Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:25:04 (701)



     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er merkilegt að þegar ég er að biðja um svör og efnislegar umræður um stefnu ríkisstjórnarinnar að því er varðar samkeppnisskilyrði atvinnuveganna þá kallar hæstv. fjmrh. það eldhúsdagsumræður, það sé ekki tímabært að fara í einhverjar eldhúsdagsumræður. Og að þessi mál hafi verið rædd áður á Alþingi. Ég veit að þau hafa verið rædd. Ég fer fram á það að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir þessu máli. Ég geri mér grein fyrir því að hann er ekki tilbúinn til þess nú, en ég endurtek það, fyrst hann er ekki tilbúinn til þess nú þá geri hann skilmerkilega grein fyrir því meðan á störfum nefndarinnar stendur í þessum mikilvægu málum og ég lít svo á að hæstv. fjmrh. sé jákvæður að því er það varðar og ég mun ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál geti gengið áfram til vinnu í nefndum.