærslunni í einstökum atriðum. Það kemur hér fram eins og víðar í þessum frumvörpum, þessari skæðadrífu frv. sem er að berast á borð okkar þingmanna, að það er verið að leysa ýmis mál með reglugerðarheimildum og þær eru býsna margar í þessu frv. og eiga eftir að birtast okkur í mörgum öðrum málum. Það er mál alveg út af fyrir sig fyrir þessa samkundu, sem ætlar að fara niður á það stig sem samningurinn gerir ráð fyrir, að taka við lagaboðunum frá Brussel, að síðan er meiningin að gera framkvæmdarvaldið, þetta litla peð, íslenskt framkvæmdarvald, svo óburðugt sem það nú verður að gerðum þessum samningi, að útfærsluaðila með reglugerðarvaldi til þess að löggjafarsamkoman þurfi ekki að liggja yfir þessu öllu saman.
    Við höfum vissulega byggt á því á liðinni tíð að heimila framkvæmdarvaldinu útfærslu á lögum í ýmsum greinum og það hefur verið sæmilegur friður um það þó að auðvitað hafi verið togast á um það í einstökum atriðum milli þings og framkvæmdarvalds sem ofureðlilegt er. Á stundum hefur framkvæmdarvaldið tekið upp samvinnu við þingið og þingnefndir að því er snertir setningu reglugerða. Hér eru menn hins vegar að fara inn á alveg nýja braut í þessum efnum, braut sem er alveg nýs eðlis að því er snertir reglugerðarvald, og ég held að þingið þyrfti að taka til alveg sérstakrar meðferðar í tengslum við þennan samning hvað það ætlar að ganga langt í þessum efnum nú þegar verið er að færa stóra þætti í málefnum landsmanna frá Alþingi í raun yfir til framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.
    Ég held að það hljóti að vera verkefni okkar á næstunni að lýsa einmitt inn í þetta alveg sérstaklega og átta okkur á því í hvaða búning við viljum setja þetta og einnig þá þeir sem ætla að taka það á sig fyrir nútíð og framtíð að skrifa upp á þennan samning því að það hlýtur að vera umhugsunarefni þeirra öðrum fremur sem enn eru í þeim sporunum að ætla að skrifa upp á þennan dæmalausa gjörning hvernig þeir ætla að koma reglugerðarvaldinu fyrir og hversu rúmt þeir ætla að hafa þar um fyrir framkvæmdarvaldið og fyrir kommissarana í Brussel og undirkommissarana hér uppi á Íslandi.
    Hér er í hinum einstöku köflum verið að heimila ráðherra nánari reglur varðandi ýmis atriði og matsatriði. Það varðar lækningar og það varðar tannlækningar, lyfjafræðinga, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður og iðjuþjálfa og allt þetta svið. Þarna er verið að gera ráð fyrir nánara reglugerðarvaldi. Nú geri ég ráð fyrir að það verði ekki aðeins takmarkað af þessum lögum heldur auðvitað líka takmarkað af því hvað íslensku stjórnvaldi heimilast að setja reglugerðir um með tilliti til alls reglugerðarfrumskógar Evrópubandalagsins því að þeir þurfa auðvitað að setjast yfir þetta, embættismennirnir í ráðuneytunum. Þeir hafa alveg nóg með það eitt, hæstv. heilbrrh., að sitja og stúdera rétta þróun á sínu sviði innan Evrópubandalagsins. Ef menn ætla ekki að vera hreinir afglapar í þessum málum og taka því sem að þeim er rétt orðalaust og athugasemdalaust á Stjórnarráðið íslenska eftir að bólgna með því kerfi sem hér er verið að innleiða. Auðvitað er komin upp sú hugsun að það þurfi að koma upp útibúi nálægt sjálfum höfuðstöðvunum úti í Brussel. Ég bíð bara eftir því að hæstv. heilbrrh. komi með tillögu um það að nú þurfi hann að koma fyrir kontor úti í Brussel fyrir sína starfsmenn, eitthvað nær hjartanu í þessu gangverki öllu saman til þess að fylgjast með og vera í kallfæri og skipuleggja fundina fyrir embættismennina íslensku sem þurfi að vera í förum, þannig að þeir séu ekki alveg eins og á vergangi þegar þeir koma til Brussel, illa lesnir, svona rétt farnir að glefsa þetta í flugvélinni á leiðinni, í textana, og þurfi fá pappírana fyrir sig lagða þegar þeir eiga að setjast inn í nefndirnar tvö þúsund sem EFTA hefur tryggt sér seturétt í, eða a.m.k. óskað eftir seturétti í, til þess að hafa möguleika á pappírnum að nota þennan áheyrnarrétt sinn.
