Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 16:34:22 (663)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :     Virðulegi forseti. Ég ætla enn að reyna að svara þeim spurningum sem hafa hafa komið fram og vek athygli hv. þm. á því að þorrinn af ræðutímanum hefur farið í að svara spurningum og veita hv. þm. upplýsingar en ekki í persónulegar athugasemdir frá sjálfum mér þó svo að þær hafi nú fylgt með.
    Ég ætla fyrst að víkja að spurningum hv. 1. þm. Norðurl. e. Ég hef gert grein fyrir hvernig undanþágubeiðnin um Húsatryggingar Reykjavíkur var til komin. Hún kemur til einfaldlega vegna þess áður er búið að fallast á undanþágubeiðni Svisslendinga um tryggingafyrirkomulag húsatrygginga sem er í svissnesku kantónunum og mönnum fannst rétt að gera ráð fyrir því, þar sem þetta var alveg nákvæmlega sams konar fyrirkomulag og gilt hefur hjá Húsatryggingum Reykjavíkur, að halda því til haga. Sú undanþágubeiðni kom ekki upphaflega frá Íslendingum, hvorki heilbrrh. né öðrum, heldur var henni haldið til haga í samræmi við önnur mál eða öllu heldur haldið til haga í samræmi við sambærilegar undanþágur sem hafði verið fallist á og afgreitt hjá öðrum.
    Í öðru lagi hvað varðar skyldutryggingar fasteigna og möguleikum á að fylgja þeim fram. Sá eðlismunur er náttúrlega á skyldutryggingu ökutækja og skyldubrunatryggingu fasteigna að skyldutrygging ökutækja er ekki síst við það miðuð að ökutæki sé tryggt fyrir tjóni sem það veldur þriðja aðila. Skyldutryggingar brunatrygginga á fasteignum eru hins vegar í eðli sínu fyrst og fremst trygging gegn tjóni sem er ekki varðandi þriðja aðila heldur þann aðila sem húseignina á og ber ábyrgð á henni og verður fyrir tjóni ef hann heldur ekki tryggingu sinni til haga. Það eru a.m.k. harla litlar líkur á því ef nokkrar að vanræksla á skyldutryggingu bitni á öðrum en eiganda húseignarinnar, þ.e. þeim sem átti að sjá um að tryggja eignina. Ef hann vanrækir það og illa fer þá lendir tjónið á honum sjálfum öfugt við það sem gerist ef eigandi bifreiðar sinnir ekki skyldutryggingu og veldur þriðja aðila tjóni.
    Ég held, eins og ég sagði hér áðan, að það sé alveg sama hvað við gerum, við getum aldrei tryggt að allir eigendur fasteigna virði í öllum tilvikum skyldutryggingarákvæði laga. Þeir gera það ekki í dag með þeim lögum sem við höfum í gildi. Sjálfsagt er að gera ráðstafanir til þess að reyna að tryggja eftir föngum að slíkar skyldutryggingar verði virtar og við getum að sjálfsögðu leitað ýmissa leiða til þess en við getum ekki farið þá leið til þess að reyna að tryggja að skyldutrygging sé virt að tryggjanda sé gefinn sá einn kostur að hann eigi að tryggja fasteign sína hjá einhverju tilteknu tryggingafyrirtæki hvort sem það er löggjafinn á Alþingi eða framkvæmdarvaldið sem benda á það tryggingafyrirtæki sem tryggja skal hjá einvörðungu eða hvort það er sveitarstjórn sem gerir það.
    Í þriðja lagi er alveg skýlaust að við getum haft í frammi þá viðbáru við að ráða ekki einstakling í starf sem útheimtir samskipti við almenning, að hann sé ekki fær um að tjá sig á íslenskri tungu. Það er alveg skýlaust. Með því erum við ekki að brjóta gegn samningnum um EES um að slíkur aðili getur fengið starfsleyfi á Íslandi þótt hann búi ekki yfir þeim hæfileika að tjá sig á íslenskri tungu. Þetta er alveg skýrt og alveg afdráttarlaust, þennan rétt höfum við.
