Áhrif af stefnu ríkisstjórnarinnar á Háskóla Íslands

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 14:00:58 (644)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa því yfir að mér finnst þessi umræða sem hér hefur farið fram dálítið dapurleg svo að ekki sé þyngra að orði kveðið. Engin svör komu frá hæstv. ráðherra. Hann tók svo sem sinn tíma í að svara þessu en innihaldið var ekkert.
    Formaður menntmn. þingsins, Sigríður Anna Þórðardóttir, kom hér upp. Ég veit að hún á líka sæti í sérstakri þróunarnefnd fyrir Háskóla Íslands sem á að vera ráðherra til aðstoðar að marka einhverja stefnu fyrir háskólann og í henni eiga einnig sæti, ef ég veit rétt, Rannveig Guðmundsdóttir, Björn Bjarnason og fleiri þingmenn. Og hvað hafði hún, sem á sæti í þróunarnefndinni, fram að færa? Ekki neitt. Hún sagði að það yrði að takast á við erfiðleikana og sigrast á þeim. Ég er alveg sammála því. En með hvaða hætti á að gera það? Og viljum við að stefnan verði sú að þeir hrekist frá námi sem hafa verstar aðstæður í samfélaginu eins og virðist vera að gerast núna? Þingmaðurinn minntist ekki einu orði á þessar konur, að konum fækkar við háskólann mun meira en körlum í nýinnritun. Ráðherrann kom inn á það og sagði að ein af skýringunum gæti verið sú að nú sæist betur en áður hverjir hyrfu frá námi, nú væri meiri alvara með

innrituninni en áður. Var hann að segja með þessu að karlar væru almennt alvörugefnari en konur eða hvað var hann að segja? Þetta er ekkert svar við fyrstu spurningunni: Af hverju fækkar konum meira en körlum. Út af fyrir sig getur þetta verið rétt af því að fólk horfir í peninginn en þetta er ekkert svar við því af hverju konum fækkar meira en körlum og ég held að ráðherrann ætti að drífa í því að rannsaka það mál sem hann viðurkenndi reyndar að þyrfti rannsóknar við.
    Hann talaði um niðurskurðinn í heilbrigðisþjónunstunni og hærri dagvistargjöld sem lið í þessu. Ég get verið sammála honum um það. En það er líka ríkisstjórnin sem stendur fyrir niðurskurðinum í heilbrigismálum og það var íhaldið í Reykjavík sem hækkaði dagvistargjöldin þannig að allt þetta kemur nokkuð í sama stað niður og berast nú böndin að sömu aðilum.
    Ráðherra svaraði afskaplega lítið öðrum spurningum. Hann talaði um frelsi, frumkvæði og ábyrgð og háskólinn þyrfti að sýna það á niðurskurðartímum eins og uppgangstímum. Ég bendi honum á að þetta er einn ódýrasti háskóli á Norðurlöndum ef ekki sá ódýrasti og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að skera niður, hvenær niðurskurður er orðinn ábyrgðarlaus og tilræði við frelsi háskólans því það þarf líka að huga að ábyrgð og frelsi háskólans sem mennta- og rannsóknarstofnunar. Ég bendi honum á að Háskóli Íslands er atvinnuskapandi og það er ekkert eins mikilvægt fyrir þjóð sem er í kreppu og á við ákveðna efnahagsörðugleika að stríða en að fjárfresta í menntun og fjárfesta í rannsóknum sem við getum notað til að vinna okkur út úr vandanum.