Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 14:25:31 (654)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það hafa allmargar fyrirspurnir verið bornar upp við mig í þessari umræðu. Ég tel nauðsynlegt að þeim hv. þm., sem báru fram fyrirspurnir, gefist kostur á að vera viðstaddir hér þegar fyrirspurnunum er svarað. Ég sé að hér vantar í salinn hv. 4. þm. Austurl. sem beindi mjög mörgum fyrirspurnum til mín sem ég hyggst svara og sömuleiðis vantar hér í salinn hv. 2. þm. Vesturl. sem einnig beindi til mín fjölmörgum fyrirspurnum. Ég vil áður en lengra er haldið óska eftir því við forseta að þessum þingmönnum sé gert viðvart því að það er að sjálfsögðu ekki gott að svara fyrirspurnum ef fyrirspyrjandi er ekki viðstaddur. --- Þar gengur hv 4. þm. Austurl. í salinn og hann var sá fyrsti sem tók til máls í almennu umræðunum áðan og ætla ég að byrja á að svara hans spurningum.
    Í fyrsta lagi eru nokkur atriði um þau almennu mál sem hann ræddi hér. Það er alveg rétt hjá honum að það á sér stað á Alþingi mikil umræða um Evrópskt efnahagssvæði og þann samning sem til stendur að gera. Það er ósköp eðlilegt því að þetta er stærsti og áhrifamesti milliríkjasamningur sem íslenska ríkið hefur nokkru sinni gert og því er full ástæða til þess að gefa sér þann tíma sem menn telja nauðsynlegan til þess að vinna að þeim samningi hér í þingmeðferðinni, þar á meðal að ræða hann á Alþingi. Hins vegar geta menn auðvitað velt því fyrir sér hvort það sé rík ástæða til að segja sama hlutinn tíu eða tuttugu sinnum úr ræðustól eða hvort betra er að nota tímann til þess að vinna að skoðun á málinu í þingnefndum, þangað sem málin eiga að fara, og í þingflokkum.
    Ríkisstjórnin hefur hins vegar í samstarfi við stjórnarandstöðuna reynt að auðvelda þessa vinnu eins og framast er kostur, m.a. með því, eins og hér hefur fram komið, að afhenda þingnefndum í sumar handrit að þeim frumvörpum sem nú er verið að leggja fram á Alþingi til umræðna. Ég átti satt að segja von á því að þau vinnubrögð, þ.e. að kynna frumvörp þessi í handritum fyrir þingnefndum, gætu orðið til þess að menn þyrftu ekki, a.m.k. við 1. umr., að taka mjög langan tíma til að ræða frv. sem þeim hafa verið kynnt óformlega að vísu í þingnefndum, frv. sem eru lögð fram en fólk hefur áður séð. Það er ósköp eðlilegt engu að síður að við 1. umr. séu bornar fram tilteknar fyrirspurnir til að fá mál skýrð en ég á von á því að þetta samkomulag um málsmeðferð hér í þinginu milli stjórnar og stjórnarandstöðu hafi orðið og verði til að einfalda þessa umfangsmiklu vinnu sem hér þarf að fara fram.
    Hv. 4. þm. Austurl. ræðir gjarnan um þennan samning sem þungbærar skyldur fyrir íslenska þjóð. En hann virðist gleyma því að þessi samningur er ekki síður um réttindi sem verið er að veita íslenskum þegnum. Við erum með þessum samningi að veita íslenskum þegnum stóraukin réttindi. Það eru ekki þungbærar skyldur. Á meginlandi Evrópu, á Bretlandseyjum og á Norðurlöndunum, eru t.d. starfandi fjölmargir íslenskir ríkisborgarar úr heilbrigðisstéttum. Ætli það séu ekki um það bil 300 læknar menntaðir á Íslandi sem nú starfa á þessu svæði. Á þetta svæði höfum við sótt meginhluta framhaldsmenntunar okkar í læknifræði. Hún er sennilega öll fengin á þessu svæði, að undantekinni þeirri menntun sem sótt hefur verið til Norður-Ameríku. Þessi samningur við EES er um að tryggja réttindi þessa fólks, réttindi þeirra fjölmörgu heilbrigðisstarfsmanna, sem nú starfa á EES-svæðinu, og réttindi þeirra fjölmörgu Íslendinga sem munu sækja sér menntun, m.a. í sambandi við heilbrigðismál, til Evrópuríkja. Þau réttindi sem verið er að tryggja þessu fólki eru miklu meiri en þau réttindi sem þetta fólk nýtur í dag svo maður tali nú ekki um að allar líkur eru á því, ef þessi samningur verður ekki gerður, að þá muni réttindi Íslendinga, t.d. til náms í löndum Evrópubandalagsins og löndum hins Evrópska efnahagssvæðis, skerðast stórlega frá því sem nú er. Við erum því ekki bara að taka á okkur skyldur með samningnum enda væri það eitt út af fyrir sig engin ástæða fyrir samningi af þessum toga ef menn væru bara að taka á sig skyldur. Við erum að gera þennan samning vegna þess að við erum með honum að veita íslenskum þegnum meiri réttindi, sömu réttindi

og erlendir þegnar fá hér á Íslandi.
    Ég er nú búinn að vera ansi lengi viðloðandi þessa stofnun, Alþingi Íslendinga. Ég byrjaði að fylgjast hér með á árinu 1967, fékk þá fyrst sæti í þingflokki Alþfl. En mér finnst eins og ég sé að heyra þessa umræðu hér í þriðja sinn, sömu ræðurnar og ég hef heyrt tvívegis áður á þessum ferli. Ég hlustaði á, var að vísu ekki þátttakandi þá sjálfur, þegar samningurinn um fríverslunarsvæði Evrópu var ræddur á Alþingi. Þá heyrði ég sömu ræðurnar og ég er að heyra nú. Þá heyrði ég ræðurnar um það að með þessum samningi væri verið að leggja íslenska þjóð undir erlent áhrifavald. Þá heyrði ég ræður um að það væri verið að afhenda útlendingum innlend atvinnufyrirtæki. Þá las ég í blöðum og heyrði sagt frá þingræðum þar sem þeir, sem voru að flytja fram samninginn um EFTA, voru kallaðir landsölumenn og jafnvel landráðamenn. Er þessi umræða nú ekki nákvæmlega sú sama og þá hjá mörgum hv. þm.? Jú, hún er það. Menn nota sömu rökin, menn nota sömu orðin og menn nota sömu ábendingarnar og þeir gerðu þá.
