Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:20:36 (698)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég taldi það ekki vera sérstakt lof um sjálfan mig þó að sumt hefði gengið vel í efnahagsmálunum hérna, en ég heyri að ágætur hv. þm. telur að það sé fyrst og fremst lof um mig og ég þakka honum að sjálfsögðu fyrir það álit sem hann hefur á mér.
    Ég vil enn fremur segja honum að mér líður takk fyrir bærilega þessa dagana. Hann þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Það eina sem ég var að reyna að koma til skila var að heppilegra væri fyrir okkur að taka umræðu eins og þá sem hv. þm. bíður mjög spenntur eftir þegar stefnuræða forsrh. verður flutt, þegar við tölum um fjárlagafrv. og ég hygg að það sé eðlilegra að slík umræða, sem hann er að biðja um, fari fram við þau skilyrði.
    Ég minni einnig á að við höfum verið hér frá 17. ágúst eða í fjórar vikur og ég hygg að þessi mál hafi talsvert borið á góma í þeim umræðum sem hafa farið fram allan þann tíma. Þetta var það eina sem mér gekk til og síst af öllu vil ég koma í veg fyrir að umræður af þessu tagi verði og ég tel að þær hljóti að verða eðli máls samkvæmt í upphafi næsta mánaðar.