Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 14:14:43 (653)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég var óviðbúin því að að koma hér í ræðustól strax aftur því ég hélt að hér ætti að fara fram önnur utandagskrárumræða. En það hefur greinilega orðið á því einhver breyting. ( Forseti: Forseti vill upplýsa af þessu tilefni að óskað var eftir því að þeirri umræðu yrði frestað, a.m.k. fram yfir helgi.) Þá held ég bara áfram þar sem frá var horfið í umræðu um frv. til laga um

breytingar á sviði heilbr.- og tryggingamála vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Ég var, þegar ég fór hér úr stólnum fyrir hádegi, að ræða um brunatryggingarnar og spyrja hvort þau rök sem lágu að baki lögunum um brunatryggingar í Reykjavík og brunatryggingar utan Reykjavíkur frá 1954 væru gild að einhverju leyti enn þann dag í dag og hver þau hefðu verið. Það er mín skoðun að ekki eigi að breyta lögum nema gera sér ljósa grein fyrir því hvað að baki lá þegar lögin voru sett.
    Varðandi lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur eða almennt um lögin þá á að halda áfram skyldutryggingu, þ.e. að húseigendum sé skylt að tryggja gegn eldsvoða allar húseignir og það á auðvitað bæði við utan sem innan Reykjavíkur. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé hægt að leggja slíka skyldu á húseigendur nema það séu þá til staðar einhverjar aðgerðir til að fylgja skyldunni eftir. Við þekkjum að það er skyldutrygging á bílum sem virðist ganga ágætlega enda er það svo að ekki er hægt að fá skoðun á bíl nema hafa greitt tryggingu. Færi menn ekki bíla til skoðunar eins og þeim ber eru tekin af númer og bíllinn tekinn úr umferð. Ég get ekki séð að hægt sé að hafa sams konar eftirlit með húseignum. Ef menn hafa einhverjar slíkar hugmyndir væri ágætt að heyra þær.
    Ráðherra sagði áðan í sinni framsögu að sá háttur yrði hafður á að ekki mætti taka hús úr tryggingu hjá einu tryggingafélagi nema fyrir lægi staðfest vottorð um að það væri komið í tryggingu hjá einhverju öðru og þannig ætti að tryggja samfelluna í þessu. En þá hlýtur maður að spyrja: Hvernig á þetta að ganga fyrir sig í Reykjavík vegna þess að Húsatryggingar Reykjavíkurborgar verða lagðar niður með lögum. Það fyrirtæki verður ekki til og mun ekki verða til sem tryggingafyrirtæki eftir að lögin verða felld út gildi. Hvernig á þá fyrirtæki sem ekki er til að ganga úr skugga um að þeir sem tryggja hjá því núna verði komnir með tryggingu annars staðar? Þetta er eitt af því sem borgaryfirvöld í Reykjavík hafa bent á og hafa miklar áhyggjur af, að það verði ekki hægt að tryggja samfelluna í tryggingum hér í Reykjavík eins og verður þó úti á landi vegna þess að sveitarfélögin eru með tryggt hjá fyrirtækjum sem verða áfram með vátryggingarstarfsemi í gangi. Ég hlýt að spyrja að því hvernig menn hafi hugsað sér að tryggja þessa breytingu þegar hún verður hér í Reykjavík. Þá vil ég líka spyrja um það hvernig á að ganga úr skugga um að ný hús verði tryggð. Það getur verið tiltölulega einfalt atriði þegar eldra hús eða hús sem þegar er í tryggingu er flutt annað í tryggingu. En hvernig á að fara með ný hús? Hvernig á að ganga eftir því að ný hús komi í tryggingu eins og skylt er? Ég vil bara spyrja í því sambandi, ég hef ekki kynnt mér það og ekki skoðað það og vil því spyrja ráðherra hvort hann geti upplýst mig um það hvort hugsanlega þurfi að breyta lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins vegna þessa, þ.e. að Húsnæðisstofnun láni ekki nema tryggt sé að húseignin sem í hlut á sé vátryggð. Þetta skiptir ekki síst máli varðandi nýbyggingar.
    Þá langar mig til að vekja athygli á IV. kafla frv., þar sem verið er að breyta lögum um Atvinnuleysistryggingar. Þar segir að Atvinnuleysistryggingasjóði sé heimilt eða eins og segir orðrétt í greininni: ,, . . .  fyrir hönd þar til bærrar stofnunar í EES-landi að greiða ríkisborgara í EES-ríki sem hingað kemur í atvinnuleit atvinnuleysisbætur enda endurgreiði sú stofnun sjóðnum þær fjárhæðir sem þannig eru inntar af hendi.``
    Þetta þýðir með öðrum orðum að Dani, sem er atvinnulaus og er á atvinnuleysisbótum í Danmörku, sem kemur hingað í atvinnuleit hefur rétt til að dvelja hér í þrjá mánuði og reyna að finna sér atvinnu. Á meðan á Atvinnuleysistryggingasjóður Íslendinga að greiða honum út hans tryggingarbætur eins og þær eru ákvarðaðar í Danmörku. Hann hlýtur sem sagt ekki atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum sem hér gilda heldur samkvæmt reglum sem gilda í Danmörku. Við vitum að þær eru yfirleitt hærri en bætur sem Íslendingar fá greiddar hér á landi. Síðan á Atvinnuleysistryggingasjóður að endurkrefja viðkomandi sjóð í Danmörku um þessar bætur. Það virðist ekki ætla að vefjast fyrir mönnum þó að þarna geti orðið um misháar upphæðir að ræða og mjög mismunandi reglur, vegna þess að við vitum að reglurnar eru mjög mismunandi eftir löndum.