    Ég heyrði sams konar umræðu í annað sinn þegar verið var að ræða á Alþingi um samning við erlenda aðila um að reisa álver í Straumsvík. Þá minnist ég þess líka að rætt var mjög mikið um . . .  (Gripið fram í.) Ég byrjaði að fylgjast með þessari stofnun sem hluti af þingflokki Alþfl. árið 1967, ég var byrjaður að fylgjast með pólitík löngu fyrir 1967, virðulegi forseti. Minn pólitíski afskiptaferill hófst ekki árið 1978 eins og hjá hv. þm. Svavari Gestssyni ef marka má viðtal hans við dagblaðið Tímann ekki alls fyrir löngu. En ég heyrði þá nákvæmlega sömu orðaleppana. Muna menn kannski eftir röksemdunum um það að með samningum um álverið væri verið að gera Ísland að varanlegu láglaunasvæði? Ég veit að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson man eftir því orðatiltæki. Varanlegt láglaunasvæði með þessum samningi. Muna menn ekki eftir því að það var sagt að vegna mengunar mundi verða óbúandi í Hafnarfirði? Barnadauði mundi vaxa mjög á svæðinu í kringum íslenska álverið? Og muna menn ekki eftir því að það var sagt að með þessum samningi væri verið að fá erlendum auðhringum í hendurnar pólitísk völd á Íslandi? Eftirleiðis mundu Íslendingar ekki vera sjálfráða í sínum eigin málum þannig að allar íslenskar ríkisstjórnir eftir þennan samning mundu verða ofurseldar erlendum auðhringum sem mundu að meira og minna leyti gefa íslensku ríkisstjórninni og íslenskum ráðherrum fyrirskipanir um það hvernig þeir ættu að haga stjórnarstörfum sínum?
    Hv. 4. þm. Austurl. var í ríkisstjórn ekki alls fyrir löngu. Hann fór þá með iðnaðarmál. Hann sat þá á málskrafi við forsvarsmenn erlendra auðhringa í þeim tilgangi að reyna að semja við þá um að gerast aðilar að atvinnurekstri á Íslandi. En var honum stjórnað, virðulegi forseti, af erlendum auðhringum? Tók hann við fyrirskipunum frá forsvarsmönnum erlendra auðhringa um það hvernig hann ætti að haga sér sem iðnrh.? Nei, það gerði hann ekki. En flokkur hans sagði nokkrum árum áður að það mundi hann gera ef gengið yrði til samninga um álverið í Straumsvík. Þetta er í þriðja sinn, virðulegi forseti, sem ég heyri talsmenn sömu flokka, að undanteknum hv. talsmönnum Kvennalistans sem ekki áttu þá sæti hér á þingi, Kvennalistinn átti þá ekki sæti hér á þingi, flytja sömu ræðuna. Ég held að það geti vel verið að þeir hafi sjálfir trúað á sinn eigin málflutning í fyrsta sinn sem þeir fluttu þessa ræðu. Það gæti meira að segja verið að einhverjir þeirra hafi trúað á sinn eigin málflutning í annað sinnið sem þeir fluttu þessa ræðu. En ég stórefa að þeir trúi því sjálfir sem þeir eru að segja núna í þriðja sinnið sem málsvarar sömu flokka og flytja sömu ræður, þ.e. með þessu séum við að afsala okkur fullveldi, sjálfstæði, ganga undir jarðarmen erlendra auðhringa, afsala okkur sjálfstæði Íslands. Ég trúi því ekki að þeir sjálfir hafi á því trú í þriðja sinn sem þeir flytja þessar ræður að það eigi við rök að styðjast.
    Hv. 4. þm. Austurl. sagði að með þessum samningi væri verið að tryggja jafnan rétt fólks og það er rétt. Það er verið að tryggja jafnan rétt fólks. Er hv. þm. andvígur því? Telur hann e.t.v. að sumir eigi að vera jafnari en aðrir í þessu sambandi? Telur hann að við Íslendingar eigum ekki að veita þegnum erlendra þjóða sama rétt á íslenskri grundu og við krefjumst að íslenskir þegnar njóti meðal erlendra þjóða? Það er rétt, hv. þm. Þetta er samningur um jafnan rétt. Hann byggist á því. Hann byggist á að einn hafi ekki meiri rétt en annar, að menn séu ekki misjafnlega mikið jafnir.
    Hv. þm. sagði líka að með þessu væri verið að galopna íslenska vinnumarkaðinn. Það er ekki rétt. Við erum að veita þegnum erlendra þjóða sama aðgang að íslenskum vinnumarkaði og við erum að gera kröfu til að fá fyrir okkar fólk á vinnumörkuðum þessara landa. Á því jafnréttishugtaki byggist þessi samningur. Er ekki hv. þm. stuðningsmaður jafns réttar? Þó að Íslendingar fái jafnan rétt til að sækja um atvinnu á erlendri grund, eins og þegnar erlendra þjóða öðlast jafnan rétt á við íslenska þegna til að sækja um atvinnu á íslenskri grund, er ekki þar með sagt að ef Íslendingur sækir um atvinnu á erlendri grund sé hann með því að ýta einhverjum þaðan í burtu né heldur er þar með sagt að erlendur ríkisborgari sem sækir um atvinnu á íslenskri grund sé að gera Íslending atvinnulausan Það er ekki það sama að veita þennan rétt og að skylda til ráðninga. Enginn íslenskur atvinnuveitandi er skyldur til að ráða erlendan mann til starfs, þó að þessi samningur verði samþykktur, ef hann vill heldur ráða Íslending til sama starfs. Við erum að veita rétt en við erum ekki að undirgangast skyldu og við erum að fá sama rétt fyrir okkar fólk annars staðar og við veitum öðru fólki hér.
    Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm. að þessi samningur er þess eðlis að menn komast ekki hjá því að gera á löggjöf sinni þær breytingar sem samningurinn hljóðar um. Það er því alveg rétt hjá hv. þm. að þar eiga menn ekkert val. Menn geta ekki skrifað undir samninginn en hafnað því síðan að fullgilda hann með þeim breytingum sem þarf að gera á löggjöf og menn hafa skuldbundið sig til með samningum. Ég veit að við erum afskaplega veikir fyrir því Íslendingar að vilja gjarnan beygja reglur og vilja gjarna segja sem svo: Það getur ekki verið að ætlast sé til þess að sú regla sem þarna er verið að setja eigi við mig. Það hlýtur að vera hægt að finna einhverja leið til að hægt sé að skjóta sér undan þeim reglum sem verið er að samþykkja að eigi að gilda gagnvart öllum almenningi. Við erum einu sinni þannig gerðir, Íslendingar, að ef okkur eru settar reglur, viljum við gjarnan láta reyna á þær og sjá hvort við getum ekki komist fram hjá þeim. Það er alveg rétt hjá hv. þm., sem hann sagði hér áðan og er auðvitað kjarni málsins, að þessi samningur um Evrópskt efnahagssvæði er þannig að þarna verða menn að gera þær breytingar sem samningurinn felur í sér og komast ekki undan þeim. Þar eiga menn ekkert val. Þar geta menn ekki sagt: ,,Já, en . . .  `` og þar geta menn ekki heldur sagt: ,,Já, en kannski . . .  `` Ef menn segja já við þessum samningi verða menn að fullgilda samninginn með því að gera þær lagabreytingar sem samningurinn gerir ráð fyrir enda er það siðaðra manna háttur í samskiptum einstaklinga eins og í samskiptum þjóða að geri menn samning sín á milli, þá ætlast menn að sjálfsögðu til þess að honum sé fylgt en samningsaðilar komi ekki á eftir og segi: Já, en getum við ekki komið okkur hjá þessu? Getum við ekki fengið undantekningu frá þessu o.s.frv.? Þetta er kjarni málsins og það er mjög gott að hann liggi frammi frá upphafi vegna þess, eins og hv. þm. sagði, að menn eiga ekkert val um framkvæmdina. Ef menn samþykkja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði verða þeir að framfylgja þeim atriðum sem í samningnum felst.