    Hæstv. menntmrh. er þegar kominn fram með hugmyndina. Hann er kominn fram með formlega ósk og kannski er hann búinn að framkvæma hana, að koma sér upp kontór á vegum menntmrn. í Brussel. Það var vonum seinna. Ég skil ekkert í hæstv. heilbrrh. að kynna ekki Alþingi Íslendinga framtíðarsýn sína varðandi þetta gangvirki að því er snertir hans ráðuneyti og ætti hann kannski að fara að huga að því að tryggja sér sæmilegt húsnæði því að nú þrengist um á húsnæðismarkaðnum þarna þegar EFTA bætist við og hvert ráðuneyti í EFTA-ríkjunum þarf að fara að koma sér upp sínum prívatkontórista nálægt höfuðstöðvunum.
    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um alla þessa þætti að því er varðar þessar starfsstéttir, um þá sem eiga að starfa á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. Það verður ekkert lítið verk að vinna þær reglugerðir. Þá þurfa menn að lesa talsvert því að þar er verið að vísa til þeirra reglna sem hin löndin átján búa við og hafa búið þessum starfsstéttum hjá sér því að það er útfærslan. Þau hafa réttindin til þess að kveða upp úr, veita hinum einstöku starfsstéttum viðkomandi rétt. Ef íslensk stjórnvöld ætla að hafa einhver áhrif á þetta, hvort Grikkir séu með alveg rétt mat á því hvaða þekkingu hjúkrunarfræðingur sem leitar starfa á Íslandi eigi að vera búinn eða Portúgalir. Hvað þessar starfsstéttir heita, þá þarf hæstv. heilbrrh. með öllu sínu liði að halda námskeið í því hvernig þessu er fyrir komið í löndunum 18 áður en hann fer að setja menn til verka í sínu ráðuneyti, að setja þessar reglugerðir sem hann er að óska eftir heimild til í þessum bandormi.
    Það er aðeins tæpt á því á stöku stað í þessu frv. að það komi til greina að gera einhverjar kröfur til tungumálakunnáttu en ekki er það mjög fast í hendi samkvæmt orðanna hljóðan hér í textunum. Ég held að ástæða væri til þess fyrir hæstv. ráðherra, og reyndar hæstv. menntmrh. sem á að standa vörð um íslenska tungu, að lýsa því fyrir Alþingi Íslendinga hvernig eigi að halda á þessu máli gagnvart þessum

fjölda, þessum 379 komma eitthvað milljónum sem fá hér jafna stöðu á við Íslendinga til starfa. Enn er verið að láta að því liggja að það þurfi að kunna eitthvert hrafl í íslensku máli. Þar segir t.d. varðandi tannlæknana --- ég segi ekki að það sé þýðingarmest af öllu því að ekki geta menn alltaf skipst mikið á skoðunum við þá, a.m.k. ekki í stólnum, á stundum (Gripið fram í.) --- að vísu ekki í sambandi við tannlækna á EES-svæði, ég bið afsökunar, ekki í sambandi við aðstöðuna á EES-svæðinu því að þar held ég að séu engar kröfur. En ef farið er að hleypa mönnum utan hins heilaga vés EES inn á íslenskan atvinnuvettvang skal viðkomandi enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu. Þetta er að finna á bls. 2 í c-lið 2. gr. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að hafa hann yfir hér:
    ,,Veita má manni, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr. 2. gr. í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis, leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. Tannlæknadeild Háskóla Íslands getur sett það skilyrði fyrir meðmælum sínum að umsækjandi sanni deildinni hæfni sína með prófi. Sé um erlendan ríkisborgara, aðra en ríkisborgara frá EES-landi, að ræða skal hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu.``
