Áhrif af stefnu ríkisstjórnarinnar á Háskóla Íslands

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 14:11:33 (649)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að leggja til nokkuð aðra tillögu en síðasti ræðumaður sem einnig talaði hér um þingsköp. Ég tek undir með honum. Ég tel það alveg nauðsynlegt að þessi mál verði tekin fyrir hér áður en gengið verður frá fjárlögum. Það blasir við hverjum manni að það er brotthlaup ungs fólks úr námi og fjölskyldur hvarvetna á landinu eru ráðalausar vegna þess ástands sem nú ríkir í herbúðum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég vil því beina því til hæstv. forseta, og mun beita mér fyrir því í forsætisnefnd þingsins, að frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna, sem hér liggur fyrir þinginu sem 17. mál þingsins, verði tekið á dagskrá þegar í næstu viku. Ég tel að það sé hverjum manni ljóst að við þetta verður ekki unað. Ég trúi ekki öðru en að a.m.k. alþýðuflokksmenn séu tilbúnir til að viðurkenna það og aðstoða við að gera þær breytingar á lánasjóðslögunum sem nauðsynlegar eru.
    Ég vil benda hv. þm. á að nú liggja 680 millj. kr. ónotaðar í Lánasjóði ísl. námsmanna. Það hlýtur að vera krafa okkar hér á hinu háa Alþingi að þessi mál verði endurskoðuð. Ég vil því biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir því að það frv., sem hér liggur fyrir sem 17. mál þingsins, fáist rætt hér á hinu háa Alþingi í næstu viku.