    Hv. þm. gerði hér að umtalsefni réttindi í sambandi við greiðslur úr atvinnuleysistryggingum. Það sem hann sagði þar er misskilningur vegna þess að í lagafrv., sem hér liggur fyrir og í þeim atriðum sem þar er sagt um atvinnuleysistryggingar og réttindi útlendinga til greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er reglum ekki á nokkurn hátt breytt frá því sem nú er. Útlendingar sem hér eru í vinnu eiga fullan rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði ef þeir missa sína atvinnu. Því er ekki verið að breyta. Því einu er verið að breyta með þessum lögum að Íslendingur, sem flyst til útlanda, nýtur þar í þrjá mánuði, á meðan hann leitar sér að starfi, greiðslna samkvæmt reglum atvinnuleysistrygginganna á Íslandi sem sambærilegur aðili erlendis greiðir honum og fær síðan endurgreitt frá Atvinnuleysistryggingasjóði hér. Með sama hætti er verið að gera þá breytingu af því að það er jafnræði, hinn jafni réttur sem gildir að Atvinnuleysistryggingasjóðurinn íslenski tekur að sér að greiða ríkisborgara frá EES, sem hingað kemur í atvinnuleit, í þrjá mánuði þær atvinnuleysibætur sem hann á rétt á samkvæmt reglum síns heimalands og innheimtir það svo hjá þeirri stofnun erlendis sem á greiðsluskylduna gagnvart hinum erlenda ríkisborgara á EES-svæðinu. Þetta er eina breytingin sem verið er að gera hér, virðulegi forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að í þessu frv. sé verið að gera einhverjar breytingar á greiðsluréttindunum umfram það sem nú er. Erlendir ríkisborgarar sem hafa atvinnuleyfi og eru í vinnu hér eiga aðgang að Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt gildandi lögum með sama hætti og Íslendingur sem hér starfar. Nákvæmlega sama máli gegnir um almannatryggingaréttindi útlendinga sem hér eru að störfum og lífeyrisréttindi þeirra. Um þau efni, bótagreiðslur úr almannatryggingakerfi og aðild að lífeyristryggingakerfi fyrir þá útlendinga sem hér eru í vinnu og hafa fengið atvinnuleyfi, gildir nákvæmlega það sama og um Íslendinga sjálfa. Það er ekki verið að breyta þessu í einu eða neinu með því frv. sem hér er lagt fram.
    Hins vegar er það sjálfsagt og rétt að taka fram í þessu sambandi að með aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði og frjálsum flutningi vinnuafls innan þess gætu fleiri útlendingar en nú nýtt sér þessi réttindi hér á Íslandi, þ.e. það gætu fleiri útlendingar komið hingað en nú eru hér til starfa og öðlast þann rétt að fá aðgang að íslensku tryggingakerfi, borga í íslenska lífeyrissjóði og fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði eftir þeim reglum sem hér gilda. En allir þeir útlendingar sem nú eru í störfum njóta þeirra réttinda nú þegar. Það er misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að þeir útlendingar, sem nú eru í störfum hér á Íslandi, njóti ekki þessara réttinda. ( HG: Það hélt ég bara ekki.) Ja, það var ekki hægt að skilja annað á máli hv. þm. en að hann héldi að eina breytingin með aðildinni að Evrópsku efnahagssvæði væri sú að það gæti verið að hingað kæmu fleiri útlendingar í atvinnuleit en nú en það fer auðvitað eftir atvinnu- og afkomuhorfum hér samanborið við atvinnu- og afkomuhorfur í þeim löndum sem þeir eiga þá val um að fara til eða eru sjálfir frá.
    Þá sagði hv. þm. að það væri eða gæti verið mjög freistandi fyrir fólk úr Miðjarðarhafslöndum að leita hingað jafnvel með fjölskyldur sínar til þess að leggjast upp á hið íslenska tryggingakerfi. Hv. þm. hlaut menntun sína í Þýskalandi. Hann veit hvað svona sjónarmið eru kölluð þar. Ég átti ekki von á því, virðulegi forseti, að hv. þm., sem kennir sig við sósíalisma og jafnaðarstefnu, tæki svona til orða, að það gæti verið hætta á því að þetta fólk úr Miðjarðarhafslöndunum, einhverjir Grikkir og Ítalir og svoleiðis fólk, færi að koma hingað með hyski sitt til þess að leggjast upp á íslenska almannatryggingakerfið. Þessi viðhorf eru vissulega til, virðulegi forseti, og þau heyrast --- ekki bara í Þýskalandi heldur í ýmsum löndum nær okkur, þar á meðal í Svíþjóð. En ég átti ekki von á því að heyra þessi viðhorf úr munni fólks sem kennir sig við jafnaðarstefnu.
    Auðvitað get ég ekkert fullyrt um það frekar en aðrir hvað líklegt er í þessum efnum. En ég vil aðeins benda á þá reynslu sem menn hafa af þessum málum sem ég veit að hv. þm. veit um. Er þetta reynsla Dana, sem hafa ekki minna öflugt velferðarkerfi en við Íslendingar, að þangað hafi streymt fólk úr Suður-Evrópu til þess að leggast upp á hið danska tryggingakerfi? Að vísu hefur því stundum verið haldið fram í fjölmiðlum hér á Íslandi og í opinberri umræðu að einstakir Íslendingar hafi gert þetta, þ.e. farið til Danmerkur eða Svíþjóðar til að setjast upp á sósíalinn. En er þetta sú þróun sem verið hefur eftir að

Danir gengu inn í Evrópubandalagið, að þangað hafi flykkst inn fólk frá Miðjarðarhafslöndum með fjölskyldur sínar, eins og hv. þm. talaði um, til þess að setjast upp á danska sósíalinn? Nei. Það hefur ekki gerst. Hvað er það sem hefur gerst? Það sem hefur gerst er að hinir arísku Danir, ljóshærða og glæsilega fólkið af þessum aríska kynstofni hefur flutt sig í miklu meira mæli til Suðurlanda, m.a. til að setjast þar að, heldur en dökkleitu Miðjarðarhafsbúarnir hafa farið til Danmerkur þannig að ég held að hv. 4. þm. Austurl. þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af slíkri þróun hér sem ég sé nú í sjálfu sér ekki afskaplega áhyggjuverða þó svo kynni að fara að einhver maður eða kona sem ætti uppruna sinn í Miðjarðarhafslöndunum ætti það til að búsetja sig hér á okkar landi. En reynslan sem við höfum fyrir okkur um þróunina á undanförnum árum í Danmörku sem er ekki bara aðili að Evrópsku efnahagssvæði, sem ekki er til, heldur Evrópubandalaginu, reynsla þeirra er ekki svona.