    Nú kann vel að vera, ég hef ekki farið í gegnum lagasafnið eða viðkomandi lög í hólf og gólf, að einhver skynsemi sé í þessu ef saman er lesið, en eins og þetta birtist hér er verið að gera þá kröfu til þeirra sem eru utan við hin helgu vé að þeir sanni auk kunnáttu í handverkinu fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu. ( Heilbrrh.: Bara óbreytt og gildandi lög.) Ekki er það betra fyrir það, fyrir utan það að gildandi lög hafa mér vitanlega ekki að geyma ákvæði varðandi Evrópskt efnahagssvæði. (Gripið fram í.) Það verður mjög ánægjulegt þegar hæstv. heilbrrh. kemur hér upp og gerir okkur grein fyrir því hvernig hann ætlar að beita þeim heimildum sem hann er að afla sér til þess að meta kunnáttu fólks í þessum starfsstéttum í íslenskri tungu. Það er vikið að því á stöku stað annars staðar að aðilar þurfi að kunna eitthvað fyrir sér, en hvernig eigi að ganga úr skugga um þetta, hvernig því eigi að vera fyrir komið --- ég skil vel að hæstv. ráðherra þurfi að leita til ráðgafa síns í hliðarherbergi til að fá einhverja línu um það hvernig á málinu skuli haldið og mun það vafalaust skýrast þegar hann útfærir þetta nánar. Við skulum ekki binda þetta eingöngu við þá sem eru utan við hin helgu vé, EES, heldur líta á þá sem eiga að fá réttindi samkvæmt frv. innan þeirra landamæra, t.d. ljósmæðurnar. Í lokum 5. gr. sem er verið að breyta segir:
    ,,Útlendingar sem sækja um leyfisveitingu skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skulu hafa næga kunnáttu í töluðu og rituðu íslensku máli.``
    Þeir eiga að hafa næga kunnáttu í töluðu og rituðu íslensku máli. Hér er vísað til 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. sem mér virðist vera þeir sem fá leyfi heilbr.- og trmrh. En hvað um hina? Hver er síðan réttur hinna í löndunum 18 sem hafa veitt þessu fólki rétt sinn? Hver er staða þeirra til að meta þetta? Þeim er auðvitað ekki ætlað að gera það heldur er íslenska stjórnvaldinu ætlað að meta þetta. Ætli gæti ekki verið að hæstv. heilbrrh. þyrfti að mæta, svona til skrafs og ráðagerða, í forherbergjunum í Lúxemborg hjá dómstólnum eða hjá EFTA-dómstólnum og þessu kerfi dómstóla sem hér er verið að innleiða þegar verður farið að sækja til saka um mismunun sem íslensk stjórnvöld séu að beita ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, lækna o.s.frv., vegna krafna um kunnáttu í þessu hrognamáli sem talað er hér norður á þessu skeri? Það er vissara, hæstv. heilbrrh., að hafa þá einhverja góða lögfræðinga í ráðuneytinu innan handar eða á snærum þess. ( Heilbrrh.: Það situr einn hérna . . .  ) Hæstv. ráðherra bendir hér í hliðarherbergi þar sem situr mjög traustvekjandi einstaklingur, löglærður ef skilja má bendingar ráðherrans. Ekki ætla ég að vefengja það að sá samningur sem hér er verið að innleiða geti orðið til nokkurs baga varðandi atvinnu í landinu því að ekki verður þessi samningur til að bæta stöðuna í atvinnumálum á Íslandi nema síður sé. Þó er alveg öruggt að ein stétt manna á örugglega eftir að uppskera talsvert aukin umsvif, ég er ekki að tala um þá sem nú eru þar í störfum heldur þá sem eru að setjast á skólabekk, og það er lögfræðingastéttin. Ég hugsa að hún fái alveg nóg að gera að þjónusta íslensk stjórnvöld við að glíma við dómstólana og dómstólakerfið sem tengist þessu máli til þess að greiða úr flækjunum og álitamálunum sem þar eru nánast við hvert fótmál. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra mun vafalaust, með stuðningi góðra ráðgjafa sinna, skýra fyrir okkur hvernig hann ætli að halda á þessu máli og hvernig hann ætli að glíma við keppinautana í löndunum 18 varðandi starfsréttindi og möguleika til starfa hér á Íslandi að því er varðar kunnáttu í þessu einkennilega tungumáli sem við tölum enn hér uppi á skerinu.
