Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 13:49:59 (680)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fjalla um það frv. sem er til umfjöllunar og skal því ekki hafa mjög langt mál um það sem hæstv. fjmrh. sagði við 1. umr.
    Það er þó nauðsynlegt að spyrja ríkisstjórnina um það hver sé stefna hennar að því er varðar samræmingu á samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega og atvinnufyrirtækja á EES-svæðinu? Það hefur í reynd, hæstv. fjmrh., ekkert komið fram um það. Hér er um að ræða frv. þar sem er verið að fella niður fjáröflunartolla og taka upp vörugjald í staðinn. Það eina sem þar er fjallað um er að passa upp á það
að ríkissjóður fái nokkurn veginn sömu tekjur og hann hafði áður. Það er út af fyrir sig göfug stefna hjá fjmrh. á hverjum tíma að passa upp á slíka hluti. En það er líka til önnur hlið á því máli, hæstv. fjmrh. Hvaða áhrif hefur það á samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega? Það verður ekki séð á þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fyrir þingið að hún sé neitt farin að fjalla um það eða hafi almennt áhyggjur af því. Ríkisstjórnin virðist hafa miklar áhyggjur af fjárlagavandanum sem ég tel eðlilegt og skiljanlegt en skilningur ríkisstjórnarinnar á þörfum atvinnulífsins virðist vera afar lítill.
    Menn eru að hugsa upp leiðir til að skattleggja atvinnuvegi sem eru í vanda, t.d. sjávarútveginn. Menn láta sér helst detta í hug að lækka tekjuskatt við þessar aðstæður í stað þess að lækka kostnaðartengda skatta atvinnulífsins til að jafna samkeppnisstöðuna við erlenda aðila. Ríkisstjórnin virðist því ekki gera sér grein fyrir því að það efnahagsástand sem nú ríkir er vaxandi atvinnuleysi og minnkandi framleiðslustarfsemi og allar breytingar á sköttum geta því miður orðið til þess að draga úr framleiðslustarfseminni og auka atvinnuleysið.
    Þetta eru mínar almennu athugasemdir við þetta frv. og vil ég í því sambandi m.a. vitna til athugasemda Landssambands iðnaðarmanna og Félags ísl. iðnrekenda að því er varðar 1. gr. b í frv. þar sem heimild er til fjmrh. að endurgreiða tolla af hráefni, efnivörum og hlutum í innlendar framleiðsluvörur ef tollar á sams konar erlendri framleiðslu eru jafnháir eða lægri en af efnivörunum. En samtökin segja, með leyfi forseta, um þessa grein:
    ,,Samtökin telja orðalag þessarar greinar algjörlega óviðunandi. Það verður tæpast skilið öðruvísi en svo að heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu á gjöldum af aðföngum til innlendrar framleiðslu eigi einungis að ná til tolla en ekki til aðflutningsgjalda eins og verið hefur. Ekki verður því fellt niður eða endurgreitt vörugjald á aðföngum til innlendrar framleiðslu. Þar með væru fallin úr gildi núgildandi ákvæði um önnur aðflutningsgjöld en tolla í auglýsingu nr. 617/1989, um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar. Þetta telja samtökin með öllu ótækt og lýsa undrun sinni á þeirri tillögu sem í frv. felst. Auk þess telja samtökin tímabært, m.a. í ljósi þess að EES-samningar fela í sér fríverslun í þjónustuviðskiptum, að heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af aðföngum til innlends iðnaðar verði útvíkkuð þannig að hún sé ekki bundin við vöruframleiðslu heldur nái einnig til viðgerðarstarfsemi sem er í beinni erlendri samkeppni og varðar viðgerðir á atvinnutækjum. Helstu dæmin um slíkt eru skipaviðgerðir og flugvélaviðgerðir en í báðum tilvikum á kaupandi þjónustunnar raunhæft val um það hvort hann skiptir við innlendan eða erlendan aðila.`` --- Síðan er ákveðin tillaga um orðalag og tekið fram í þessari greinargerð eftirfarandi: ,,Tekið skal fram að samtökin leggjast gegn samþykkt frv. ef ekki verður gerð breyting á orðalagi þessarar greinar.``
    Það má segja að sú skoðun sem þarna kemur fram sé mjög eðlileg vegna þess að það er þýðingarlaust að gerast aðili að Evrópsku efnahagssvæði með jákvæðum árangri nema jafna samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega við þá atvinnuvegi sem við eigum að fara að keppa við í vaxandi mæli hvort sem um er að ræða þjónustuviðskipti eða framleiðslustarfsemi. Og það má því segja að í þessu frv. sé nánast ekkert um það talað. Ætlast hæstv. fjmrh. til þess að þessi frv. verði afgreidd á færibandi án þess að komi einhver greinargerð frá ríkisstjórninni um jöfnun á samkeppnisstöðu atvinnuveganna? Það veit hæstv. fjmrh. að ekki er boðlegt, hvorki gagnvart atvinnuvegunum og allra síst gagnvart Alþingi. Og við sem störfum í efh.- og viðskn. hljótum því að fara sérstaklega ofan í þennan þátt.