    Hv. þm. sagði líka og það réttilega að helstu hugmyndasmiðirnir að þessari smíð, Evrópsku efnahagssvæði, væru fremstu foringjar sósíaldemókrata í Evrópu. Það er ekki leiður félagsskapur að vera í, með helstu foringjum sósíaldemókrata í Evrópu og ég spyr: Er það ekki sá félagsskapur sem formaður Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hefur þráfaldlega sagt þjóðinni að sé sá félagsskapur sem hann eigi öðrum Íslendingum fremur heima í? Það væri ekki verra að hann hlustaði á hv. 4. þm. Austurl. skýra frá því á þingflokksfundi að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að þetta Evrópska efnahagssvæði væri hugarfóstur allra fremstu foringja sósíaldemókrata í Evrópu og mætti þá sjálfsagt gera ráð fyrir því að hv. formaður Alþb., sem er fljótur að skipta um skoðun, gerðist meðal helstu fylgjenda málsins hér á Alþingi ef hann gerði sér grein fyrir því, sem auðvitað er rétt, að með því að ganga í lið með fylgismönnum frv. um aðild Íslands að EES væri hann að gerast liðsmaður fremstu foringja sósíaldemókrata í Evrópu. Því ef marka má hv. þm. þá þykist hann vera í þessum hópi. Hann þykist vera einn af fremstu foringjum jafnaðarmanna í Evrópu. Hann lítur nú ekkert smátt á sig, hv. þm. ( HG: Hvaða þingmaður?) Ég á því von á því að a.m.k. ef hann hefði heyrt ummæli hv. 4. þm. Austurl., ég vona að hann komi þeim til hans, þá sjái hann að sér og muni áreiðanlega annaðhvort í umræðum um þingsköp eða utan dagskrár gera Alþingi grein fyrir því á næstunni að honum hafi snúist hugur í þessu EES-máli og að hann sé genginn til liðs við helstu foringja sósíaldemókrata í Evrópu, hugmyndasmiði þessa samnings.
    Hv. þm. talaði um að í þessu frv. væri gert ráð fyrir meira reglugerðarvaldi til ráðherra en algengt er. Það er ekki rétt. Samkvæmt núgildandi lögum hefur ráðherra einmitt sett reglugerðir um starfsréttindi heilbrigðisstétta. Þær reglugerðir hefur ráðherra t.d. sett um starfsréttindi sérfræðinga o.s.frv. þannig að reglugerðarvaldið, sem verið er að tala um í þessu frv., er ekki meira reglugerðarvald en heilbrrh. hefur haft og hefur samkvæmt gildandi lögum.
    Þá spurði hv. þm. að því hvort það mundi ekki vefjast fyrir heilbrrh. ef hann þyrfti að fara að meta hæfileika og nám einstakra starfsmanna í heilbrigðisstétt sem hefðu hlotið sitt nám erlendis og óskuðu eftir réttindum til starfa á Íslandi. Þetta vefst ekki mjög fyrir heilbrrh. á Íslandi vegna þess að Evrópubandalagið er löngu búið að setja reglur um þessi efni. Evrópubandalagið hefur sett reglur þar sem nákvæmlega er lýst hvaða lágmarksmenntun er skilyrði þess að t.d. læknir sé viðurkenndur sem slíkur, hjúkrunarfræðingur sé viðurkenndur sem slíkur o.s.frv. Þannig að þessar reglur eru þegar í gildi hjá Evrópubandalaginu. Spurningin er aðeins um það þegar á að gefa út starfsleyfi fyrir viðkomandi einstakling, sem um það sækir, hvort hann uppfyllir þessar reglur. Einn þáttur í þeirri reglugerðarsmíð, sem frv. gerir ráð fyrir að heilbr.- og trmrh. taki á sig, er að setja í reglugerð á Íslandi nákvæmlega sams konar ákvæði um lágmarksmenntun heilbrigðisstétta og þau eru í reglugerðum EB og verða í reglugerðum allra landa á EES-svæðinu. Þetta mál er mjög einfalt. Það er búið að ljúka gerð þessara reglna. Þær hafa verið gefnar út og hafa verið í gildi í nokkur ár.
    Þá spurði hv. þm. einnig um þær kröfur sem gerðar eru til íslenskukunnáttu heilbrigðisstétta. Þær kröfur eru í núgildandi lögum. Í núgildandi lögum eru gerðar þær kröfur að umsækjendur um starfsréttindi á heilbrigðissviði hér á landi uppfylli kröfur um íslenskukunnáttu. Þær eru gerðar með nákvæmlega sama orðalagi í gildandi lögum eins og lagt er til í þessu frv. Það eina sem þarf að gera er að undanþiggja ríkisborgara EES þeim kröfum að undirgangast slíkt próf í íslensku áður en þeir öðlast starfsréttindi á Íslandi. Hins vegar er áfram haldið reglum í gildandi lögum um þær kröfur sem gerðar eru til íslenskukunnáttu heilbrigðisstarfsstétta annars staðar frá en innan EES-svæðisins. Þetta er eina breytingin sem verið er að gera. Það er verið að undanþiggja íbúa EES-svæðisins frá því að uppfylla þessar kröfur um íslenskukunnáttu til þess að geta öðlast starfsréttindi á Íslandi en kröfunum er áfram haldið gagnvart heilbrigðisstarfsfólki frá öðrum svæðum.
