Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 13:34:58 (679)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, og lögum nr. 97/1982, um vörugjald, með síðari breytingum.
    Frv. þessu, sem lagt er fram í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, er ætlað að tryggja að álagning gjalda á upprunavörur frá ríkjum EES verði í samræmi við ákvæði samningsins. Er hér

einkum átt við II. kafla samningsins um frjálsa vöruflutninga ásamt bókun 3 um framleiðsluvörur sem leggja má verðjöfnunargjald á.
    Samkvæmt samningnum eru tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, bannaðir á milli samningsaðila. Sambærileg ákvæði eru í stofnsamningi EFTA, Stokkhólmssamningnum, og fríverslunarsamningi Íslands og Evrópubandalagsins. Ísland hefur hingað til haft sérstaka undanþágu til að leggja á fjáröflunartolla á vörur frá þessum samningsaðilum sínum á meðan vörurnar eru ekki framleiddar hér á landi. Þessar undanþágur falla úr gildi með samningnum um EES.
    Aðalákvæði sem þetta varðar og snerta skatta er að finna í 10. gr. og 14. gr. EES-samningsins. Taka þau til vöruliða í 25.--97. kafla vörulýsinga og vörunúmeraskrár, þ.e. tollskrár, það er iðnaðarvara og einstakra annarra vöruliða, einkum vara úr landbúnaðarafurðum sem fjallað er um í bókunum 2 og 3 með samningnum og um gilda sérstakar reglur.
    Með leyfi forseta, þá hljóðar 10. gr. samningsins svo:
    ,,Tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðir milli samningsaðila. Með fyrirvara um það fyrirkomulag sem um getur í bókun 5 skal þetta einnig eiga við um fjáröflunartolla.``
    Í 14. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Einstökum samningsaðilum er óheimilt að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt innan lands á framleiðsluvörur annarra samningsaðila umfram það sem beint eða óbeint er lagt á sams konar innlendar framleiðsluvörur.
    Samningsaðila er einnig óheimilt að leggja á framleiðsluvörur annarra samningsaðila innlendan skatt sem er til þess fallinn að vernda óbeint aðrar framleiðsluvörur.``
    Eins og greinar þessar bera með sér leggur samningurinn þær kvaðir á samningsaðila að leggja ekki á tolla eða skatta sem brjóta gegn því grundvallarmarkmiði að koma á frjálsum vöruflutningum.
    Að öðru leyti mælir hann ekki fyrir um skattlagningarreglur og er það í samræmi við það að innan Evrópubandalagsins og að sjálfsögðu einnig innan EFTA er skattlagning að fullu í höndum hvers og eins aðildarríkis og verður henni ekki breytt með sameiginlegum ákvörðunum.
    Hvað tolla og skatta varðar er meginatriði tilvitnaðra greina að jafnræði ríki milli samkeppnisaðila og að ekki skipti máli við gjaldtöku frá hvaða landi varan kemur. Það þýðir að Ísland þarf að leggja niður innflutningstolla og önnur gjöld sem leggjast á innflutning sérstaklega.
    Samningurinn hindrar það ekki að í stað tolla og innflutningsgjalda verða tekin upp gjöld sem leggjast jafnt á innflutning og innlenda framleiðslu. Slík gjöld eru kölluð vörugjöld og hafa þegar verið tekin upp á fjölmarga vöruliði sem ekki er heimilt að leggja toll á við innflutning frá EFTA- og EB-löndunum séu vörur þessar einnig framleiddar hér á landi.
    Í frv. er að finna breytingar á tollalögum til að uppfylla ákvæði samningsins um niðurfellingu tolla og ákvæði um vörugjöld á almennar iðnaðarvörur. Í sérstöku frv. sem lagt er fram samhliða þessu eru tillögur um vörugjöld á ökutæki og eldsneyti. Frumvörpin miðast við að tekjur ríkissjóðs af tollum og vörugjöldum séu að mestu óbreyttar og að verðhlutföll milli vörutegunda raskist sem minnst.
    Þeir vöruflokkar sem frv. tekur til eru iðnaðarvörur í köflum 25--97 í tollskrá sem í dag bera fjáröflunartolla. Sérstök heimildarákvæði eru í frv. til álagningar verðjöfnunargjalda á framleiðsluvörur úr landbúnaðarhráefnum auk þess sem tollar verða felldir niður af tilteknum suðrænum landbúnaðarvörum í samræmi við tvíhliða samning Íslands og EB um landbúnaðarmál en tollur af öðrum vörum sem samningurinn tekur til hefur þegar verið felldur niður.
