Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 17:20:01 (671)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Ég skal fúslega veita hv. þm. prívatsvar fyrst hv. þm. biður um það. Þarna er um það að ræða annars vegar að verið er að setja íslenskukunnáttu sem skilyrði fyrir veitingu starfsréttinda. Hins vegar er um það að ræða hvort hægt sé að setja íslenskukunnáttu sem skilyrði fyrir ráðningu í starf. Í gildandi lögum er ákvæði um að íslenskukunnátta skuli mælast og metast áður en starfsréttindi eru veitt. Eina breytingin, sem gerð er í þessu frumvarpi, er sú að þetta skilyrði er fellt út hvað varðar borgara í EES-löndum en því haldið gagnvart borgurum utan EES. Þannig að alveg er ljóst að íslenskukunnátta verður ekki lengur, verði þetta samþykkt, gerð að skilyrði fyrir veitingu starfsréttinda heilbrigðisstétta hér á Íslandi komi viðkomandi frá EES-svæði.
    Hins vegar er hægt að gera þá kröfu við starfsráðningu að þó að viðkomandi hafi full starfsréttindi hér á Íslandi þá sé skilyrði fyrir því að hann sé ráðinn til starfs að hann hafi vald á íslensku máli. Þetta kom mjög glögglega fram í máli mínu. Mér finnst leitt ef ég hef ekki getað gert mig skiljanlegan. Ég vona að mér hafi tekist það núna en að sjálfsögðu skal ég senda hv. þm. þetta skriflega ef það auðveldar málið.
    Hins vegar beindi hún spurningu til mín sem ég gleymdi að svara. Hún spurði hvort það væri rétt að ég hefði sagt að Evrópubandalagið hefði hér tögl og hagldir. Það er ekki rétt. Það hef ég ekki sagt.