    Hv. þm. spurði: Hvernig er þetta framkvæmt? og talaði eins og það væri verið að leiða þessar kröfur í lög fyrst núna. Hvernig er þetta framkvæmt? Ég vísa þeirri spurningu aftur til hans. Hann ætti öðrum fremur að geta fengið það uppgefið hvernig þetta er gert af þeirri einföldu ástæðu að þetta eru þau lög sem voru í gildi þegar eiginkona hans, sem er með læknisréttindi frá Þýskalandi, að því er ég best veit, fékk réttindi til að starfa hér á Íslandi. Þá voru þessi ákvæði í gildi að til þess að geta fengið slík réttindi, varð hún eins og aðrir einstaklingar að uppfylla kröfur um íslenskukunnáttu. Ef Evrópsku efnahagssvæði hefði verið komið á á þessum árum, þá hefði hún verið ein af þeim sem ekki hefði þurft að uppfylla þessar kröfur um íslenskukunnáttu. Hvernig var þeim beitt og hvernig er þessum ákvæðum gildandi laga beitt? Enginn á auðveldara með að fá það upplýst en hv. 4. þm. Austurl. því að hann þarf ekki annað en spyrja konuna sína. Ég vil hins vegar upplýsa það í þessu sambandi, og vil þá svara spurningu hv. þingkonu Ingibjörgu Sólrúnu sem hún beindi til mín hér áðan, að menn mega ekki blanda saman tvennu, þ.e. annars vegar hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til þess að starfsréttindi þeirra séu viðurkennd á Íslandi og hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til þess að fá starf á Íslandi. Það er hægt að gera þá kröfu, skulum við segja, til starfsfólks í heilbrigðisþjónustu, t.d. til tannlæknis sem ráðinn er til starfa á Íslandi eða til læknis á heilsugæslustöð að hann tali íslensku til þess að hann fái starfið. En það er allt annað en krafa sem hann getur haft uppi um að fá starfsréttindi. Og þessu mega menn ekki blanda saman. Það er ekki hægt að standa gegn því að borgari í EES-landi, sem uppfyllir t.d. lágmarkskröfur sem gerðar eru til þess að læknisréttindi séu veitt, fái starfsréttindi. Það er ekki hægt að standa gegn beiðni hans um að fá þessi réttindi hér á Íslandi, hafa þau á EES-svæðinu með tilvísun til þess að hann kunni ekki íslensku. Hann getur átt kröfu á því að fá sín starfsréttindi viðurkennd þó að hann kunni ekki íslensku. Hins vegar er hægt að gera þá kröfu þegar læknir er ráðinn, skulum við segja að heilsugæslustöð, að ekki séu ráðnir aðrir læknar en þeir sem kunna íslensku. Þetta er munurinn á því annars vegar hvað varðar starfsréttindaveitingu hér á landi og hins vegar hvað varðar starfsráðningu. Þannig er hægt að hafa uppi kröfur um íslenskukunnáttu við starfsráðningu og vísa þannig á bug einstaklingi sem ekki kann íslensku en hefur að öllu leyti fullgild réttindi til að mega starfa t.d. sem læknir hér á Íslandi.
    Hv. þm. spurði hvort til stæði að opna skrifstofu í Brussel af hálfu heilbrrn. vegna þess að embættismenn hefðu ekki tíma til þess að lesa í gegnum alla þá doðranta sem þeir þyrftu að lesa sig í gegnum áður en þeir héldu til fundar um málefni EES og því þyrfti að opna fyrir þá einhvers konar lesskrifstofu í Brussel. Það eru engar slíkar ráðagerðir uppi í heilbrrn. enda átti ég satt að segja ekki von á því frá hv. 4. þm. Austurl. að hann vantreysti Íslendingum til að lesa sig í gegnum þykka skjalabunka. Ég held að hann geti manna best borið vitni um það að Íslendingar eru ekkert síðri lestrarhestar en aðrir, ekki heldur á skjalabunka.
    Þá var spurt um ákvæði um búfjártryggingarnar í þessu frv. Það sem þar er gert er einfaldlega að felld voru niður tvö orð úr gildandi lögum, þ.e. orðin ,,í deildinni``. Skylt er að tryggja ,,í deildinni``. Það sem þarna er verið að gera er að einfaldlega er verið að fella niður skyldutryggingarákvæði sem við getum líka nefnt einokunarákvæði tiltekinna trygginga en viðhalda skyldutryggingunni. Menn geta valið tvær aðferðir til að gera þetta. Það er annars vegar að segja: Brtt. við 3. gr. laga nr. 20 frá 26. febr. 1943. Brott falli orðin ,,í deildinni.`` Eða að segja: Þessi grein skal orðast svo og koma síðan með tillgr. eða lagagr. eins og hún verður að þessum tveimur orðum brott felldum. Þann kost tók heilbrrn. m.a. til þess að þingmenn gerðu sér ljóst hvað stendur í gildandi lögum, ekki bara hvað verið er að fella brott úr þeim. Og öll þessi ankannalegheit sem hv. þm. las upp sér og öðrum til skemmtunar eru orðrétt tekin upp úr gildandi lögum sem sett hafa verið að tilhlutan einhvers landbrh. árið 1943. En hv. þm. hefði gjarnan mátt lesa lengra. Vegna þess að í þessari lagasmíð, svo góð og nauðsynleg sem hún nú er, stendur líka einhvers staðar --- ég gæti kannski fengið þetta frv. lánað hjá forseta því ég hef tekið rangt frv. með mér í ræðustólinn --- þarna stendur svona mönnum til skemmtunar og gamans, 3. gr. orðist svo:
    ,,Skylt er að tryggja gegn hvers konar vanhöldum, kynbótanaut, kynbótahest og kynbótahrúta`` o.s.frv. þannig að þetta er alveg eins og er í gildandi lögum nema bara að tvö orð hafa verið felld niður. Síðan stendur í g-lið, 1. og 2. mgr. 11. gr. falla niður og 3. mgr. 11. gr. verður svohljóðandi að tveimur orðum niðurfelldum:
    ,,Nú verður ágreiningur milli vátryggingarfélags og tjónþola um rétt og skyldu til bóta eða um upphæð bótanna, og skal ágreiningnum þá skotið til gerðardóms þriggja manna. Nefni til sinn mann hvor aðili, en viðkomandi dómari oddamanninn . . .  ``
    Nú er auðvitað ljóst að tjónþoli í þessu sambandi er þá kynbótanautið, kynbótahesturinn eða kynbótahrúturinn. Það er ekki talað um tryggingartaka heldur tjónþola og rísi upp ágreiningur um greiðslu bóta þá á sem sagt tjónþoli á móti vátryggingarfélagi að tilefna í gerðardóm, þ.e. kynbótanautið, kynbótahesturinn eða kynbótahrúturinn á að tilnefna í gerðardóm. Ég veit nú satt að segja ekki hvernig tjónþoli fer að þessu. E.t.v. háttar svo til í landbrn. að þar skilji menn mál nauta og sauða betur en aðrir menn og kannski fuglamál líka en svona er orðanna hljóðan í lögunum og svona hefur þetta staðið í lögunum að því er mér sýnist vera frá ómunatíð eða frá árinu 1948 sem er nú næstum því frá ómunatíð. Kannski væri ástæða til þess að þingnefndin skoðaði þetta með hliðsjón af framför og e.t.v. afturför í landbrn. að menn ættu erfitt með að skilja mál nauta, sérstaklega kynbótanauta, kynbótahesta og kynbótahrúta en menn gerðu árið 1948 þegar Páll heitinn Zóphóníasson var einn fremstur maður í landbúnaðarmálum á Íslandi.
    Einnig er alveg rétt hjá hv. þm., og ég leitaði að því, að orðið frábending er ekki til í Orðabók Menningarsjóðs og er því engin skýring á því hvað orðið þýðir í þeirri orðabók. Hins vegar er það til í lögum. Í lögum frá 1978, VII. kafla laga þar sem vikið er að auglýsingu og kynningu lyfja, lækningaáhalda, sjúkravarnings og lyfjagagna, segir svo orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Í lyfjaauglýsingum skal, auk þeirra atriða sem getur í 1., 2., 3. og 5. tölul. 17. gr., greina helstu ábendingar (indicationes) og frábendingar (contraindicationes) er varða notkun hlutaðeigandi lyfja og pakkningastærðir``.