    Það er eitt atriði, ekki stórt, í þessu samhengi þar sem verið er að fjalla um starfsréttindi, t.d. í iðjuþjálfun, en þar segir varðandi breytingu í b-lið:
    ,,Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur hvorki íslenskt ríkisfang né ríkisfang í EES-ríki og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi til að stunda iðjuþjálfun, enda hafi stjórn námsbrautar í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands og landlæknir mælt með leyfisveitingunni.``
    Ég sé það af þessum texta að landlæknisembættið er að fá ýmsar nýjar skyldur þannig að það er nú sjálfsagt þörf á að bæta einhverju við þó að núverandi fólk sé þar miklir víkingar að störfum, en vafalaust þarf að styrkja það starfslið að einhverju leyti. En hér er verið að innleiða lagatexta um ótakmarkan rétt fólks sem er utan við hin helgu vé EES. Ég geri ráð fyrir að takmarkandi réttur verði í öðrum lögum en ég spyr sjálfan mig og ég varpa því til þingnefndar, því ekki ætla ég að leggja það á ráðherrann að fara að grufla því í bili, að skoða þetta atriði eins og það liggur fyrir því mér finnst það dálítið sérkennilega orðað.

    Ég skal ekki fara fleiri orðum um mörg önnur álitamál varðandi starfsgreinarnar því að ég treysti vel þeim sem í þingnefnd sitja að líta á þau efni.
    Síðan er það vátryggingarsviðið. Þar er verið að afnema einkarétt sem skylt er samkvæmt samningnum á öllu þessu stóra sviði og auðvitað þau rök fram borin almennt varðandi þennan þátt að menn geti átt von á að fá ódýrari tryggingar. Sjálfsagt eru einhverjir að vona það. Ekki er ég viss um að það sé gefin veiði þótt sýnd sé en eitt mál sýnist mér nokkuð stórt sem verið er að breyta, þ.e. breyting á lögum um búfjártryggingar sem hæstv. heilbrrh. skýrði ekkert nánar í sínu máli. Ég veit ekki hvers vegna hann hljóp yfir þessar breytingar á lögum um búfjártryggingar. Varla get ég ímyndað mér að það sé vegna þess að Alþfl. sé nú allt í einu orðinn áhugalítill um landbúnað á Íslandi. Verið er að breyta lögum um búfjártryggingar sem staðið hafa í meginatriðum frá árinu 1943 og er kannski kominn tími til að líta á þau, ég er ekkert að fullyrða um það. Og þá er það þessi samningur sem verður til þess að breyta þarf og lagt er til að 3. gr. laganna orðist svo, og er ekkert lítið mál í samhengi þessa stóra máls:
    ,,Skylt er að tryggja gegn hvers kyns vanhöldum kynbótanaut, kynbótahesta og kynbótahrúta sem notaðir eru í félögum eða á kynbótabúum sem styrks njóta af opinberu fé. Vátryggingarupphæð búfjár skal fara lækkandi er það eldist og rýrnar að verðgildi. Ákvæði þar að lútandi skulu sett með reglugerð. Tryggingartími búfjár skal minnst vera árlangt í senn.``
    Ég get vel ímyndað mér að hæstv. ráðherra hafi þurft að sitja yfir þessum texta á sumarkvöldi og velta fyrir sér hvað hann ætti að leggja til við Alþingi Íslendinga varðandi breytingar á tryggingarlöggjöf um búfé í landinu, sérstaklega kynbótahrúta og skyldar skepnur annarrar tegundar. En fyrir utan þessar merku tillögur sem hæstv. ráðherra hlýtur að útlista nánar fyrir þinginu þegar hann skýrir þessa texta nánar þá er verið að óska eftir reglugerðarákvæði um þetta og það verður ekkert lítið viðfangs þegar hæstv. ráðherra fer að leggjast yfir stöðuna í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins á þessu viðurhlutamikla sviði. En eitt atriði er hér sem ég held að ráðherrann þurfi að rýna betur í og þingnefnd þurfi að skoða. Það er talað um ,,kynbótabú sem styrks njóta af opinberu fé``. Að vísu höfum við einhvers staðar heyrt að landbúnaðurinn eigi ekki að vera beint tengdur inn í þennan samning en þó er verið að flétta inn tryggingarákvæðum varðandi búfé og breyta lögum sem varða búfjártryggingar í sambandi við þennan samning. Það bendir til þess að ætlunin sé að seilast inn á svið búnaðarmála að þessu leyti og verið er að gera ráð fyrir og skrifa upp á að það megi styrkja félög og kynbótabú, félög sem fást við kynbætur, þrátt fyrir ákvæði þessa samnings. Ég vildi nefna þetta og vekja athygli á því að víða þarf að horfa til breytinga á íslenskri löggjöf í sambandi við ákvæði EES-samningsins og einnig er landbúnaðurinn ekki friðhelgur að þessu leyti þó að sagt sé að hann eigi að vera utan við samningssviðið.