    Á árinu 1991 voru vörur þessar fluttar inn fyrir tæplega 3,9 milljarða kr. Þar af komu vörur fyrir rúmlega 2 milljarða eða um 54% innflutningsins frá löndum innan EES. Tollar af framangreindum iðnaðarvörum eru á bilinu 10--30% og á sumum þeirra er enn fremur 9% vörugjald. Tekjur af vörugjaldi og tollum á þessar vörur voru á árinu 1991 um 1.050 millj. kr.
    Gert er ráð fyrir að lækkun tolla á iðnaðarvörur verði mætt með viðbót við gildandi vörugjaldskerfi. Vörugjald er nú lagt á í tveimur gjaldflokkum, 9% og 25%, jafnt á innlendar framleiðsluvörur sem innfluttar. Gjaldstofn innlendu framleiðslunnar er heildsöluverð vörunnar en stofn innfluttrar vöru er tollverð, eða svokallað cif-verð, að viðbættum tollum og 25% álagi sem er áætluð heildsöluálagning. Á árinu 1991 námu tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi 2.405 millj. kr. Þar af voru gjöld af innflutningi um 1.380 millj. kr. en rúmlega 1 milljarður kr. af innlendri framleiðslu, aðallega af sælgæti, gosdrykkjum og matvælum, sem samningurinn nú tekur ekki til.
    Eins og fram hefur komið felur EES-samningurinn í sér þá kvöð að fella niður tolla af vörum sem koma frá löndum innan svæðisins. Það er hins vegar ákvörðunarefni íslenskra stjórnvalda hvort eða að hvaða marki tollum á vörur, sem koma frá ríkjum utan svæðisins, svokölluðum ytri tollum, verður viðhaldið.
    Helstu rökin fyrir því að viðhalda ytri tollum eru þau að í þeim felst nokkur fjáröflun fyrir ríkissjóð, vernd fyrir innlenda framleiðslu og að þeir veiti hugsanlega betri aðstöðu í samningum við ríki utan

fríverslunarsvæðis ríkjanna sem taka þátt í Evrópska efnahagssvæðinu.
    Fjáröflun með ytri tollum af þeim vörum sem frv. tekur til verður takmörkuð vegna þess að innflutningur á þeim frá löndum utan EES er tiltölulega lítill eða rúmlega 1,8 milljarður kr. Hvert prósentustig ytri tolls gefur því um 18 millj. kr. í tekjur eða minna ef tollurinn leiðir til þess að viðskipti færast frá löndum utan EES til landa innan svæðisins.
    Þar sem þær vörur, sem frv. snertir, eru nær eingöngu fluttar inn en ekki framleiddar hér á landi eru verndunaráhrif ytri tolla óveruleg.
    Á móti háum ytri tollum mælir það fyrst og fremst að þeir leiða eðli sínu samkvæmt til óhagkvæmni með því að beina viðskiptum til landa þar sem þau eru óhagkvæmari og leiðir það til hærra vöruverðs fyrir neytendur og minni tekna fyrir ríkissjóð. Er því æskilegt að takmarka notkun þeirra.
    Í núgildandi tollalögum er heimild til að færa ytri tolla niður í 10% á þær vörur sem fríverslunarsamningar taka til og er algengast að sú heimild hafi verið notuð. Ytri tollar Evrópubandalagsins á þær vörur sem frv. tekur til eru yfirleitt á bilinu 3--9% eða allmiklu lægri en tollar hér á landi.
    Með hliðsjón af framangreindu er í frv. gert ráð fyrir að heimilt verði að lækka ytri tolla á fullunnar iðnaðarvörur frá löndum utan fríverslunarsvæða nokkuð meira en verið hefur eða niður í 7,5% í stað 10% nú. Er ákvörðun vörugjalda og tekjuáætlun miðuð við það.
    Samkvæmt frv. er lagt til að gjaldflokkar vörugjalds verði sex í stað tveggja nú og verði þeir frá 6% til 30%. Vegna þess að vörugjald leggst á tollverð að viðbættu 25% álagi, svara þessir vörugjaldsflokkar til 7,5--37,5% tolla.
    Í tillögum þessum felst og að leggja þarf vörugjald á nokkrar nýjar tegundir innlendrar framleiðslu til þess að uppfylla kröfur um sömu álagningu á innlendar og innfluttar vörur. Þar ber helst að nefna hjólbarðasólningu og framleiðslu tengivagna. Þá mun vörugjald á framleiðslu bílavarahluta og yfirbyggingar bifreiða hækka. Á móti vegur að tollur af aðföngum til þessarar framleiðslu kann að lækka í einhverjum tilvikum, m.a. á notuðum hjólbörðum, komi þau frá löndum innan EES-svæðisins.
    Áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs eru í megindráttum þau að tolltekjur af þeim vörum sem breytingarnar taka til lækka úr um 735 millj. kr. í 137 millj. kr., eða nálægt 600 millj. kr. Tekjur af vörugjaldi hækka um 590 millj. kr. Tekjur ríkissjóðs af innflutningi verða um 20 millj. kr. lægri eftir breytinguna en þær voru áður en tekjur af innlendri framleiðslu jafna þann mun að mestu. Tekjulækkun af innflutningi er að nokkrum hluta til komin vegna samræmingar og annarra breytinga sem nauðsynlegar þykja en ekki tengjast samningnum. Má t.d. nefna lækkun gjalda af krönum og fleira, svo og niðurfellingu tolla, annarra en ytri tolla af hljóðkútum, án þess að taka upp vörugjald í staðinn. Að teknu tilliti til slíkra breytinga eru tekjubreytingar af innflutningi óverulegar.
    Á heildina litið eru verðlagsáhrif þessara breytinga talin hverfandi. Samkvæmt tillögunni má því reikna með að um 3,5% verðlækkun verði að jafnaði á vörum frá EES-svæðinu en um 4,5% verðhækkun á iðnaðarvörum sem fluttar eru inn annars staðar frá, samanber töflu sem fylgir með athugasemdum við frumvarpið. Að jafnaði er gert ráð fyrir 0,4% lækkun á verði innfluttrar vöru. Áhrif á verð einstakra vörutegunda getur vikið nokkuð frá þessum meðaltölum vegna þeirrar samræmingar á gjaldtöku sem áður er minnst á.
    Tollar og vörugjöld á þær vörur sem frv. snertir voru að jafnaði um 27% af cif-verði þeirra. Var þetta hlutfall u.þ.b. hið sama fyrir vörur frá EES-löndunum og fyrir vörur frá öðrum löndum. Með þeim breytingum, sem frv. felur í sér, verða álögur þessar í heild um 0,5% lægri eða að jafnaði um 26,5%. Með tilliti til svæða breytast þær hins vegar verulega og verða að jafnaði um 22,8% á vörur frá EES-löndunum en að jafnaði um 32,6% á vörur frá öðrum löndum.
    Tilgangur samningsins er m.a. að koma á frjálsum vöruflutningum. Í því efni þarf ekki aðeins að huga að gjöldum sem geta verið til hindrunar og mismunað samningsaðilum eftir því hvar þeir eru búsettir. Tæknilegar viðskiptahindranir og hvernig staðið er að eftirliti með vöruflutningum skiptir einnig máli.
    Í bókun 10 með samningnum eru ákvæði um þær skuldbindingar sem samningsaðilar taka á sig til að einfalda eftirlit og formsatriði vegna vöruflutninga. Tilgangurinn er að auðvelda það og draga úr töfum og kostnaði þess vegna.
    Í bókun 11 með samningnum eru einnig allítarleg ákvæði um gagnkvæma aðstoð yfirvalda í tollamálum.
    Ljóst er að bókanir þessa kalla á endurskoðun á starfsháttum við tollgæslu og skipulag hennar. Kröfur um einfaldari og hraðvirkari afgreiðslu ásamt því að tekjur ríkissjóðs af tolli fara minnkandi gefa tilefni til að endurmeta verkefni tollkerfisins sem í vaxandi mæli er orðið að mikilvægum innheimtu- og eftirlitsaðila með virðisaukaskatti og vörugjöldum í stað þess að sinna fyrst og fremst tollheimtu eins og áður var.
    Í tollalögum eru nú ákvæði sem heimila ráðherra að setja reglur um greiðslufrest aðflutningsgjalda. Hefur heimildinni verið beitt við greiðslu virðisaukaskatts við innflutning hjá þeim aðilum sem eftir því hafa leitað og uppfylla ströng skilyrði um tryggingar og skilvísi. Undirbúningur pappírslausrar tollafgreiðslu er

nú á lokastigi. Reglugerð um hana tekur gildi á morgun. Samkvæmt henni verður að auki heimilt að veita greiðslufrest á öllum aðflutningsgjöldum. Vörugjöld eru á ýmsan hátt áþekk virðisaukaskatti og því gæti komið til álita að heimild til greiðslufrestunar taki einnig til þeirra. Veiting greiðslufrests hefur hins vegar í för með sér allmikla hliðrun á skilum á tekjum ríkissjóðs. Verður því að fara hægt í sakirnar og ef heimild þessi verður veitt þarf að dreifa áhrifum af henni t.d. á tvö eða þrjú ár.
    Virðulegi forseti. Ég tel að það sé óþarfi að skýra einstakar greinar frv. Ég vísa til athugasemda með frv. en í þeim athugasemdum er gerð allítarleg grein fyrir því sem finna má í einstökum greinum frv. Í almennu athugasemdunum eru einnig ýmsar upplýsingar sem skýra nákvæmlega hvaða breytingar verða þegar og ef þetta frv. verður samþykkt í tengslum við aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.