Vörugjald af ökutækjum

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:26:37 (702)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér framsöguræðu um frv. til laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Frv. er á þskj. 28 og er 27. mál þingsins.
    Frv. er flutt í tilefni af samningi um Evrópska efnahagssvæðið sem lagður hefur verið fyrir Alþingi. Í öðrum hluta samningsins er fjallað um frjálsa vöruflutninga innan EES. Hann felur í sér að aðildarþjóðir samningsins skuldbinda sig til að afnema tæknilegar hindranir innan svæðisins á þær vörur sem samningurinn tekur til og að sköttum verði ekki beitt með þeim hætti að þeir hindri frjálst vöruflæði. Í framsögu fyrir næsta máli hér á undan gerði ég grein fyrir almennum atriðum í þessu efni og vísa ég til þess hér við 1. umr. þessa máls.
    Í frv. sem hér er til umræðu er eingöngu fjallað um gjaldtöku af ökutækjum og tengdum vörum og eldsneyti. Í öðru frv. sem lagt er fram samhliða og þegar hefur verið mælt fyrir er hins vegar fjallað um gjaldtöku af öðrum iðnaðarvörum.
    Samkvæmt gildandi lögum er lagður 10% tollur á flestar bifreiðar aðrar en atvinnubifreiðar sem bera yfirleitt 30% tolla. Á fólksbifreiðar er hins vegar einnig lagt sérstakt innflutningsgjald sem tekur mið af þyngd bifreiðar og vélarstærð og er 16--77%. Hvað varðar eldsneyti er einungis lagður tollur á bensín. Hann er 50% en á bensín er einnig lagt sérstakt innflutningsgjald samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar.
    Í frv. er í fyrsta lagi miðað við að gjaldtaka af þeim vörum sem það tekur til verði óbreytt bæði í heild og gagnvart einstökum vörum. Í öðru lagi að ekki verði gerður mismunur á gjaldtöku eftir því hvort

varan er flutt inn frá EES-löndunum eða annars staðar frá. Í þriðja lagi að ekki verði breytt þeim tekjum af bensíni sem fara til vegagerðar.
    Í samræmi við þessi markmið er í frv. gengið út frá því að felldir verði niður allir tollar af þeim vörum sem það tekur til, þ.e. ökutækjum og bensíni. Ákvæði þess efnis er í því frv. sem áður var getið og fjallar m.a. um allar breytingar sem gera þarf á tollalögum. Þá felur frv. í sér að núverandi bifreiðatollur og sérstakt aðflutningsgjald á bifreiðar verður sameinað í vörugjald á bifreiðar. Hvað eldsneyti varðar er lagt til að í stað tolls á bensín komi jafnhátt vörugjald og í stað hins sérstaka innflutningsgjalds á bensín komi sérstakt vörugjald, bensíngjald, sem eftir sem áður verði hluti af fjáröflun til vegagerðar.
    Við undirbúning að lögfestingu ákvæða varðandi þá vöru sem frv. þetta fjallar um kom til álita að fella gjaldtökuákvæði inn í núgildandi lög um vörugjald. Frá því var þó horfið og ákveðið að flytja sérstakt frv. til laga um vörugjald á ökutæki og eldsneyti. Ástæðurnar eru nokkrar.
    Í fyrsta lagi er hér um að ræða stóra og sértæka vöruflokka sem um margt eru frábrugðnir almennri iðnaðarvöru.
    Í öðru lagi eru gjaldflokkar núgildandi vörugjaldslaga miðaðir við tiltekin tollnúmer, en hvað bifreiðar varðar er nauðsynlegt að miða gjaldtöku við aðra flokkun eins og gert er í þessu frv.
    Í þriðja lagi falla vörur þessar illa að þeirri skilgreiningu gjaldstofns sem notuð er í vörugjaldslögum, þ.e. heildsöluverði, sem er áætlað hvað innflutning varðar.
    Í fjórða lagi kalla vörur þessar, einkum bifreiðar, á ýmis sértæk framkvæmdaákvæði, einkum hvað snertir gjöld af bifreiðum.