    Virðulegi forseti. Þá eru nokkur atriði sem komu fram í máli hv. 4. þm. Austurl. Í fyrsta lagi sagði hann að hér hefði verið gefin einhver sérstök tímamótaviðurkenning af hálfu ráðherra á eðli EES-samningsins. Svo er ekki. Eðli samningsins er, og það hefur enginn dregið neina fjöður yfir það, að þau tilteknu atriði sem fjallað er um í samningnum standa ekki til breytinga. Eins og hv. þm. sagði sjálfur, þau atriði standa sem falla undir samninginn. Menn geta ekki breytt þeim atriðum eða vikið þeim við með innlendri löggjöf. Enginn hefur dregið fjöður yfir þetta og enginn neitað þessu og enginn haldið öðru fram en að þetta sé eðli þess samnings sem við erum að fjalla um. Þess vegna er alveg ljóst hjá hv. þm. að þau atriði, sem eru í því frumvarpi sem ég hef hér lagt fram og við höfum verið að ræða um, eru að áliti ráðuneytisins atriði sem tengjast samningnum með þeim hætti að við þeim verður ekki haggað. Athugun heilbr.- og trn. á málinu ætti að sjálfsögðu fyrst og fremst eða að vera sú að ganga úr skugga um að það sé rétt að þau atriði sem þarna eru talin séu atriði sem með þeim hætti tengist samningnum að þau verði að lögfesta eins og þau eru lögð hér fram.
    Ég ætla ekkert að fullyrða fyrir fram um það hver verður niðurstaða heilbr.- og trn. af þeirri athugun. Vel getur verið að heilbr.- og trn. komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn heimili að einhverju sé breytt frá því sem er að finna í ákvæðum frumvarpsins. Eftir stendur það, eins og hv. þm. sagði, að því aðeins verður það gert að heilbr.- og trn. sé þeirrar skoðunar að eðli samningsins heimili það. Enginn ráðherra hefur dregið fjöður yfir þetta enda engin ástæða til því að eins og hefur verið margtekið fram, þá er verið að semja um tiltekna hluti. Ef við föllumst á samninginn og staðfestum hann á Alþingi þá getum við ekki breytt honum eftir á með einhliða ákvörðunum.
    Í öðru lagi sagði hv. þm. að skynsamlegt væri að bíða með fullgildingu samningsins, þar til allt væri fram komið, eins og hann orðaði það, sem er í pípunum. Evrópusamvinnan er og mun verða í stöðugri þróun. Menn munu ekkert á næstunni geta sett neinn punkt þar aftan við og sagt, ja nú er allt fram komið, nú verður ekki gert meira. Ef það ætti að bíða eftir því þá er ég ansi hræddur um að menn yrðu að bíða lengi eftir að Íslendingar staðfestu að gerast aðilar að þeirri samvinnu á vegum EES sem hér er um að ræða. Það sem við erum að taka ákvörðun um er auðvitað það í fyrsta lagi: Viljum við gerast aðilar að samkomulaginu eins og það liggur fyrir? Í öðru lagi: Viljum við hafa áhrif á þá þróun sem óhjákvæmilega hlýtur að verða í þessu samstarfi á næstu árum? Eða ætlum við okkur að standa alfarið þar fyrir utan

og horfa bara á og taka engan þátt í því og hafa engin áhrif á það?
    Um þetta greinir okkur hv. 4. þm. Austurl. að sjálfsögðu á um. Hans skoðun er sú að Íslendingar eigi að standa þarna utan við og eigi engan beinan þátt að taka í þeirri þróun Evrópusamstarfsins, sem fram mun fara innan EES. Skoðun mín er hins vegar sú að við eigum að taka þátt í þessu samstarfi á þeim kjörum sem okkur bjóðast í dag, m.a. til þess að geta haft áhrif á og verið þátttakendur í þeirri þróun sem hlýtur að verða í þessu samstarfi í framtíðinni. Og sú þróun mun ekkert stöðvast. Hún staðnar ekki. Ekki síst eftir hrun heimskommúnismans og þeirra atburða sem gerðust í Austur-Evrópu hlýtur það að vera ljóst að við erum þarna komin inn á feril um Evrópusamstarf sem er komið til að vera.
