Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 13:47:13 (711)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem komið hefur fram og verið bent á að í þessu frv. felst að nokkru leyti annað markmið í reynd en menn hafa gefið út að væri með fyrirvara í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það er alveg ljóst með þessu frv. að fátt er um varnir í því skyni að halda útlendingum utan við okkar sjávarútveg. Það er alveg ljóst á þessu frv. að það er mat núv. hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnar að lögin frá 1991 duga ekki. Það verður að breyta þeim til samræmis við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Og það er líka alveg rétt sem bent hefur verið á, hver er staða okkar Íslendinga til að hafa stjórn á kaupum á fiski hér á landi eftir að þetta frv. er orðið að lögum? Ég velti því fyrir mér hvað verður um möguleika okkar á því að stýra framhaldinu eftir að verslunarviðskipti hafa átt sér stað hvort heldur er um að ræða unninn eða óunninn fisk, innan lands eða utan. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. ráðherra gefi skýrari svör um það en fram hafa komið.
    Ég vil líka til viðbótar, virðulegi forseti, óska eftir skýringum ráðherra á niðurlagi 1. gr. þar sem segir að ríkisborgarar ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis skuli vera undanþegnir skilyrðum um ríkisfang og búsetu samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur. Hvaða efnisatriði eiga að vera í þessum reglum? Það skiptir verulegu máli um efni frv. hvað menn eru með þar í huga.
    Ég held, virðulegi forseti, að meira sé fólgið í þessu frv. en það lætur yfir sér. Svo lítið sem það

er þá varpar það skýrara ljósi á þá stöðu sjávarútvegsins innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem bent hefur verið á. Ég sé að mörgu leyti í þessu frv. staðfestingu á okkar varnaðarorðum. Ég hef t.d. bent á að ég sæi ekki fyrir mér að það væri framkvæmanlegt til lengdar að halda útlendingum utan við sjávarútveginn með þeirri breytingu sem samningurinn leiðir af sér hér innan lands á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Mér sýnist í raun og veru þetta frv. staðfesta þær efasemdir mínar og þurfi ekkert frekar að leiða fram rök í þeim efnum.