    Þess vegna varð það að ráði að flytja sérstakt frv. til laga um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti. Auk ýmissa framkvæmdaákvæða og flokkunarreglna er það frábrugðið almennu vörugjaldslögunum í því að gjaldstofn innfluttrar vöru er innflutningsverð hennar, en gjaldstofn innlendrar vöru er framleiðslu- eða verksmiðjuverð hennar. Í almennu vörugjaldslögunum er gjaldstofn innfluttrar vöru tollverð hennar að viðbættum tolli og áætluðu 25% heildsöluálagi. Gjaldstofn innlendrar vöru samkvæmt þeim lögum er heildsöluverð hennar.
    Ég tel ekki ástæðu til að rekja breytingar sem fólgnar eru í einstökum greinum en vísa til greinargerðar með frv. Þær eru flestar í efnislegu samræmi við núgildandi ákvæði í reglugerð um sérstakt aðflutningsgjald á bifreiðar, lögin um sérstakt aðflutningsgjald á bifreiðar, um fjáröflun til vegagerðar og reglugerð um bensíngjald svo og almenn ákvæði vörugjaldslaga.
    Virðulegur forseti. Það er þó eitt atriði eða tvö sem ég tel ástæðu til að nefna sérstaklega hvað varðar 3. gr. frv. Í sambandi við grein þessa er rétt að það komi fram að núverandi flokkunarkerfi hefur sætt verulegri gagnrýni bæði þess efnis að framleiðendum og innflytjendum sé mismunað með því að stærð slagrýmis aflvélar sé ónákvæmur mælikvarði á vélarafl og eyðslu og einnig frá því sjónarmiði að flokkun eftir þyngd sé vafasöm með tilliti til öryggisbúnaðar. Þessi atriði eru í athugun og verður hv. þingnefnd, sem málið fær til athugunar, greint frá niðurstöðum í því efni.
    Þá vil ég einnig að það komi fram að í athugun eru hjá ráðuneytinu hugsanlegar brtt. á frv. varðandi bifreiðar sem eru með sérbúnaði til flutnings á fötluðum. Það síðasta vil ég að komi fram vegna þess að í vissum tilvikum kann það að vera að fatlaðir eigi betur með að stýra og stjórna bifreið sem er flokkuð sem atvinnubifreið og ber þess vegna hærri gjöld og til þess þarf að taka tillt og hugsanlega þarf að breyta lögum til þess að hægt sé að framkvæma það með viðeigandi hætti. En um þetta eru dæmi, þar á meðal nýleg dæmi.
    Varðandi slagrýmið og þyngdina má kannski skýra það helst með því að segja að það er einkum í Bandaríkjunum sem vélar bifreiða eru með þeim hætti að slagrýmið er stærra, afgasstigið annað án þess þó að slíkar vélar séu eyðslufrekari og verri vegna mengunar en þær vélar sem eru framleiddar til að mynda í Evrópu og Japan sem hafa minna slagrými en kannski ámóta kraft. Ég vildi ég láta þetta koma fram vegna þess að því hefur verið haldið fram að þessar reglur mismuni bifreiðum eftir framleiðslulöndunum og ég vil ekki útiloka að slík mismunun sé óeðlileg þegar þetta mál er grannt skoðað.
    Ég vildi, virðulegi forseti, að þetta kæmi fram við þessa umræðu því að ég tel að á meðan verið er að skoða málið í nefnd, fjalla um það og afgreiða, þurfi að taka tillit til þessara atriða sérstaklega.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, hef ég skýrt það út að gjöld á þessar vörutegundir eru nokkuð frábrugðin því sem almennt gerist með innlendar iðnaðarvörur og skýrir það tvennt. Það er í fyrsta lagi hvers vegna þessar vörur eru í sérstökum lögum og eins hitt að ekki er ástæða til þess vegna þess hvernig vörurnar eru skattaðar að gera mun á því hvaðan þær koma því að mismunurinn byggist á öðrum sjónarmiðum eins og komið hefur fram, t.d. þyngd, slagrými og þessum þáttum þar sem munurinn er fyrst og fremst á milli landa eins og t.d. Bandaríkjanna annars vegar og Japan og Evrópu hins vegar.
    Ég tel, virðulegi forseti, ástæðulaust að fjalla frekar á þessu stigi málsins um frv. en vænti þess að það fái ítarlega umfjöllun í viðkomandi hv. nefnd sem er efh.- og viðskn. þingsins og geri tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr. og þeirrar hv. nefndar.