    Þetta orð sem hv. þm. gerði að umtalsefni og finnst í frv. er því að finna í lögum frá 1978 og í gildandi lögum frá 1984. Hins vegar er það ekki í Orðabók Menningarsjóðs og væri full ástaða til þess í

endurskoðaðri útgáfu þeirrar orðabókar að koma merkingunni þar á framfæri.
    Þá spurði hv. 2. þm. Vesturl. hvers vegna hafi þótt hagkvæmara að flytja öll þessi frv. í einum lagabálki, einum bandormi, fremur en kljúfa hann upp og flytja mörg frv., um sitt málið hvert. Ástæðan er einfaldlega sú að við töldum það rétt og höfðum kynnt það þannig fyrir heilbr.- og trn. að við mundum reyna að leggja fram í einu frv. þær breytingar sem þyrfti að gera á lögum varðandi EES einfaldlega til þess að menn fengju betra yfirlit og betri heildarsýn yfir breytingarnar. Hins vegar er frv. sett upp í köflum þannig að hver kafli varðar þann þátt sem fellur þar undir svo sem eins og í einum kafla eru allar breytingar á lögum um heilbrigðisstéttir, í öðrum kafla eru allar breytingar á lögum um vátryggingarsvið og í þriðja kafla eru allar breytingar á lögum um eiturefni og hættuleg efni o.s.frv. Því er mjög auðvelt eins og þetta frv. er sett upp að átta sig á hverju atriði málsins fyrir sig. Það er mjög gott að fá yfirlit yfir þessar breytingar í einu frv. Hins vegar er það að sjálfsögðu ákvörðun nefndarinnar hvort hún telur rétt þegar hún sendir afgreiðsluna frá sér, vonandi sem allra fyrst, að það sé samþykkt með þessum hætti sem eitt frv. eða hvort nefndin telur rétt að kljúfa þennan bandorm upp í frv. sem hún leggur fyrir við 2. umr. um sjálfstæðar breytingar á hverjum lagabálki sem fellur hér undir. Þingnefndin ræður því auðvitað og getur breytt því í þá veru ef hún kýs svo.
    Hv. þm. spurði um menntunarkröfurnar. Ég hef upplýst að Evrópubandalagið hefur sett reglugerð um lágmarksmenntunarkröfur sem þarf að uppfylla til að fá starfsréttindi sem aðili að heilbrigðisstétt. Þær reglugerðir verða gefnar út á Íslandi eins og í öðrum ríkjum þar sem þessi lágmarksmenntunarskilyrði eru talin upp. En ég held að við þurfum ekki að óttast að kröfurnar sem við gerum til menntunar heilbrigðisstétta séu miklu meiri en gerðar eru í löndum eins og Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku, Hollandi eða Belgíu. Mjög margir, sem tilheyra íslenskum heilbrigðisstéttum, sækja einmitt menntun sína til þessara landa, þá menntun sem þeir síðan nota hér. Ég hef aldrei heyrt því hreyft að við þyrftum að óttast að Frakkar, Þjóðverjar, Bretar, Danir, Hollendingar, Belgíumenn, Svíar eða Norðmenn geri miklu minni kröfur til heilbrigðisstarfsfólks en Íslendingar, svo miklu minni að einhver hætta sé um eitthvert álitamál um það hvort aðilar sem samþykktir eru til heilbrigðisstarfa í þessum löndum fái að starfa hér.
    Ég er búinn að svara spurningu hv. þm. varðandi íslensku kröfurnar svo ég þarf ekki að endurtaka það. Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þm. að við erum að gera ákveðna grundvallarbreytingu í tryggingum. Hingað til höfum við búið við það kerfi að skyldutrygging á húseignum hefur ekki aðeins verið lögleidd heldur hafa verið í lögum fyrirmæli um að húseigendur eigi að tryggja hjá tilteknum tryggingarfélögum og þeir hafa ekkert frjálst val þar um. Þetta er í andstöðu við megininntak samningsins um Evrópskt efnahagssvæði að hægt sé að skylda einstakling í frjálsu viðskiptakerfi til að beina viðskiptum sínum til aðeins eins tiltekins aðila sem selur honum þjónustu. Þetta atriði er verið að afnema. Ekki er verið að afnema skyldutrygginguna en það er verið að afnema það að opinberir aðilar, hvort heldur er ríki eða sveitarfélög, geti skyldað tiltekinn einstakling eða félag til að tryggja brunatryggja hús sitt hjá aðeins einu tilteknu vátryggingarfélagi. Það er því ekki alveg rétt sem hv. þm. sagði, sjálfsagt hefur það verið missögn, að verið sé að afnema skyldutryggingu. Það er ekki verið að því. Þá spurði hv. þm. hvernig háttað yrði eftirliti með skyldutryggingarákvæðinu háttað, hvernig því yrði framfylgt þegar búið væri að leggja niður fyrirmæli um að skyldutryggjandinn skyldi taka tryggingu sína hjá einu tilteknu tryggingafélagi hvað sem tautar og raular. Við höfum sambærileg dæmi fyrir okkur eins og áðan var minnst á, t.d. af hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni þar sem er skyldutrygging ökutækis. Í skyldutryggingu ökutækis er ekki ákvæði um það að eiganda ökutækis sé skylt að tryggja það hjá einhverju tilteknu tryggingafélagi. Eiganda ökutækis er heimilt að tryggja ökutæki sitt hvar sem hann vill. Hins vegar er honum skylt að taka skyldutryggingu á ökutækið. Nú er verið að afnema annað atriðið hvað varðar húsatryggingar, þ.e. skyldu tryggingartakans til að tryggja hjá einu tilteknu tryggingafélagi. Hvernig á þá að sjá til þess að hann framfylgi hinum þættinum sem hann undirgengst nú, þ.e. honum er skylt að tryggja eign sína?
    Í fyrsta lagi er það gert hvað varðar húsatryggingar utan Reykjavíkur með þeim hætti að tryggingafélagi, þar sem húseign er tryggð nú, er ekki heimilt að taka við uppsögn á tryggingu nema að ljóst sé að búið sé að tryggja húseignina hjá öðru tryggingafélagi.
