Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 14:59:18 (688)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Heildarmyndin af málinu er smám saman að koma í ljós. Ég ítreka það sem ég sagði áður, að í allri kynningu utanrrn. hefur því verið haldið fram að þetta hefði ekkert með viðskipti okkar við lönd utan Evrópska efnahagssvæðisins að gera. Þetta er í stíl við það hvernig kynningin hefur farið fram. Hún fer fram í formi hástemmdra lýsingarorða sem eru öll til lofs. En fólki er ekki sagt frá kostum og göllum og hvað þetta muni í raun og veru þýða fyrr en það fer að koma fram í fylgifrumvörpunum. Þar kemur það fram svart á hvítu að innfluttar iðnaðarvörur frá hinu Evrópska efnahagssvæði lækka um 3,5% á meðan þær hækka um 4,6% frá svæðunum fyrir utan. Það er verið að hækka ytri tolla.