Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 14:41:44 (721)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Fyrst um frv. til laga um breyting á lögum nr. 36 frá 1992 um Fiskistofu. Ég ætla ekki að mótmæla því að Fiskistofa hafi eftirlit með meðferð fisks og framleiðslu sjávarafurða. Hins vegar vil ég endurtaka það sem ég hef áður sagt að ég tel það hafi verið rangt að gera breytingar á skipulagi um stjórn sjávarútvegsins áður en endurskoðun um stjórn fiskveiða fór fram. Ég tel reyndar að það sé að koma betur og betur í ljós að hæstv. sjútvrh. tekur ekki mjög alvarlega það sem á að vera að gerast í sambandi við endurskoðun á stjórn fiskveiða. Hann hefur lagt fram frumvörp og farið sínu fram með þær breytingar sem hann hefur haft áhuga á að koma með án þess að láta mikið vera að fjalla um þær annars staðar og ætlar greinilega að halda sínu striki. Ég geri ráð fyrir að þessi mál komi meira til umræðu síðar í dag undir öðrum dagskrárlið og þess vegna ætla ég ekki að fara að orðlengja um það hér sem væri samt ástæða til. Ég tel sem sagt að sú breyting sem gerð var með Fiskistofu hafi að mörgu leyti verið rétt skref en ef það verður einhver alvara úr endurskoðun á stjórn fiskveiða og þeim málum öllum þarf vafalaust að breyta þessum lögum aftur í tengslum við það.
    Mig langar til þess að segja fáein orð um frv. til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Þessi mál voru rædd á síðasta þingi og ég ætla ekki að endurtaka mikið af því sem þá var sagt en mig langar þó til þess að koma með eina spurningu til hæstv. sjútvrh. Eftirfarandi kom fram í umsögn frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, svo ég vitni í umsögn þeirra, með leyfi forseta:
    ,,SÍK og aðrar útgerðir þess óska eftir því að skýrt komi fram í greinargerð með frumvarpinu og/eða frumvarpinu að geymslur kaupskipaútgerða hérlendis sem erlendis, sem tekið hafa við umræddum sjávarafurðum til flutnings séu ekki vinnsluleyfisskyldar.``

    Mig langar að vita hvers vegna ekki var brugðist við þessari athugasemd vegna þess að í 12. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Vinnslustöðvar, lagmetisiðjur, skip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, skip sem vinna afla um borð, uppboðsmarkaðir fyrir sjávarafla og fiskgeymslur sem ekki eru hlutar af fiskvinnslufyrirtæki, fiskimjölsverksmiðjur og framleiðendur dýrafóðurs úr sjávarafurðum skulu hafa tölusett vinnsluleyfi til staðfestingar því að fullnægt sé settum skilyrðum.``
    Þarna finnst mér að frystigeymslur og fiskgeymslur í flutningaskipum hljóti að heyra undir sama lið og fiskgeymslur sem ekki eru hlutar af fiskvinnslufyrirtæki og þar með skyldar til þess að fá númerað vinnsluleyfi. Nú er ég ekki að segja að það geti ekki verið rökstuðningur fyrir því að þannig eigi þetta að vera. Mig langar að heyra þann rökstuðning vegna þessara eindregnu óska sem komu frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða.
    Mig langar til að staðnæmast við 14. gr. frv. Það er um skyldu fyrirtækja til að hafa samning við viðurkennda skoðunarstofu. Ég var satt að segja að vona að í sumar yrðu þau frv. sem hér eru til umræðu endurskoðuð og að menn mundu fresta því að einkavæða eftirlit með sjávarafurðunum, eins og gert er ráð fyrir í þessum frv., en mér hefur ekki orðið að þeirri ósk því allt er þetta nánast óbreytt frá því sem það var í vetur er leið. Það á sem sagt að láta einkaaðila hafa rétt til þess að stofna skoðunarstofur og gera öll fiskvinnslufyrirtæki skyldug til þess að hafa samning við þessa einkaaðila. Ég hef miklar efasemdir um að þetta gangi og vil benda mönnum á að velta því fyrir sér hvernig hagsmunir annars vegar þeirra sem reka skoðunarstofur og hins vegar þeirra sem eiga fiskvinnslufyrirtæki og eru samningsbundnir við viðkomandi skoðunarstofu liggja saman. Skoðunarstofa sem á í erfiðleikum með fyrirtæki í samningi við hana er í þeirri stöðu að hún er í raun að reka frá sér viðskiptavin ef hún þarf að ganga svo langt að klaga viðkomandi fyrir Fiskistofu eða verða til þess að hann missi vinnsluleyfi. Það liggur í augum uppi að það hlýtur að draga dálítið úr virkni kerfisins þegar hagsmunirnir liggja saman með þessum hætti. Þrátt fyrir að það komi fram í viðhengi með frv. þ.e. því sem hæstv. sjútvrh. nefndi, það