    Í öðru lagi hefur verið spurt: Hvað um nýjar fasteignir? Hvernig er hægt að ganga svo frá að nokkuð öruggt sé að t.d. húsbyggjandi, sem er að byggja nýtt hús, taki skyldutryggingu á hús sitt? Þar er að svara nákvæmlega því sama eins og við bílakaup. Þeir menn sem taka lán til bílakaupa verða samkvæmt skilmálum lánsins að taka ábyrgðartryggingu á bifreið sína og lánveitandinn sem tekur veð í bifreiðinni afgreiðir lánið ekki fyrr en hann hefur gengið úr skugga um að ábyrgðartryggingin hafi verið tekin. Þeim aðilum sem veita lán út á fasteignir, byggingu fasteigna --- allflestar fasteignir á Íslandi eru nú byggðar þannig að einhver veiti lán til þeirra --- ber auðvitað skylda að ganga svo frá að veðið sem tekið er í fasteigninni gegn láninu sé öruggt veð og því aðeins verður veðið öruggt að viðkomandi eigandi fasteignar sýni fram á að fasteignin hafi verið brunatryggð. Ég tel þess vegna að engin ástæða sé til að óttast um það að ekki verði gengið þannig frá að nýjar húsbyggingar á Íslandi taki á sig skyldutryggingu. Þeir sem taka veð í slíkum fasteignum gegn lánveitingum munu sjá um það.
    Í þriðja lagi var spurt: Þó svo það kunni að vera að búið sé að ganga nægilega tryggilega frá þessu gagnvart eigendum íbúðarhúsnæðis utan Reykjavíkur hver er þá tryggingin gagnvart Reykjavík því þar falla lögin um Húsatryggingar Reykjavíkur niður um nk. áramót? Því er til að svara að við getum ekki haft sama

háttinn á þar eins og utan Reykjavíkur af þeirri einföldu ástæðu að sá sem hefur nú einkarétt á brunatryggingum utan Reykjavíkur heldur áfram sem tryggingafélag og getur því áfram haft tryggingu á viðkomandi húsnæði í sínum höndum ef eigandinn kýs að flytja ekki trygginguna til annars tryggingafélags. Þetta á sér ekki stað um Húsatryggingar Reykjavíkur því að gert er ráð fyrir að lögin um Húsatryggingar Reykjavíkur falli úr gildi þannig að Húsatryggingar Reykjavíkur verða ekki starfræktar eftir áramótin 1993--1994. Og hvað gerist þá? Um þetta hef ég tvennt að segja:
    Í fyrsta lagi. Halda menn að vátryggingarfélögin á Íslandi, sem eru í mjög harðri samkeppni sín á milli um sölu vátrygginga, láti það gerast að húseignir í Reykjavík falli úr brunatryggingu við árslok 1993, þegar vitað er að í landinu eru lög um skyldubrunatryggingu slíkra eigna?
    Í öðru lagi. Halda menn að veðhafar þessara eigna, þeir sem hafa lánað til bygginga á þessum húseignum eða tekið veð í þeim af öðrum sökum, láti það gerast að varðveita veðkröfur á húsunum án þess að ganga úr skugga um að skyldutrygging hafi verið tekin eftir að tryggingin hjá Húsatryggingum Reykjavíkur fellur niður í árslok 1993?
    Auðvitað er þetta þannig að menn verða að ganga út frá því að svona sæmilega meðvitað fólk um eigin hag, sem ég held nú að allir séu, gangi þannig frá málum sínum að þeir taki ekki þá áhættu að brunatryggja ekki eignir sínar. Á því er skyldutrygging. Það er til í dæminu í dag, þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir ákvæði um skyldutryggingu og þrátt fyrir að þau ákvæði séu í gildi, ekki bara um skyldutryggingu heldur hjá tilteknu tryggingafélagi, að menn borgi ekki iðgjöldin sín. Ef menn borga ekki iðgjöld þá á náttúrlega ekki tryggingarveitandinn eða sá sem tryggingin er keypt af að vera skaðabótaskyldur ef hús brennur. Engu að síður hafa tryggingafélögin gert þetta.
    Á þetta verður að láta reyna, láta sjá hvort þetta gengur ekki eftir. Ég hef sjálfur ekki ástæðu til að óttast að einhverjar brotalamir verði á skyldutryggingunni hvorki gagnvart nýjum húsum, húsum utan Reykjavíkur, né húsum í Reykjavík. En hvaða skoðanir sem menn hafa á því þá er það grundvallaratriði eins og hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan að hérna geta menn ekki sagt kannski og þarna verða menn að fella niður ákvæði um að íbúðareiganda eða húseiganda beri skylda til að tryggja fasteign sína hjá tilteknu tryggingafélagi. Það samrýmist ekki samkomulaginu sem við erum að gera um EES, ef við staðfestum það, og þess vegna verður að fella það ákvæði brott úr íslenskri löggjöf að húseiganda beri skylda til þess lögum samkvæmt að tryggja fasteign sína hjá aðeins einu tilteknu tryggingafélagi.
    Hins vegar vil ég taka fram að sveitarfélögin, ef þau kjósa, geta áfram boðið út tryggingar í umdæmi sínu og leitað útboða hjá tryggingafélögum. En þau geta ekki skyldað íbúa í sveitarfélaginu til að tryggja hjá því tryggingafélagi einu sem kann að gera lægsta tilboðið. Ef einhver íbúi í sveitarfélaginu vill ekki tryggja hjá því tryggingafélagi, sem sveitarfélag kann að hafa samið við um brunatryggingu á sveitarstjórnarsvæði sínu eftir útboð, þá getur hvorki löggjafinn né sveitarstjórnin í sveitarfélagi hans bundið hann við það.
    Hv. þm. Guðmundur Bjarnason kom einnig fram með nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi spurði hann um nýtt frv. um almannatryggingar, hvort ekki væri að vænta annarra breytinga en bara þeirra sem tengjast Evrópsku efnahagssvæði. Jú, það er að vænta annarra breytinga. Það sem ég ræddi um í framsöguræðu minni áðan var einfaldlega það að okkur fannst rétt þegar gera þarf tilteknar breytingar á lögum um almannatryggingar vegna EES að nota þá það tækifæri til þess að steypa saman í eina löggjöf öllum þeim mörgu breytingum sem búið er að gera á umliðnum 20 árum og aldrei hefur verið steypt saman í eitt samfellt og heilsteypt kerfi. Það er mál út af fyrir sig. Við ætlum að nota EES-tækifærið, ef svo má segja, til að gera einnig þær teknísku breytingar. En þingmenn mega eiga von á að ég leggi fram aðrar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni sem varða efnislegar breytingar og hvorki varða EES né heldur þá þörf að steypa saman þeim breytingum sem gerðar hafa verið á síðustu 20 árum á lögum um almannatryggingar í einn bálk.
