Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 12:29:08 (632)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að það sé rétt, eins og fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni þingflokks Alþfl., að menn hlusti ítarlega, menn eiga alla jafnan að gera það. Til þess eru þeir hér á hv. þingi, að fylgjast með umræðum, og fundarsalurinn, málstofan, er auðvitað til þess ætluð að þingmenn komi á framfæri skoðunum sínum og ræði við ráðherra um þau frumvörp sem þeir leggja fram, krefjist frekari skýringa á því sem menn vilja vita nánar um í þeim frumvörpum og svo auðvitað ekki síst reyni á stundum að koma viti fyrir þá starfsfélaga sína sem eru ekki endilega alltaf sömu skoðunar og sá sem er að reyna að setja fram sínar skoðanir í ræðustóli. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. bendir á að menn í salnum séu sjálfsagt misjafnlega til þess fallnir að láta ljós sitt skína og e.t.v. líka misjafnlega móttækilegir fyrir það sem hér fer fram. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það, a.m.k. ekki að þessu sinni.
    Mig langar fyrst til að spyrja hæstv. ráðherra spurninga um tvö atriði sem fram komu í upphafi máls hans og varða kannski ekki alveg beint efni frv. sem er þó til umræðu, frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála sem tengjast þessu Evrópska efnahagssvæði. Þær spurningar fjalla um það sem hann nefndi, að í ráðuneyti hans og af hans hálfu væri á döfinni að leggja fyrir þingið nýtt frv. til laga um almannatryggingar og það væri væntanlegt í októberbyrjun. Ef ég skildi hann rétt yrði þar kannski fyrst og fremst um að ræða tæknilegar breytingar og samræmingaratriði vegna þess að, eins og hann benti réttilega á, í gegnum tíðina hafi verið gerðar margvíslegar breytingar á núgildandi lögum um almannatryggingar og hefur margsinnis verið bent á það í þessum ræðustóli og annars staðar að það þyrfti að fara fram ítarleg endurskoðun á þessari löggjöf. Mér skildist á hans máli að þar væri kannski fyrst og fremst um að ræða tæknilegar breytingar og svo þær breytingar sem tengjast þessu Evrópska efnahagssvæði, en spurning mín fellur að því hvort ekki sé að vænta neinna annarra ítarlegri lagfæringa og breytinga á almannatryggingalöggjöfinni og þá efnislegra.
    Annað sem hann nefndi einnig í upphafi málsins var að til hefði staðið að setja fram á þingi nýja löggjöf um lyfjamál. Við höfum vissulega heyrt það í máli hans áður að uppi væru hugmyndir af hálfu hans og hans ráðuneytis um að gera þar róttækar breytingar á, skipulagsbreytingar eða breytingar á gildandi kerfi, og mig langar einnig að spyrja hann hvort nú sé, miðað við það sem hann sagði um það að breytingar sem verða á lögum um lyfjamál, fluttar í þessu frv., tengist eingöngu breytingum sem varða hugsanlega aðild að Evrópsku efnahagssvæði, einnig fallið frá því að ráðast til atlögu við gildandi lyfjalöggjöf með það í huga að knýja þar á um kerfisbreytingar.
    Við höfum heyrt að hæstv. ráðherra og hans menn hafi lagt í það vinnu að undirbúa nýja löggjöf en sú löggjöf hafi strandað í samstarfsflokki hæstv. ráðherra í ríkisstjórn. Ekki veit ég hvort um er að ræða sögusagnir eða hvort eitthvað kann að vera rétt í þessu. Hins vegar væri forvitnilegt að heyra um það hjá hæstv. ráðherra hvar slíkar breytingar kunna að vera staddar ef þær eru yfirleitt einhverjar á döfinni sem ég tel að væri bæði æskilegt og nauðsynlegt að knýja á um.
    Þetta, eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, tengist ekki beint frv. sem hér er til umræðu, en mig langar, með leyfi forseta, að fá að beina þessum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra og það verður þá að ráðast hvort hann treystir sér til að ræða það hér og nú í þessari umræðu eða síðar.