    Þá vil ég, virðulegur forseti, fara nokkrum orðum um III. kafli þessa frv. en hvet þó þingnefnd til að athuga sérstaklega þar sem verið er að leggja til breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni. Gert er ráð fyrir að 6. gr. laganna orðist svo:
    ,,Setja skal með reglugerð ákvæði um það hverjir mega selja og flytja inn eiturefni.``
    Hér er verið að vísa því til reglugerðar hverjir það eru sem mega selja og flytja inn eiturefni. Allt er þetta svið sem snýr að umhverfismálum, og er mjög mikið umhugsunarefni, og verður væntanlega rætt í tengslum við annað frv. A.m.k. ætla ég ekki að fara að taka þann þátt til umræðu af þessu tilefni en ég held að full ástæða sé til að fá að sjá drög að reglugerðum frá ráðuneytum um þessi efni sem og aðrar reglugerðir áður en málin koma til 2. umr., að þingnefndin, heilbr.- og trmn., gangi eftir því, sem og aðrar nefndir sem eru að fjalla um þessi frv., að fá að sjá drög að reglugerðum. Það ætti auðvitað að vera almenn regla á sem flestum sviðum en alveg sérstaklega varðandi þessi efni hljótum við að óska eftir því að ráðuneytin kynni drög að reglugerðum áður en málin koma aftur til umræðu í þinginu.
    Síðan er það V. kafli frv. sem fjallar um breytingar á ýmsum lögum um lyfjamál. Það svið er stórt og mikið og þær breytingar, sem verið er að leggja til á þessu sviði lyfjamálanna, mikið umhugsunarefni. Í fyrsta lagi er verið, þótt það sé ekki samkvæmt þessari tillögu, að kippa stoðuðunum undan Lyfjaverslun ríkisins og í rauninni líkur á því að heimildir til rekstrar slíkrar stofnunar verði engar til staðar ef þessi samningur verður samþykktur. En aðalatriðið í sambandi við lyfjamálin er að verið er að opna fyrir óheftan innflutning lyfja í mjög ríkum mæli innan alls svæðisins. Yfir markaðinn á Íslandi sem annars staðar á eftir á dengjast ógrynni af lyfjum þar sem við höfum ekki búið við óheft kerfi. Ekki síst verður um hin svokölluðu lausasölulyf að ræða þar sem engu má hafna eftir því sem hæstv. ráðherra hafði uppi í framsöguræðu sinni þar sem innflutningur verður óheftur og auglýsingar samkvæmt nánar útfærðum reglum kannski einhverjum takmörkunum háðar en í allt öðrum og meiri mæli en þekkst hefur hér í landi til þessa. Hér er sem sagt um að ræða gerbreytingu á markaðnum að því er snertir lyf.