    Þá langar mig í þessu sambandi að vekja athygli á því að svipað fyrirkomulag er haft varðandi meðlagsgreiðslur núna. Það er úrskurðað tiltekið meðlag og síðan á Tryggingastofnun að greiða þeim sem fær meðlagið tiltekna upphæð. Tryggingastofnun greiðir bara lágmarksmeðlag. Ef úrskurðað er hærra meðlag en lágmarksmeðlag þá þarf viðkomandi að sækja það sjálfur í hendur meðlagsgreiðanda um hver einustu mánaðamót. Tryggingastofnun hefur væntanlega komið þessu á vegna þess að það væri svo flókið að vera með mismunandi upphæðir í gangi og það gengi alls ekki. Þetta hefur hins vegar leitt til þess að konur víla mjög fyrir sér að sækja um hærra meðlag en lágmarksmeðlag vegna þess að það er heilmikið mál að sækja það um hver einustu mánaðamót, safna því síðan upp ef það er ekki greitt og leggja fram kröfu um að fá það borgað. Því vil ég spyrja hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. sé ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því, fyrst þetta er hægt með atvinnuleysistryggingarnar, að koma á svipuðu formi hjá Tryggingastofnun ríkisins hvað varðar meðlagið. Að það fari bara eftir meðlagsúrskurðinum það sem Tryggingastofnun greiðir þeim sem hefur barn á framfæri sínu. Ég held að engin rök séu fyrir því að hafa ekki þennan hátt á hjá Tryggingastofnun ef það er hægt að hafa þennan hátt á hér hjá Atvinnuleysistryggingasjóði eins og lagt er til.
    Þá vil ég áður en ég fér úr ræðustólnum --- ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra vegna þess að ég á sæti sjálf í heilbr.- og trmrn. og get þar auðvitað fjallað um þetta mál --- vekja athygli á því að það kemur fram í greinargerð með frv. að breyta þurfi átta lögum til viðbótar við þau lög sem nefnd voru í yfirliti frá utanrrn. sem ég held að hafi verið birt í vor. Utanrrn. lét taka saman yfirlit um öll þau lög sem

þyrfti að breyta ef af hinu Evrópska efnahagssvæði yrði. Það notuðum við þingmenn auðvitað til hliðsjónar. Síðan kemur í ljós, bara á þessu sviði sem við erum með hér til umræðu, heilbrigðis- og tryggingasviðinu, að það vantar átta lög inn í yfirlit utanrrn. Það segir manni kannski hvað þetta er flókið mál sem hér er á ferðinni, að menn átta sig ekki á því fyrr en í sumar að það vantar átta lög inn í þessa upptalningu. Það mætti segja mér að skoða þyrfti það mjög vel inni í nefndunum hvort þetta séu örugglega tæmandi breytingar sem hér er verið að gera.
    Ég held að ég hafi þetta ekki lengra, virðulegur forseti. Þó langar mig til að vekja athygli á því að það hefur komið upp í umræðum í heilbr.- og trn. varðandi tryggingastarfsemina að breytingin, sem þarna er verið að gera, mundi ekki endilega leiða til hækkunar á iðgjöldum. Sumir telja jafnvel að hún gæti leitt til lækkunar. Ef við tökum Húsatryggingar Reykjavíkurborgar sem dæmi þá greiða þær núna um 50 millj. kr. til Slökkviliðsins í Reykjavík þannig að ef það væri fellt niður mætti hugsanlega lækka iðgjöld á tryggingum hér í Reykjavík þó að auðvitað yrði að taka þann pening einhvers staðar annars staðar til að leggja til slökkviliðsins. Ef það er skoðun manna að þetta verði ekki til þess að hækka iðgjöldin þá hlýtur maður að spyrja hvernig á því standi samt að það er viðurkennt í greinargerð með frv. að það gæti verið ráð fyrir sveitarfélögin að hafa milligöngu um að leita hagstæðra samninga um brunatryggingar, þ.e. að tekin yrði hóptrygging fyrir íbúa í sveitarfélögum. Það gæti leitt til hagstæðari samninga og hagstæðari iðgjalda. Með öðrum orðum er viðurkennt að þessi hóptrygging geti og að öllum líkindum leiði til lægri iðgjalda en þegar hver og einn fer á stúfan og tryggir fyrir sig. Þarna finnst mér gæta ákveðinnar mótsagnar, a.m.k. í málflutningi þeirra sem telja að þetta muni ekki hafa áhrif á iðgjöld til hækkunar.