    Þá langar mig aðeins til að hverfa að örfáum atriðum sem er að finna í frv. Ég ætla að ræða þau ofurlítið nánar og hugsanlega spyrja ráðherra nokkurra spurninga en skal þó reyna að vera ekki mjög langorður. Það varðar fyrst hugmyndir um starfsleyfi sem hér er fjallað um og hafa verið ræddar af hv. þm. sem hafa talað á undan mér, starfsleyfi heilbrigðisstétta sem breytast mjög varðandi aðild okkar að þessu sameiginlega efnahagssvæði í Evrópu ef af verður.
    Í 1. gr. frv. þar sem fjallað er um 1. gr. læknalaganna, í a-lið breytinga, segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega lækningar hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.``
    Í þessum 2. tölul. er verið að tala um þá einstaklinga sem hér mega starfa eftir breytingarnar vegna þess að þeir séu íbúar og hafi réttindi á þessu Evrópska efnahagssvæði. Hvaða atriði getur eða má ráðherra setja í slíka reglugerð sem hugsanlega hefur áhrif á starfsréttindi þessara aðila sem hafa réttindi í sínu heimalandi sem er annað en okkar heimaland? Getur ráðherra yfirleitt eitthvað sett í slíka reglugerð sem hefur áhrif, hugsanlega þrengjandi áhrif, á þeirra starfsréttindi? Er hann ekki nokkuð bundinn af því að þær reglur sem hann setur séu nánast samhljóða því sem um ræðir í viðkomandi löndum, jafnvel þó þær kunni að vera breytilegar frá einu aðildarlandi til annars? Ég býst reyndar við að svo kunni að vera, því eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjörgu Pálmadóttur, þá eru skilyrðin fyrir réttindum og hugsanlega menntunin mismunandi frá einu landi til annars og við höfum oft hælt okkur að því að eiga hér á Íslandi mjög vel menntaðar og mjög vel færar og hæfar heilbrigðisstéttir.
    Reyndar á þetta atriði við í fleiri greinum frv. og kemur fram í fleiri breytingartillögum þessa frv., t.d. einnig í 1. gr. frv. þar sem fjallað er um 5. gr. læknalaganna. Þar er um að ræða sérfræðileyfi lækna. Þar er svipað skilyrði þar sem kveðið er á um að ráðherra geti sett nánari ákvæði í reglugerð um þessi réttindi sérfræðinga sem koma frá öðrum löndum og telja sig, samkvæmt þessum nýja samningi, eiga hér full starfsréttindi.
    Ég hefði viljað heyra nánar frá ráðherra varðandi þessa þætti málsins, t.d. það hvort hér geti verið um að ræða einhverjar þrengingar eða breytingar sem geta haft áhrif á hversu auðveldlega útlendingar ganga hér inn í atvinnu. Þetta segi ég ekki til þess í sjálfu sér vegna þess að við ætlum okkur að loka fyrir starfsréttindi þessara útlendinga hér heldur vil ég vita hvað í þessu felst, hverjir möguleikar ráðherra hugsanlega eru ef hann hygðist eða vildi grípa til einhverra slíkra.
    Hér kemur fram m.a. í greinargerð um 1.--5. gr. frv. á bls. 12 í þskj. þar sem t.d. er tekið fram að staðfesting gefi viðkomandi einstaklingum ekki rétt til stöðuveitinga. Auðvitað hlýtur það að vera sá sem ræður manninn á hverjum tíma sem fjallar um það mál og ákveður hver hljóti viðkomandi stöðu. En síðan kemur að atvinnurekandi geti hugsanlega hafnað viðkomandi einstaklingi á grundvelli málakunnáttu. Mig langar til þess að ítreka það sem kom reyndar fram í ræðu hv. 4. þm. Austurl. hvort það sé virkilega svo að stjórnendur geti vísað mönnum frá störfum á þeirri forsendu ef fagþekkingin er fyrir hendi og verður ekki vefengd og hvort þá megi ekki búast við því að einstaklingurinn leiti réttar síns gagnvart því að verið sé að setja hann til hliðar eða hafna honum í stöðu eða við stöðuveitingu á öðrum forsendum en faglegum.
