Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:08:40 (695)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er margoft búinn að segja að sú breyting sem hér á sér stað er nánast engin í þessu tilviki. Það er verið að lækka heimild stjórnvalda til þess að leggja á tolla úr 10% í 7,5%. ( Gripið fram í: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er enginn útúrsnúningur. Það er auðvitað spurning um hve mikið átti að lækka. Átti að fara niður í 9% eða 3--4% eða hvað við áttum að gera? Þetta verða menn bara að líta á. Þetta er auðvitað aðalatriði málsins og um það snýst þetta mál. Það er ekkert nýrra í því en það.
    Vegna orða þingmannsins um draumsýn hinnar dásamlegu frjálshyggju vil ég einungis segja að ég vil gjarnan að hv. þm. fái tækifæri til að njóta þessarar dásemdar í raun. Það gerist ef við stuðlum að frjálsari verslun því það mun byggja upp hagvöxtinn og bæta hag okkar allra, karla sem kvenna.