Vörugjald af ökutækjum

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:36:26 (703)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh., er ýmislegt í þessu frv. sem þarf að athuga og þá ekki síst þá flokkun á ökutækjum sem fram kemur í 3. gr. Það eiga sér auðvitað stað miklar framfarir í bílaiðnaði eins og annars staðar og það varðar bæði þá þróun að gera bílana umhverfisvænni og reyna að sjá til þess að draga úr mengun og eins hvað varðar öryggisútbúnað og þetta þarf auðvitað að taka inn í myndina við þessa flokkun.
    Sú spurning vaknaði hjá mér við lestur þessara tveggja frv., sem við höfum verið að ræða í dag, hvort ekki reynist nauðsynlegt í framhaldi af þessum miklu breytingum að skoða lögin í heild og samræma þau og gera skýrari. Þessi spurning vaknar kannski einkum hjá mér vegna þess að það kemur illa fram í þessu frv. hver innheimtuaðilinn er og hvernig farið verður með þetta gjald í kerfinu. Í 10. gr. er minnst á tollstjóra. ,,Tollstjóri getur krafist þess að gjaldskyldir aðilar leggi fram upplýsingar``, segir hér, með leyfi forseta. Síðan er í 17. gr. minnst á innheimtumann ríkissjóðs. Þá segir í 21. gr.:
    ,,Vörugjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skal innheimt við tollafgreiðslu.`` Af þessu má auðvitað vera ljóst að það eru tollyfirvöld sem eiga að sjá um þessa innheimtu. En mér er spurn hvort ekki væri ástæða til að annaðhvort kveða nánar á um það í lögunum hvernig innheimtu skuli háttað eða að skoða þessi lög í samræmi við aðra lagabálka um tolla og vörugjöld.
    Það eru ýmis atriði í þessu máli sem þarfnast skoðunar við og þá ekki síst varðandi leigubíla og hvernig þeir skulu flokkaðir. Leigubílstjórar hafa gert athugasemdir við þetta frv. og telja að taka þurfi meira tillit til þess að um atvinnubíla er að ræða. Eins er spurning varðandi rafbíla. Í 3. gr. kemur fram að ráðherra getur gefið undanþágur ef rafbílar eru fluttir inn eða framleiddir í tilraunaskyni. Nú er það svo að framleiðsla á rafbílum er að aukast og m.a. er verið að taka upp rafbíla sem flutningatæki í ýmsum borgum. Þeim fylgir nánast engin mengun og ég held að vissulega væri ástæða til þess að ýta undir notkun rafbíla við ýmis tækifæri og mér finnst að það mætti koma til skoðunar hvort ekki ætti að veita þeim svolitla tilhliðrun í þessum lögum og ýta undir notkun á þeim.
    Síðan vaknar sú spurning, sem aðeins kom inn í umræðuna um síðasta mál, hvers vegna ekki er gerður munur á þeim vörum, hvort sem það eru bílar og bensín og olíur, sem koma frá hinu Evrópska efnahagssvæði og annars staðar frá. Mér finnst hæstv. fjmrh. skulda okkur skýringu á því. Ég get svo sem ekki séð neinn sérstakan mun á bensíni og bílum og öðrum iðnaðarvörum. En það er ljóst að ekki verður gerður munur þar á og ég er reyndar sammála þeirri pólitík. Það sjónarmið sem einkum ætti að ráða í þessu, bæði varðandi bensín og bíla, er umhverfissjónarmið. Mér finnst umhverfisverndarsjónarmiðið skipta mestu máli í þessu sambandi, þ.e. að við reynum að stuðla að því að flytja inn og beina kaupum að bílum sem valda sem minnstum skaða en eru jafnframt öruggastir fyrir þá sem með þá fara.
    Ég er sammála þeirri pólitík að leggja eigi há gjöld á dýra bíla. Það á að skattleggja eyðsluna í landinu. Það á að ná peningum frá þeim sem eru ríkastir og það eru einna helst þeir sem fjárfesta í stórum og dýrum bílum. Stóru bílarnir, jepparnir og fjallabílarnir, hafa hingað til verið þeir sem valda mestri mengun og mér finnst sjálfsagt að fólk borgi og borgi mikið fyrir svoleiðis lúxuskerrur.
    Nefndinni bárust ýmsar umsagnir í sumar og hef ég þegar minnst á leigubílstjórana. Þeirra mál þarfnast sérstakrar athugunar við í nefndinni. Hjá Verslunarráði benda þeir á að þeir vilja hafa hóflega skattlagningu á dýrari bílum til þess að auka tekjur ríkissjóðs en eins og ég sagði áðan er ég ekki sammála þeirri pólitík. Bílgreinasambandið bendir á það, sem fram kom í máli fjmrh., að þessar viðmiðunaraðferðir, sem frv. byggist á, séu ekki í samræmi við tímann og þá þróun sem orðið hefur í framleiðslu bíla. Og þeir segja, með leyfi forseta:
    ,,Að halda í raun óbreyttu núverandi kerfi gerir m.a. yngra fólki og stærri fjölskyldum oft ókleift að kaupa þá bíla er best henta vegna þessara stighækkandi gjalda.`` Þannig er margt sem taka þarf tillit til við flokkun á þessum gjöldum.
    Ég vil líka nefna það sem segir í greinargerð Bílgreinasambandsins. Þar er bent á hvort ekki þurfi að vera heimild til sérstakrar niðurfellingar vegna öryggisbúnaðar til þess að ýta undir að fólk kaupi þá bíla sem búa fólki best öryggi.
    Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem mun skoða þetta mál og það má ljóst vera að ýmislegt þarf að athuga og þar af leiðandi er óþarfi að vera að ræða þetta mál mikið þar sem ljóst má vera að það er í raun alls ekki tilbúið til ítarlegrar umræðu.