    Ég ætla ekki að gerast dómari um hvort rétt sé að afla ríkissjóði tekna með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég vil þó benda á ýmsar athugasemdir sem koma fram, t.d. þá staðreynd að lögð eru mun hærri

gjöld á stærri bíla en þá minni sem eru gild rök fyrir. Hins vegar kemur fram í umsögnum að þetta verður til þess að fleira fólk ekur á litlum bílum og slys eru þess vegna oft og tíðum alvarlegri en annars hefði orðið. Það er ekkert auðvelt að finna millileið og ég ætla ekki að segja til um það hvað er rétt í þeim efnum en við hljótum að taka það mál til athugunar.
    Það er líka rétt að benda á þær athugasemdir sem hafa komið frá Verslunarráði Íslands þar sem bent er á þá staðreynd að það er lagt til að hækka gjöld á ýmsum vörum sem eru viðkvæmar í samkeppni við verslun ferðamanna. Verslun hefur verið að færast erlendis í allt of miklum mæli og má í því sambandi nefna að nú eru beinlínis auglýstar sérstakar verslunarferðir til nærliggjandi landa til að Íslendingar geti notið þess vöruverðs sem þar er. Menn eiga ekki að líta á það sem sjálfsagðan hlut að samkeppnisskilyrði íslenskrar verslunar séu mun verri en samkeppnisstaða verslunar í nálægum löndum. Og það hlýtur að þurfa að taka mið af þessu við samningu á frv. sem því sem hér er til umfjöllunar. Það er því alveg ljóst að ýmsar vörur sem áður voru lítt keyptar hér á landi, en verslun hefur aukist með á síðustu árum, munu í enn ríkari mæli verða keyptar af ferðamönnum erlendis og íslensk verslun á ýmsum slíkum tækjum minnka eða jafnvel falla niður. Því auðvitað er ekki hægt að halda uppi slíkri verslun nema veltan sé einhver. Þetta eru atriði sem hljóta að koma til umfjöllunar í sambandi við meðferð þessa máls.
    Ég vil þó fyrst og fremst leggja áherslu á að hæstv. fjmrh. geri betri grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin hyggst bæta samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega, íslenskrar framleiðslustarfsemi og íslenskrar þjónustustarfsemi til að fyrirtækin geti tekist á við þá vaxandi samkeppni sem verður með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins. Ríkisstjórnin hefur því miður litla grein gert fyrir því og virðist vera þeirrar skoðunar að það sé nóg að ganga í EES og þá muni allt saman leysast af sjálfu sér. En það er mikill misskilningur. Það er ekki hægt að bjóða íslenskum atvinnuvegum upp á það að við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði nema samkeppnisstaðan verði jöfnuð. Það þýðir að lækka þarf ýmis kostnaðartengd gjöld. Það þýðir að leggja verður niður aðstöðugjaldið svo eitthvað sé nefnt og ýmsir tollar verða að vera sambærilegir við það sem gengur og gerist í kringum okkur.
    Ég geri mér grein fyrir því að það mun þýða tekjuminnkun hjá ríkissjóði og sveitarfélögum. Ríkissjóður og sveitarfélögin verða annaðhvort að mæta því með því að draga saman útgjöld eða að taka upp skatta sem eru hlutlausir gagnvart samkeppnisstöðu atvinnuveganna. Ef menn leggja á skatta sem eru þyngri en gengur og gerist í samkeppnislöndunum þýðir það einfaldlega að íslensk framleiðslu- og þjónustustarfsemi verður undir og sú atvinna sem rekin er hér á Íslandi mun flytjast til erlendra aðila. Það getur ekki verið keppikefli okkar Íslendinga. Það hlýtur að vera keppikefli okkar að auka hér atvinnu ekki síst þegar margir ganga nú um án atvinnu og án tekna og eiga sér ekki bjarta framtíð.
    Frumvarpsflutningur sem þessi er ekki til þess fallinn að auka tiltrú á framtíðinni og möguleikum íslenskra atvinnuvega. Því miður virðist það vera sá tónn sem kemur frá hv. ríkisstjórn. En við hljótum að spyrja hvort fjmrh. er með það í undirbúningi að skipta um tón og skipta um gír nú á haustmánuðum þannig að menn fái einhverja trú á því að við getum unnið okkur út úr þeirri kreppu sem við nú stöndum frammi fyrir.