    Þá spurði hv. þm. um nýja löggjöf um lyfjamál, hvort fallið væri frá áætlun um nýja lyfjalöggjöf um kerfisbreytingu. Það er ekki. Ósk mín var sú að hægt væri að setja slíka nýja löggjöf inn á þetta sumarþing, þar sem inni væru bæði þær kerfisbreytingar sem hv. þm. talaði um og þær breytingar sem gera þarf á þessum lögum vegna EES. Mér var hins vegar réttilega bent á að samkomulag hefði verið um það á milli stjórnar og stjórnarandstöðu að leggja þau mál ein fyrir þetta sumarþing sem vörðuðu EES og ekki aðra málaþætti. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að taka út úr frv. sem fyrir liggur og er til fullsmíðað í heilbrrn. þá þætti sem varða EES, koma með frv. um þá þætti eina á þessu sumarþingi en láta kerfisbreytingarnar bíða. Ég á von á að geta lagt slíkt frv. fram í október eða í síðasta lagi í nóvember. Það verður þá frv. um breytingu á lyfjalöggjöf og lög um lyfsölu og lyfjadreifingu sem varðar kerfisbreytingar en ekki EES.
    Þá spurði hv. þm. um reglugerðarákvæði sem er að finna í 3. tölul. 1. gr. þessa frv. þar sem segir að ráðherra skuli með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega lækningar hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr., þ.e. þar sem rætt er um þann sem fengið hefur staðfestingu heilbr.- og trmrh. um lækningaleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Hv. þm. spurði hvort mér væri unnt að setja í slíkri reglugerð einhverjar þrengingar á réttindum slíkra aðila til starfsheimilda hér á landi umfram það sem segir í samkomulaginu um EES. Það er ekki. Það sem þarna er átt við er það sem ég var að segja áðan að heilbrrh. verður að setja reglugerð um störf, í þessu tilviki lækna, sem er samhljóma þeirri

reglugerð um lágmarkskröfur til þess að mega starfa sem læknir sem EB hefur orðið sammála um og gilda í hinu Evrópska efnahagssvæði. Reglugerðarákvæðið þarna vísar eingöngu til þess. Í þeirri reglugerð er mér ekki heimilt að þrengja kröfur um það sem segir í reglugerð EB um lágmarksmenntunarkröfur þær sem gerðar eru til þess að einstaklingur geti fengið læknisleyfi í þessum löndum.
    Þá spurði hv. þm. hvort stjórnendur gætu vísað fólki frá ráðningu á forsendum málakunnáttu þó fagleg staða væri ótvríræð. Því hef ég þegar svarað. Svarið er já. Við getum ekki komið í veg fyrir að einstaklingur sem hefur tilskilin réttindi til að geta starfað, t.d. sem læknir, á EB- og á EES-svæðinu fái sömu réttindi hér þó hann hafi ekki vald á íslensku máli en við getum komið í veg fyrir það ef við viljum og ef stjórnir viðkomandi stofnana vilja ekki að slíkur aðili sé ráðinn til starfa. Félmrn., eins og fram hefur komið, hefur raunar þegar sent bréf um að menn hafi þann vara á sér. Ég ítreka að þarna er munur á annars vegar á starfsráðningum og hins vegar á réttindaveitingum til starfa.
    Þá spurði hv. þm. um það hvort hægt væri að beita til takmörkunar með einhverjum hætti þeirri sérstöðu Íslendinga að sérfræðigreinar hér eru miklu fleiri í læknisfræði en sérfræðigreinar í nálægum löndum. Þetta er álitamál sem ég treysti mér ekki til að svara hér og nú. Ég hef spurst fyrir um þetta og skal beita mér fyrir því að hv. þm. og nefndin fái fullnægjandi svar við þessari spurningu.
    Þá spurði hv. þm. um leyfissviptingar. Leyfissviptingar geta orðið með tvennum hætti. Í fyrsta lagi skulum við taka sem dæmi að hér sé um lækni að ræða, en það dæmi gildir um hvaða heilbrigðisstétt sem er. Ef læknir sem starfar á EES-svæðinu er sviptur læknisleyfi í sínu heimalandi, þaðan sem leyfið er upprunnið, þá gildir sú leyfissvipting á öllu EES-svæðinu. Þá missir hann sitt lækningaleyfi hvarvetna á því svæði.
    Í öðru lagi getur leyfissvipting komið þannig til, ef t.d. slíkur læknir væri að störfum hér og bryti af sér hér á landi að áliti heilbrigðisyfirvalda, þá getur heilbrrh. svipt hann starfsleyfi. Þetta leiðir af jafnréttisreglunni, þ.e. ef þessi heimild væri ekki í gildi hefði erlendur læknir sem starfaði á Íslandi meiri rétt en íslenskur læknir sem starfaði hér. Það eru engar deilur um að íslenskur heilbrrh. sem veitir íslenskum lækni læknisleyfi á Íslandi getur að sjálfsögðu svipt hann leyfi ef hann gerist brotlegur við þær reglur sem gilda um starfshætti lækna á Íslandi. Ef það gilti ekki það sama gagnvart erlendum lækni sem starfaði hér væri hinn erlendi læknir rétthærri til læknisverka á Íslandi en íslenski læknirinn. Þess vegna er alls staðar í öllum EFTA-löndunum gengið út frá því og hefur verið samþykkt af EB og engar athugasemdir gerðar við það að í þessu tilviki gæti íslenskur heilbrrh. svipt erlendan lækni læknisleyfi ef hann bryti af sér og brot hans væri þannig að ef hann væri íslenskur læknir yrði hann sviptur leyfi fyrir sömu brot.
    Þá spurði hv. þm. hvort heilbrrh. hefði beitt sér fyrir því að undanþága var veitt gagnvart Húsatryggingum Reykjavíkur. Svarið er mjög einfaldlega nei. Ég óskaði ekki eftir því. Hins vegar kom í ljós að sambærilegt fyrirkomulag í sambandi við skyldutryggingu húseigna er í kantónunum í Sviss. Þegar það lá fyrir var óskað eftir því að þessi undanþáguregla sem hafði verið samþykkt gagnvart kantónunum í Sviss næði einnig hingað til Íslands og á það var fallist í þessu samkomulagi.
    Þá var spurt líka: Er hægt að gera undanþáguákvæðið afturgilt? Til þess þyrfti að endurvekja lög um Húsatryggingar Reykjavíkur sem nú á að fella úr gildi. Í öðru lagi þá eru á leiðinni reglur frá EB sem reiknað er með að verði gefnar út á næsta ári og taki gildi í upphafi árs 1994 þar sem þessir undanþágumöguleikar fyrir kantónurnar í Sviss eru felldar út. Það eru allar líkur á því að þó við höfum nýtt okkur þessa undanþágu gagnvart Húsatrygginum Reykjavíkur mundu þær ekki hafa getað gilt lengur en í lengsta lagi til ársloka 1994.
    Þá spurði hv. þm. einnig um hvernig fylgt verði eftir ákvörðunum um skyldutryggingar og eftirlit með því að nýjar byggingar taki skyldutryggingar eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að ég hafi þegar svarað því.
    Virðulegi forseti. Ég held ég hafi í þessu langa máli svarað öllum þeim spurningum sem hv. þm. hafa til mín beint. Ég vil þakka fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt þessu máli og er að sjálfsögðu reiðubúinn til að greiða fyrir því að allar þær upplýsingar sem þeir óska eftir og mér eru tiltækar berist þeim eins fljótt og vel og verða má.