    Hér segir líka í greinargerðinni að réttur eða réttindi geti verið mismunandi vegna þess að viðurkenndar sérgreinar séu mun færri hjá Evrópubandalaginu en hér á landi. Þá er spurning mín til ráðherra: Er þá einnig hægt að beita slíkum ákvæðum þegar fjallað er um leyfisveitingar eða staðfestingu á réttindum einstaklingsins vegna þess að við erum hér með fjölbreyttara eða kannski flóknara kerfi á okkar fagmálefnum en gerist í samstarfslöndum okkar eða megum við búast við því að þar muni einstaklingarnir einnig reyna að leita réttar síns og beita því fyrir sig að þeir hafi réttindi í viðkomandi grein þó svo að við hér á Íslandi efumst um að það séu fullgild réttindi miðað við það sem við höfum viljað krefjast af okkar eigin borgurum og okkar sérfræðingum og okkar góða heilbrigðisstarfsfólki?
    Varðandi þennan kafla langar mig svo að lokum að árétta spurningu til ráðherra varðandi leyfissviptingar. Í athugasemdum við 1.--5. gr. er m.a. fjallað um leyfissviptingar og þar segir, með leyfi forseta: ,,Sömuleiðis er talið nauðsynlegt að taka skýrt fram að ef EES-borgari sem hér starfar á grundvelli staðfestingar brýtur af sér í þeim mæli að það myndi varða hann leyfissviptingu, hefði hann leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,`` --- þá er trúlega vísað til þess að hann hefði leyfi okkar heilbrigðisyfirvalda, íslensks heilbr.- og trmrh. Þá segir áfram: --- ,,þá geti ráðherra svipt hann staðfestingunni sem starf hans hér á landi grundvallast á.``
    Þá langar mig að spyrja ráðherra: Er það algjörlega á valdi hins íslenska ráðherra án samráðs eða samþykkis þeirra yfirvalda sem hafa gefið viðkomandi einstaklingi leyfið, læknaleyfið eða starfsleyfið, hvort sem það er læknisleyfi eða annarra heilbrigðisstétta sem hér er verið að ræða um ef viðkomandi hefur hagað sér þannig í sínu starfi að leyfissviptingar sé krafist af okkar reglum, þeim starfsreglum sem við höfum sett okkur? Getur þá viðkomandi einstaklingur aftur og enn leitað réttar síns í því landi eða hjá þeim yfirvöldum sem veittu honum upphaflegt starfsleyfi eða sérfræðileyfi?
    Þá langar mig að víkja að kaflanum um brunatryggingar í frv. Það hefur nokkuð verið gert í umræðu á undanförnum dögum, þegar rætt er um samninginn sjálfan, samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, og frv. það sem varðar gildistöku hans, þá hefur umræðuefnið einkum verið um brunatryggingar í

Reykjavík, réttindi eða undanþágu vegna Húsatrygginga Reykjavíkurborgar og svo almennt um þróunina sem kann að verða varðandi brunatryggingar húsa eða fasteigna í landinu ef þær breytingar ná fram að ganga sem hér eru boðaðar.
    Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hægt sé --- já, ég verð nú fyrst að segja það við hæstv. ráðherra að ég er mjög sammála honum um það og vil lýsa stuðningi mínum við þá ákvörðun hans að nýta sér ekki þetta furðulega undanþáguákvæði um Húsatryggingar Reykjavíkurborgar sem er merkilegt að skyldi fást inn í þennan samning því vitum að mjög erfitt hefur verið að koma inn í hann varanlegum fyrirvörum eða undanþágum. Verður að teljast ótrúlegt að það skyldi takast með þetta málefni. Því gerði reyndar hv. þm. Svavar Gestsson ítarleg skil í ræðu sinni á dögunum og ég ætla ekki að orðlengja um það en mig langar þó að láta það koma hér fram að ég minnist þess ekki að í tíð fyrrv. ríkisstjórnar hafi verið fjallað um þetta mál sérstaklega eða að undanþáguákvæði um Húsatryggingar Reykjavíkurborgar hafi þar eða þá borið á góma. Ég hygg því að það hljóti að hafa komið til síðar. Væri forvitnilegt að vita hvort hæstv. heilbrrh. hefur beitt sér sérstaklega fyrir því efni eða hvort það er af öðrum rótum runnið. Mér finnst það dálítið merkilegt og það vekur mig líka til umhugsunar um það ef menn hefðu beitt sér af fullum þunga um önnur ákveðin atriði sem talið hefur verið æskilegt og nauðsynlegt að hafa varanlega fyrirvara á um, hvort ekki hefði verið hægt að ná því fram eins og dæmið sannar um þetta eina atriði eða ákvæði hér. En nóg um það. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að nýta ekki þetta ákvæði, mér finnst það reyndar svo furðulegt, og er forvitnilegt að vita hjá hæstv. ráðherra hvort um það er fullkomið samkomulag hjá ríkisstjórnarflokkunum að frv. gangi fram eins og það liggur fyrir.