    Í þriðja lagi þá dró hv. þm. í efa mikilvægi þess að með þessu samkomulagi væri stefnt að því að tryggja réttindi Íslendinga á erlendri grund. Hann talar bara og ávallt um annan þátt þessa máls sem eru þau réttindi sem verið er að tryggja útlendingum á íslenskri grund en hann víkur aldrei einu orði að því hvaða réttindi er verið að tryggja Íslendingum á erlendri grund. Í huga hans er bara ein hlið á málinu og hin gagnstæða er ekki til, a.m.k. ræðir hann aldrei um hana. En hverjum skyldi vera meira í mun en Íslendingum, að tryggja réttindi íslenskra borgara á erlendri grund? Ekki eru mörg ríki í heiminum sem hafa jafnmikla, hvað þá heldur meiri, þörf á því að tryggja sér réttindi á erlendum mörkuðum en Íslendingar. Þær eru fáar þjóðir í veröldinni sem eiga jafnmikið undir erlendum viðskiptum og Íslendingar. Við þurfum að geta keypt okkar aðföng á sem hagkvæmustu verði og geta fengið þau þar sem hagkvæmast er að kaupa þau og á lægsta verði. Við þurfum að geta selt útflutningsvöru okkar þar sem við fáum mest fyrir hana og þurfum að borga sem minnst af henni til annarra þjóða í formi tolla eða skattgjalda. Ef einhver þjóð þarf á því að halda að tryggja sér slík réttindi á erlendri grund þá eru það Íslendingar. Og ef einhver þjóð þarf á því að halda að tryggja sínu unga fólki aðgang að menntun á erlendri grund þá eru það Íslendingar.
    Vissulega er hægt að fá grunnmenntun í mörgum greinum á Íslandi en það á bæði við um tæknigreinar og framhaldsnám á háskólastigi að það sækja Íslendingar ekki hingað heim. Það verða þeir að sækja til annarra ríkja og við vitum ósköp vel að einn stór þáttur í viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis var að tryggja möguleika EFTA-ríkjanna á að geta viðstöðulaust og án hindrana sent unga fólkið til náms í háskólum Evrópubandalagsríkjanna og það eru hrein ósannindi að halda því fram að þetta hafi engin tengsl við samning um Evrópskt efnahagssvæði. Svo lengi og mikið var um það þingað við Evrópubandalagið að tryggja hagsmuni m.a. íslenskra þegna til að stunda nám í erlendum skólum, að það er algjör firra að halda því fram að þetta hafi ekkert með málið að gera. Við verðum að tryggja íslenskum ungmennum menntunarmöguleika sem á erlendri grundu sækja í grunnmenntun á tæknisviði og í framhaldsmenntun bæði á tæknisviði og á háskólastigi. Það gerum við í þessu samkomulagi en getum það ekki ef við erum ekki aðilar að þessu samkomulagi. Það ættu menn mætavel að vita. Þannig að ef einhver þjóð þarf á því að halda að tryggja réttindi sín á erlendri grund eru það við Íslendingar.
    Þá sagði hv. þm. að í samkomulaginu um EES fælist lækkun á kröfum á heilbrigðissviði, lækkun á kröfum á umhverfissviði og lækkun á félagslegri stöðu Norðurlanda. Þetta er gjörsamlega út í hött. Samkomulag um EES leggur okkur Íslendingum þvert á móti miklu harðari kröfur á herðar á umhverfissviði en við gerum sjálfir þannig að þetta eru öfugmæli hjá hv. þm. Með aðild að EES verðum við að undirgangast miklu strangari kröfur á umhverfissviði og umhverfisvernd en eru í gildi í íslenskri löggjöf þannig að þessi rök eru ekki bara falsrök heldur mótsagnir því málunum er þveröfugt farið eins og hv. þm. veit.
    Hv. þm. er virkur þátttakandi í norrænni samvinnu. Ætlar hann að halda því fram að Norðurlöndin stefni að því að rýra félagslega stöðu þegna sinna með aðild þeirra að EES? Það er fráleitt. Hv. þm. veit betur en það er skoðun hans að svona skuli það vera og þeirri skoðun mun hann halda fram fram í rauðan dauðann og við því er ekkert að segja. Það verður bara svo að vera.
    Hv. þm. segir að með aðild að Evrópsku efnahagssvæði séu þjóðirnar að afsala sér fullveldisrétti sínum. Hafa Danir afsalað sér fullveldisrétti sínum með því að gerast aðilar að Evrópubandalaginu? Er Danmörk ekki lengur fullvalda ríki? Mun hann þá sem áhugamaður um norræna samvinnu gera tillögu um að Íslendingar kalli heim sendiherra sinn í Danmörku þar eð hann líti ekki lengur á Danmörku sem fullvalda ríki? Mun hann gera það sama gagnvart Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu og Hollandi? Telur hann að ekki sé lengur um fullvalda ríki að ræða og að Íslendingar eigi að breyta þeim háttum sem þeir hafa haft á stjórnmálasamskiptum við þessi ríki? Hv. þm. verður að vera samkvæmur sjálfum sér. Það er ekki hægt að segja eitt og meina annað.