    Ég vísa til þess að ég reyndi aðeins að grafa í þetta efni með fsp. til hæstv. ráðherra á síðasta vori og þar liggur fyrir mat ráðherrans á ýmsum efnum þessa máls, m.a. að því er varðar stöðu Lyfjaverslunar ríkisins og ég held að það sé alveg dagljóst að verið er að stefna í breytingu sem hlýtur að vera mönnum mjög mikið umhugsunarefni hvort sé vænleg en eflaust er það svo eins og með margt margt fleira að ekkert verður undan vikist. Ef menn ætla að samþykkja þennan samning þá verður að taka þær breytingar inn sem hin almennu lög frá Brussel bjóða og sem íslenskur löggjafi verður að innbyrða og taka með ef menn ætla að gerast aðilar að þessum samningi.
    Það er þó nokkuð fjallað um auglýsingar í þessum kafla og segir t.d. í c-lið:

    ,,Í lyfjaauglýsingum skal auk nafns framleiðanda, heitis lyfs og virkra efna, tilgreina verð, helstu ábendingar og frábendingar er varða notkun hlutaðeigandi lyfja og pakkningastærðir.``
    Nú er ég ekki vel að mér í íslensku máli á þessu sviði en þetta er í fyrsta sinn sem ég hef tekið sérstaklega eftir orðinu ,,frábending``. Ég hef ekki kynnt mér hvort það er nýyrði eða til í íslenskum lagatexta. Vafalaust er þetta gott og gilt orð en að hvaða leyti frábendingar eru frábrugðnar ábendingum er mér nokkur ráðgáta og að þetta skuli sett saman með þessum hætti því að ég hefði litið svo til að í frábendingum felist aðvaranir eða eitthvað af þeim toga en að það geti ekki flokkast undir hugtakið ábending eins og annað sem varðar lyfið og skuli tekið fram sérstaklega kemur dálítið kynlega fyrir sjónir.
    Í d-lið er lagt til að 20. gr. orðist svo:
    ,,Heimilt er þó að kynna fyrir heilbrigðisstéttum, sbr. 19. gr., lyf og áðurtalinn varning, en þó á þann hátt að ekki sé líklegt að auglýsingin komi almenningi fyrir sjónir.``
    Ég bið hæstv. ráðherra að koma í þingsal því að við hljótum að óska eftir því alveg sérstaklega að hæstv. ráðherra útskýri fyrir þingmönnum hvað hér er á ferðinni, auglýsingar sem ekki mega koma fyrir almenningssjónir.
    Varðandi þennan þátt er síðan að lokum gert ráð fyrir því að fá víðtækar reglugerðarheimildir skv. j-lið, en 26. gr. orðist svo:
    ,,Ráðherra er heimilt að fenginni umsögn Lyfjaeftirlits ríkisins og landlæknis að kveða nánar á í reglugerð um gerð auglýsinga er um ræðir í þessum kafla,`` --- væntanlega líka þessar auglýsingar sem enginn má sjá --- ,,þar með talin heimild til notkunar annarra tungumála í auglýsingum, sbr. 19. gr. Reglugerðin skal einnig kveða nánar á um meðferð og afhendingu lyfjasýnishorna, sbr. 22. gr.``
    Hér er mjög víðtæk heimild til reglugerðar sem vísar sérstaklega til auglýsinganna sem verður nú ekki lítill frumskógur að fást við og ekki síst þegar þannig er haldið á máli, hæstv. ráðherra, --- hæstv. ráðherra dvelst allmjög í samræðum við sérfræðinga og ég skil það vel en hér er einnig óskað reglugerðarheimilda varðandi auglýsingar sem auglýsa á á þann hátt að ekki sé líklegt að þær komi almenningi fyrir sjónir.