    Ég hef heyrt það frá hv. þm. sem sæti eiga í heilbr.- og trn. að fulltrúar Húsatrygginga Reykjavíkurborgar hafi komið þar til fundar og látið þau orð falla að þeir væru mjög óhressir með frv. eins og það lítur nú út. Það væri því fróðlegt að vita hvort nokkrar líkur eru á því að ráðherra hverfi frá þeirri stefnu sem hann hefur sett fram í þessu frv.
    En mig langar, varðandi þessa undanþágu, að spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að nýr ráðherra geti látið undanþáguákvæðin taka gildi á ný, hugsanlega ráðherra með aðrar skoðanir eða annan vilja í þessu efni, af því að undanþáguákvæði er auðvitað fyrir hendi í samningnum ef ég skil rétt. Undanþáguákvæðið er auðvitað til staðar og væri hugsanlegt, þó að lagafrv. sem hér liggur fyrir kveði á um að nýta sér ekki þessa undanþágu, að því lagaákvæði mætti aftur breyta ef ný stefna og nýr vilji kæmu fram frá einhverjum síðari tíma yfirvöldum í þessum málaflokki.
    Að lokum varðandi þessi húsatryggingarmál langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig fylgt verði eftir því ákvæði að fasteignir séu þrátt fyrir allt tryggðar. Nú er felld niður ábyrgð sveitarfélaganna sem eðlilegt er miðað við þessar breytingar sem hér eru boðaðar. Það kemur jafnframt fram að fasteignir skuli vera tryggðar, það er á þeim skyldutrygging svipað og kannski háttar með bifreiðar og ábyrgðin er færð yfir á tryggingafélagið eða gerð tilraun til þess í frv. svipað og er með bílatryggingarnar. Mér finnst öðruvísi hátta til með bifreiðatryggingarnar. Þar er þó frá því gengið þegar ný bifreið er skráð að hún sé tryggð, fyrr fær hún ekki að fara á götuna. Sjálfsagt er hægt að ganga svo frá því með einhverjum ráðum að við eigendaskipti, t.d. á fasteignum, sé einnig tryggt við þinglýsingu eða eitthvað slíkt að fasteign sé tryggð. Ég spyr hvort hugmyndin sé að ná því fram þar eða á þann hátt. En hvað með nýbyggingar, nýjar fasteignir? Hvenær kemur tryggingaábyrgðin til og hvernig verður hún til, hvernig verður henni framfylgt á þann hátt að tryggt sé að fasteignirnar séu þrátt fyrir allt tryggðar?
    Virðulegi forseti. Vafalaust er ýmislegt fleira sem ástæða væri til að fjalla um í frv. við þessa umræðu. Ég ætla ekki að orðlengja það frekar. Þetta voru nokkur atriði sem mig langaði að árétta sem reyndar höfðu komið fram hjá hv. þm. sem hér töluðu í umræðunni á undan. Ég vildi fylgja þeim aðeins eftir og árétta nokkur atriði og e.t.v. bæta við en læt þetta duga í trausti þess að frv. verði vel og ítarlega skoðað í heilbr.- og trn. Ég veit auðvitað að það verður gert. Að lokum vil ég segja að ég tel að auðvitað hefði verið betra að flytja þetta sem fleiri sjálfstæð frv. eins og fram kom hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur áðan en að gera það í þessu bandormsformi eins og hér er gert því það hlýtur að alla jafna að teljast óæskileg aðferð við lagasetningu.