Áhrif af stefnu ríkisstjórnarinnar á Háskóla Íslands

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 14:08:04 (647)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé ákaflega erfitt að skiljast hér við málefni Háskóla Íslands og stöðuna eins og hún er þar og þau ummæli sem féllu hér hjá hæstv. menntmrh. án þess að á allra næstu dögum gefist tækifæri til að ræða þetta mál frekar. Hér féllu í síðari ræðu hæstv. menntmrh. vægast sagt alvarlegar ásakanir á ekki minni hóp en 15--20% nýnema við Háskóla Íslands á undanförnum árum. Því var haldið fram að þeir hefðu ranglega þegið námslán og haft rangt við að því er best varð séð. Sömuleiðis kom fram í fyrri ræðu hæstv. menntmrh., og að því sama var látið liggja í ræðu hv. formanns menntmn.,

að það væri vægast sagt sérkennilegt að háskólinn skyldi ekki geta sparað umtalsverðar fjárhæðir vegna fækkunar nýnema. ( Forseti: Forseti vill biðja hv. þm. að halda sig við umræður um gæslu þingskapa.) Já, hæstv. forseti. Hvað hafa þingmenn langan tíma til að gera athugasemdir við þingsköp? ( Forseti: Þrjár mínútur.) Er þá ekki rétt að bíða eftir því hvernig þingmenn nota þann tíma áður en þeir eru dæmdir fyrir fram. ( Gripið fram í: Þetta er efnisleg umræða.) ( Forseti: Vilja þingmenn hafa hljóð í salnum og leyfa hv. þm. að ljúka máli sínu.) Ég á eftir eina mínútu og þrjátíu og fjórar sekúndur, hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að þeir sem hér eru að kalla fram í, sumir hverjir, geti státað af því fremur en ég að hafa ekki reynt að halda sig sæmilega við þingsköpin.
    Ég er að rökstyðja í fyrri hluta þess tíma sem ég hef, sem er þrjár mínútur, hvers vegna ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann taki það til skoðunar að hægt verði að halda þessari umræðu áfram og/eða annarri sambærilegri um málefni Háskóla Íslands og framtíð háskólamenntunar eins og þær aðstæður allar blasa við okkur nú á þessum haustdögum. Ég fyrir mitt leyti uni því ákaflega illa að skiljast svona við þetta mál. Ég held að það sé mjög vont, eftir þessi ummæli hæstv. menntmrh. og aðra hluti sem hér komu fram í umræðunni og í ljósi þeirra aðstæðna sem Háskóli Íslands og fleiri menntastofnanir standa frammi fyrir, að við fáum ekki tækifæri til að ræða þetta betur hér á Alþingi á næstu dögum. Þúsundir námsmanna eru að hefja nám þessa dagana og/eða hefðu viljað hefja nám en sjá sér kannski ekki fært að gera það vegna aðstæðna sem hér hafa verið ræddar. Þess vegna óska ég því eftir því, hæstv. forseti, og vona að það falli undir þingsköp, að hæstv. forseti og forsætisnefnd taki það til skoðunar hvort ekki sé hægt að finna tíma til þess á næstu dögum að halda áfram þessari umræðu.