    Þau ríki ein geta gert samninga, eins og stefnir að með samningnum um EES, sem eru sjálfstæð og fullvalda og það þarf enginn að halda því fram að þau ríki sem gerast aðilar að EES né heldur þau ríki sem nú eru aðilar að EB séu ekki fullvalda. Hvaða viðurkenningu hefur hv. þm. fyrir því að í heiminum sé ekki lengur litið á ríkin í EB sem fullvalda og sjálfstæð ríki? Hverjir eru það sem ekki gera það? Vill hann nefna mér eitt land sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkin í Evrópubandalaginu séu hvorki sjálfstæð né fullvalda lengur? Og vill hann nefna mér eitt land sem mun líta svo á að ef Ísland samþykkir samninginn um EES þá sé Ísland þar með ekki lengur fullvalda og sjálfstætt ríki? Og ég spyr hann sjálfan, það er gott að það liggi hér fyrir: Verði frumvarpið um staðfestingu á EES-samkomulaginu samþykkt á Alþingi lítur hann þá sjálfur svo á að hann sé ekki lengur þingmaður í fullvalda og sjálfstæðu ríki? Mun hann eftirleiðis kynna Ísland á erlendum vettvangi sem ríki sem hvorki er fullvalda né sjálfstætt og hegða

sér í samræmi við það?
    Ég neitaði því ekki, virðulegi forseti, að með þessum samningi værum við að opna íslenskan vinnumarkað. Ég vakti athygli á því að við værum að stefna til jafnræðis. Við værum með sama hætti að opna vinnumarkað í Evrópubandalagsríkjunum og EES-svæðinu öllu fyrir Íslendingum í atvinnuleit og meginreglan í því sambandi væri jafnræðisreglan, þ.e. að allir væru jafnir fyrir lögunum. Ég hélt að hv. þm. væri stuðningsmaður þeirrar jafnræðisreglu bæði innan lands og í samskiptum þjóða.
    Ég svaraði spurningu hv. þm. áðan og það sýnir að nokkru leyti þá aðferð sem hann notar í málflutningi sínum. Hann hafði nokkur orð um það í fyrri ræðu sinni hvernig heilbr.- og trmrh. ætlaði að fara að því að meta starfshæfi hvers og eins í heilbrigðisstéttum sem kynnu að sækja um starfsréttindi á Íslandi. Það yrði heldur en ekki umleikis hjá heilbr.- og trmrn. þegar fara þyrfti að meta það. Ég svaraði hv. þm. og upplýsti hann um að það væri nú ekki mikið verk vegna þess að fyrir lægju, og hefðu legið fyrir um nokkra hríð, reglur Evrópubandalagsins um lágmarkskröfur sem gerðar eru til starfsviðurkenninga þessara stétta í þeim ríkjum sem farið yrði eftir. Hv. þm. greip þá frásögn á lofti og sagði: Í þessum reglum eru lækkaðir staðlar um kröfur til heilbrigðisstéttanna frá því sem Íslendingar gera ráð fyrir.
    Í fyrri ræðu hv. þm. kom í ljós að hann vissi ekki að þessar reglur væru til. Ég upplýsti hann um að þær væru til og þá kom hann upp í ræðustól og þóttist vita allt um það hvað stæði í þeim reglum sem hann fimm mínútum áður hafði ekki haft hugmynd um að væru til. Hv. þm. er fljótur að afla sér heimildanna. Þetta segir okkur bara sömu söguna, að hann gangi út frá því sem gefnu að allt það sem tengist Evrópska efnahagssvæðinu hljóti að vera vont og miklu verra en það er á Íslandi a.m.k. Þess vegna vissi hann strax og gat fullyrt í ræðustól allt um inntak reglna EES um lágmarkskröfur til heilbrigðisstétta sem hann örfáum mínútum áður vissi ekki einu sinni að væru til.
