Áhrif af stefnu ríkisstjórnarinnar á Háskóla Íslands

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 13:36:18 (635)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Svar mitt við fyrstu spurningunni er svohljóðandi:
    Nokkrar skýringar hafa verið settar fram á fækkun nýnema. Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri kennslusviðs Háskóla Íslands, hefur bent á að betur er vitað um þá sem hætta við nám nú en undanfarin ár vegna hinna hækkuðu gjalda. Áður hafi nemendur síður sinnt því að skrá sig úr skólanum ef þeir hættu við nám. Þannig mætti e.t.v. varpa þeirri spurningu fram hvort hækkun innritunargjalda hafi orðið til þess að unga fólkið gerði upp hug sinn af meiri alvöru en áður varðandi námsval.
    Í skýrslu sem dr. Jón Torfi Jónasson, dósent við Háskóla Íslands, gerði árið 1991 kemur fram að um 15--20% innritaðra nýstúdenta skrái sig á hverju ári en sæki ekki skólann. Nokkur hópur nemenda hætti námi á miðju ári eða miðju missiri. Þá kemur fram að sumir nemendur eru ekki í námi af fullum krafti, sinni e.t.v. ekki nema 10--20 einingum þótt fullt nám sé um 30 einingar. Í háskólanum er nú unnið að áframhaldandi rannsókn þessa máls. Niðurstöður munu án efa varpa skýrara ljósi á þetta mál. Þar til þær upplýsingar liggja fyrir er erfitt að segja til um hvort eða að hve miklu leyti þetta atriði skýri kynjamun.
    Bent hefur verið á að innritun í þær deildir og námsbrautir þar sem konur hafa verið í miklum meiri hluta hefur verið minni en áður. Í hjúkrunarfræði, svo dæmi sé tekið, hefur innritunum nýnema fækkað úr 163 í 83. Langflestir þeirra sem innritast í hjúkrunarfræði hafa verið konur eða u.þ.b. 96--97%. Konur eru hlutfallslega um 70 færri í ár en þær voru í fyrra. Það er athyglisvert að þessi tala er nánast sama talan og nemur fækkun nýnema í námi í hjúkrunarfræði.
    Framkvæmdastjóri kennslusviðs háskólans hefur bent á að niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni og hækkun dagvistargjalda fyrir börn námsmanna geti haft áhrif. Ég legg ekki dóm á hvort þessar skýringar eru fullnægjandi. Innritunum hefur fjölgað við háskólann á Akureyri og við Kennaraháskóla Íslands. Þar hafa konur ávallt verið í yfirgnæfandi meiri hluta. Í vetur eru þar aðeins 19 karlar af 137 nýnemum. Í hinu nýja og dreifða sveigjanlega námi eru umsóknir þegar um 100. Fleiri skýringar hafa svo sem verið nefndar en til þess að fá raunhæf svör er nauðsynlegt að rannsaka þetta nánar.
    Í öðru lagi er spurt hver sé skoðun mín á því að hefja innheimtu þjónustugjalda af námsmönnum á sama tíma og þjónusta við nemendur er skorin niður.
    Kjarni málsins er sá að þjónustugjöldin eru lögð á til þess að mæta skertum framlögum ríkisins þannig að sem minnst þurfi að draga úr þjónustu.
    Í þriðja lagi er spurt hvort ég sé tilbúinn að taka pólitíska ákvörðun um að fella tímabundið niður ákveðnar námsleiðir eða loka fyrir aðgang nýnema að þeim.
    Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að virða sjálfstæði háskólans og akademískt frelsi í hvívetna. Það hefur verið meginbaráttumál Háskóla Íslands og flestra annarra háskóla á Vesturlöndum að efla frelsi og sjálfstæði sitt gagnvart ríkisvaldinu. Þannig hefur vald verið fært frá menntmrh. til háskólans hvað varðar stöðuveitingar. Fjárveitingar til háskólans voru áður bundnar við einstaka þætti í starfsemi hans. Sú breyting hefur nú verið gerð að háskólinn fær ákveðna rammafjárveitingu og þar með mun meira frelsi til þess að skipuleggja sitt innra starf. Háskólinn hefur því svigrúm til þess að færa fjármagn milli greina og deilda eftir forgangsröð sem hann ákveður. Frumkvæði í þessum efnum á að vera hjá háskólanum sjálfum.
    Það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að lengst af hefur gengið erfiðlega að fá fram ákvörðun háskólans um forgangsröð verkefna vegna skertra fjárframlaga. Nú kreppir að og háskólanum er gert að draga úr útgjöldum um 4% eins og öðrum ríkisstofnunum. Sömu kröfur eru gerðar til háskólans um frumkvæði, frelsi og ábyrgð á samdráttartímum og á uppgangstímum.
    Ef svo ólíklega vildi til að háskólinn vildi afsala sér þessu frumkvæði og því frelsi sem í því felst hlýt ég að hlusta á slíkar óskir.
    Þá er spurt hvort ég sé þeirrar skoðunar að breyta þurfi lögum um Háskóla Íslands í þá veru að heimila aðgangstakmarkanir að deildum skólans. Telji háskólinn sig þurfa á slíkum heimildum að halda mun ég hiklaust beita mér fyrir því að hann fái þær heimildir.
    Að lokum vil ég segja þetta um sparnaðinn innan Háskóla Íslands:
    Að mati háskólans þyrfti 129 millj. kr. til viðbótar ef rekstur ætti að vera með sama hætti og árið 1991. Þá er miðað við að nemendafjöldi sé 5.500. Hann er hins vegar um 5.000 og þannig í samræmi við forsendur fjárlaga í ár. Aukin fjárþörf til háskólans hefur fyrst og fremst verið talin stafa af fjölgun nemenda.
    Rektor hefur ítrekað bent á að háskólanum hafi verið gert að taka við auknum fjölda nýnema sem svari allt að einum menntaskóla án þess að fjárframlög hafi aukist. Það er skiljanlegt að fjölgun nemenda leiði til aukins kostnaðar, hitt er erfiðara að skilja að fækkun nemenda við skólann leiði ekki til minni fjárþarfar.