    Það er nú svo, virðulegur forseti, að það væri ástæða til að fjalla um margt fleira. Ég vek athygli á því að lagt er til að lokum í þessum V. kafla á undan gildistökuákvæðinu að fella niður tvær greinar úr gildandi lögum um lyfjadreifingu og ég ætla að lesa þessar greinar eins og þær standa í lagasafninu áður en ég lýk máli mínu. Þær hljóða svo, með leyfi forseta:
    37. gr.: ,,Nú er lyfjainnflytjandi eða lyfjaheildsala einkainnflytjandi skráðs sérlyfs og er forráðamönnum hennar þá skylt að hafa ávallt þær birgðir lyfsins á boðstólum, sem hæfilegar teljast að mati Lyfjaeftirlits ríkisins.``
    38. gr.: ,,Umboðsmönnum erlendra sérlyfjaframleiðenda (innflytjendum, heildsölum) er skylt að greiða fyrir kaupum Lyfjaverslunar ríkisins á lyfjum frá umbjóðendum þeirra, annaðhvort beint frá framleiðanda á skráðu innkaupsverði (fob./cif.) eða með afhendingu úr eigin vörubirgðum umboðsmanns á kostnaðarverði. Með kostnaðarverði er hér átt við það verð, sem heimilt er að leggja til grundvallar fyrir álagningu í heildsölu, að viðbættu þjónustugjaldi, sem ákveðið er af ráðherra, að fengnum tillögum lyfjaverðlagsnefndar.
    Einungis Lyfjaverslun ríkisins er heimilt að flytja inn bóluefni og ónæmisefni.``
    Þetta eru greinarnar sem lagt er til að felldar verði úr lögunum og eru auðvitað margar ástæður fyrir því að þetta er lagt til. T.d. vegna ákvæða samningsins, banns við einkasölum og öðru þess háttar og vegna samkeppnisreglna sem við eigum að lúta í þessum efnum. Þingnefnd hlýtur að taka þetta til sérstakrar skoðunar og yfirvegunar. En málin liggja auðvitað þannig um þetta eins og málið í heild að menn standa frammi fyrir tveimur kostum, að skrifa upp á þennan samning og allar þær fylgjur lagalegs eðlis sem honum tengjast eða hitt að hafna þessum samningi og fást við það verkefni sem mér finnst eitt sæma þessari virðulegu stofnun, Alþingi Íslendinga, að glíma við að þróa upp á eindæmi íslenska löggjöf án þess að haldið sé um pennann og honum í rauninni stýrt frá Brussel á öllum sviðum mála sem samningurinn tekur til sem eru stærstu svið íslenskra málefna og æ fleiri svið sem munu verða tengd með einum eða öðrum hætti þessum samningi þó að kölluð séu jaðarmálefni.
    Ég vil svo að endingu, virðulegur forseti, segja að það er með miklum fádæmum að Alþingi Íslendinga skuli vera ætlað að fjalla um þennan stóra samning, um þessi fjölmörgu lagafrv., sem sum hver eru í bandormsformi og teygja sig inn á mörg svið íslenskrar löggjafar, á örfáum vikum. Það eru þau skilyrði sem okkur eru sett samkvæmt óskum ríkisstjórnarinar. Ég segi: Það er ósæmilegt með öllu að ætla Alþingi Íslendinga að fjalla um þessi svið á þessum nauma tíma. Það er í rauninni ógerlegt verkefni, ef menn ætla að sinna sínum skyldum, að gaumgæfa lagabreytingar og meta samninginn í heild sinni í ljósi þeirra breytinga sem verið er að leggja til. Það þýðir ekki að vera að vísa til annarra þjóðþinga í þessum efnum og segja að okkur Íslendingum sé engin vorkunn að taka á málunum svipað og þar gerist. Ég vísa til þeirra aðstæðna sem alþingismenn búa við í samanburði við það sem gerist á öðrum þjóðþingum að fara yfir og meta og undirbúa löggjöf og lagabreytingar. Ætli það sé ekki allólíku saman að jafna, aðstöðu okkar hér á Alþingi og í nágrannalöndunum, að ekki sé nú talað um hin stærri og öflugri ríki sem búa með allt öðrum hætti, svo sem eðlilegt má teljast, að sinni löggjafarsamkomu en Ísland? Vilji það reyna að halda í horfinu, vilji það reyna að halda sínum hlut og gæta og vera sá aðili til sóknar og varnar fyrir Íslendinga þurfum við að hafa aðrar aðstæður til að fjalla um viðamikil mál en hér eru ætlaðar og á það eftir að koma fram, geri ég ráð fyrir, þegar við förum að fjalla um þessi fjölmörgu frumvörp í nefndum þingsins, að það verk sem ríkisstjórnin ætlar þinginu að vinna á örfáum vikum er í raun óvinnandi vegur.