    Um spurningu hans um lyfin er það að segja að honum hlýtur að vera það kunnugt og einhvern tíma hlýtur hann að hafa séð tímarit læknasamtakanna, Læknaritið. Hann hlýtur að hafa veitt því athygli að þar, í fagtímariti heilbrigðisstétta, eru auglýst lyf og lækningatæki sem ekki er heimilt að auglýsa eða kynna í almennum auglýsingum á almennum markaði. Þetta er sú regla sem gildir í löggjöfinni. Það er heimilt að kynna fyrir læknum og heilbrigðisstéttum bæði lyf og lækningatæki með þeim hætti að tryggt sé að það beri ekki fyrir augu almennings. Það er og hefur verið gert með auglýsingum í fagtímaritum þessara stétta og það hefur verið gert t.d. með kynningafundum sem fulltrúum þessara stétta hefur verið boðið á með bréfum og kynningabæklingum sem sendir hafa verið til þeirra o.s.frv. Það er ekki hugmyndin að gera neinar breytingar á þessu, virðulegi forseti, þannig að allt það sem hv. þm. hefur sagt um þetta efni er út í hött vegna þess að þetta er í gildi núna. Við erum ekki að búa til neitt nýtt sem ekki hefur áður verið til í þeim efnum.
    Það er ýmislegt þarflegt sem gerist í sambandi við lyfjainnflutninginn með aðild Íslands að EES og einna þarflegast er nú það að einkaumboðsmannakerfið sem við höfum búið við í lyfjainnflutningi um langt árabil fellur út. Með því öðlumst við möguleika á að kaupa lyfin án milligöngu íslenskra einkaumboðsmanna á þeim stöðum og lyfjamörkuðum erlendis sem við sjálfir kjósum að skipta við. Þetta hafa t.d. sjúkrahús í Danmörku notfært sér til þess að fá fram lækkun á sama lyfinu með því að kaupa það inn öðruvísi en í gegnum einkaumboðsmannskerfið sem áður fyrr var við lýði og þau hafa fengið lækkanir á lyfjakaupum með þeim hætti um allt að milli 30--40%. Lyfin eru ekki á neinu föstu verði á heimsmarkaðnum, þau eru á miklu hærra verði á hinum norræna lyfjamarkaði en t.d. á lyfjamörkuðum um mið- og sunnanverða Evrópu, sömu lyfin í sömu umbúðum frá sömu framleiðendunum. Núna eigum við ekkert val um þetta. Á Íslandi búum við við einkaumboðsmannakerfi í lyfjamálum þannig að við getum ekki keypt lyf frá öðrum en þeim sem er einkaumboðsmaður lyfjaframleiðandans hér á landi. Samkeppni í þessu sambandi er lítil sem engin. Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu fellur þetta einkaumboðsmannakerfi niður og okkur gefst kostur á að kaupa lyf þar sem hagkvæmast er að kaupa þau þannig að þau verði ódýrust og komi að sem mestu gagni fyrir þjóðina. Þar er nú til nokkurs unnið.
    Í lok ræðu sinnar dró hv. þm. upp fíkniefnaumræðuna og enn er notuð sama aðferðin. Enn er reynt að segja við Íslendinga: Tengist ekki öðrum Evrópuríkjum í efnahagslegri og félagslegri samvinnu vegna þess að það er svo mikil hætta á fíkniefnaneyslu og dópinnflutningi. Virðulegi forseti, hafa menn gert sér grein fyrir því hvaða mynd hv. þm. og aðrir á svipaðri skoðun eru að draga upp fyrir okkur af næstu nágrönnum okkar, Evrópu, sem frá fornu fari hefur verið menningarmiðstöð heimsins, af fólki sem er ekki síður vel af guði gert og vel menntað en við Íslendingar? Hver er myndin sem verið er að draga upp þegar Íslendingar eru hræddir á því að koma nálægt þessu fólki? Jú, það eru skottulæknar, dópsalar, eiturspúandi mengunardrekar, gírugir auðfurstar, iðjuleysingjar, tryggingasvikarar, gróðapungar, andfélagslegir sósíópatar og sósíaldemókratar. Þetta er lýsing hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar af hinu evrópska umhverfi okkar Íslendinga. Þetta er lýsing hans á fólkinu, sem byggir Frakkland, Bretland, Danmörku, Holland, Belgíu, Þýskaland o.s.frv. Svona sér hann Evrópu fyrir sér og ef hann trúir þessu er ósköp eðlilegt að hann sé hræddur. Ég er bara alveg steinhissa á því, virðulegi forseti, að hv. þm. skuli nokkurn tíma hætta sér út fyrir landsteinana og geri hann það mikið skelfing hlýtur hann að vera hræddur og skelkaður þangað til hann sleppur inn fyrir landsteinana aftur.