Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 15:34:11 (656)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. liggi mér ekki á hálsi fyrir það að rifja upp gamlar minningar úr þessum þingsal en það er staðreynd að þessi orð sem ég vitnaði til féllu hér með nákvæmlega þeim hætti sem ég rakti. Það er auðvitað engum til vansa að rifja þau upp. Hvers vegna ætti það að vera? Þetta eru orð sem hafa verið sögð. Hverjum er það til vansa að rifja þau upp? Þeim sem rifjar þau upp eða þeim sem þau sögðu? Mér er það ekki alveg ljóst.
    Aðeins út af síðustu spurningu hv. þm. Ég get náttúrlega ekki hér og nú upplýst um það hversu margar húseignir í Reykjavík kunna að vera ótryggðar. Hins vegar veit hv. þm. það að lánveitendur krefjast þess í öllum tilvikum að tekin sé smíðatrygging um leið og þeir veita sín lán og ég veit satt að segja ekki um margar fasteignir í Reykjavík sem eru byggðar án tilhlutunar lánveitenda. En það er sjálfsagt að athuga eða reyna að afla upplýsinga fyrir hv. þm. þegar málið er komið í nefnd. Ég sit að sjálfsögðu ekki uppi með þær upplýsingar í mínu sæti. En meginatriðið, hvað svo sem menn gera í þessum málum, er þetta: Við getum ekki, alveg eins og hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan, sagt bæði já og nei. Við getum ekki bæði gerst aðilar að Evrópsku efnahagssamstarfi og jafnframt haft í okkar lögum ákvæði um að tryggjendum húseigna sé skylt að tryggja þær hjá einhverju tilteknu tryggingafélagi.