er frásögn af fundi með embættismönnum í fiskideild EB, að þeir sjá ekki neitt athugavert við það að við höfum þetta kerfi en eru ekki tilbúnir að skrifa upp á það sjálfir. Þeir viðurkenna ekki annað en að stimpillinn verði að koma frá Fiskistofu og til að Fiskistofa geti borið ábyrgð á því sem skoðunarstofurnar hafa haft eftirlit með hlýtur hún að þurfa að hafa töluvert eftirlit með afurðunum sjálf. Ég er sannfærður um að með þessu er verið að auka verulega kostnað af eftirlitinu. Auðvitað á að stuðla að því að innra eftirlit fyrirtækjanna verði til og vaxi. En með því að setja þetta kerfi á verður það tvöfalt eins og ýmsir aðilar sem best þekkja til þessara mála hafa bent á. Það verður tvöfalt og miklu dýrara fyrir fyrirtækin. En það gæti orðið ódýrara fyrir opinbera aðila, það er satt. Kannski er það það sem rekur menn áfram, að losna við kostnað frá ríkinu. En mönnum er kannski sama þó að samanlagður kostnaður frá ríkinu og einkaaðilunum, sem taka við hluta af hlutverki ríkisins, verði miklu meiri en hann var áður. Ég hallast nú að því að þannig sé hugsunin á bak við þetta. En ég vil vekja athygli á orðalagi í þeirri frásögn sem ég nefndi hér áðan ef ég má, með leyfi forseta. Fimmti liður í þeirri frásögn orðast svo:
    Rætt var um heimild Fiskistofu til að veita skoðunarstofum leyfi til útgáfu útflutningsvottorða, sbr. 16. gr. Var fulltrúum EB bent á að ef þetta heimildarákvæði yrði notað yrði skoðunarstofa að uppfylla sérstök skilyrði sem gætu verið mismunandi á hverjum tíma.
    Þannig væri óvíst í framtíðinni hver skilyrði yrðu sett fyrir rekstri eftirlitsaðila og hæfni þeirra til útgáfu vottorða. Einnig var bent á það fyrirkomulag sem ríkt hefði í þessum málum á Íslandi og jafnframt að lönd í Afríku og Asíu krefðust enn útflutningsvottorða og samþykktu þetta fyrirkomulag. Svo kemur merkileg setning: ,,EB-menn gátu fallist á að þetta fyrirkomulag gæti gilt gagnvart öðrum ríkjum.`` Hvað höfðu þeir um það að segja? Ég bara spyr. En ef gefa þyrfti út opinber útflutningsvottorð fyrir EB-markað þyrftu slík vottorð að vera gefin út af opinberum aðila. Eru menn virkilega farnir að spyrja um það í Brussel hvernig við höfum þetta gagnvart öðrum ríkjum? Þurfa þeir nokkuð að samþykkja það? Mér finnst orðalagið vera heldur kátlegt. Ég ætla að vona að það sé bara af einhverjum klaufaskap sem þetta orðalag er svona en ekki af því að menn séu farnir að líta á einhverja viðræðufundi við menn frá Evrópubandalaginu sem stefnumarkandi fyrir Íslendinga í viðskiptum við einhverjar allt aðrar þjóðir en eru í EB.
    Ég get ekki á mér setið að koma upp og mótmæla þessum aðferðum sem menn ætla að innleiða með þessum hætti og lýsa yfir vonbrigðum mínum að menn skyldu ekki fresta því að setja þetta fyrirkomulag í gildi. Ég tel að margt hafi mælt með því að þó svo að menn hafi þessar skoðanir ættu þeir að bíða með það. Þeir ættu að koma kerfisbreytingunni á sem verið er að koma á með Fiskistofu. Menn ættu að bíða eftir þeim breytingum sem vonandi koma með endurskoðun fiskveiðistefnunnar og láta það bíða að búa til einhver einkafyrirtæki til þess að taka við eftirlitshlutverkinu með framleiðslu fiskafurða í landinu.
    Frv. til laga sem er líka til umræðu um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða er auðvitað hluti af þessu dæmi og ég hef verið að ræða það öðrum þræði með því sem ég hef sagt því að það er auðvitað nauðsynlegt til þess að innleiða einkavæðinguna inn í þetta eftirlit. Ég læt mér nægja að minna

á umsagnir þeirra aðila sem hafa verið til umræðu í sjútvn. og ég ætla ekki að fara að teygja umræðurnar með því að endurtaka þessar umsagnir. Mjög ákveðinn rökstuðningur hefur komið fram fyrir því að þetta séu ekki skynsamlegir hlutir sem eru þarna á ferðinni og ég vona satt að segja að það takist að ná fram breytingum á þessum málum í sjútvn. og ætla ekki að gefa upp vonina með það fyrr en það sannast þá að ekki verði breytingar á þessu frv. Ég læt nægja að minna á hvað Ríkismat sjávarafurða hefur sett fram í sinni gagnrýni. Sú gagnrýni er rökstudd og er í mörgum liðum og við höfum haft hana til skoðunar í sjútvn. og vitanlega verður farið yfir öll þessi mál aftur. Ég vona að hæstv. sjútvrh. verði til viðræðu um það að gera á þessu breytingar og að hann láti skynsemina ráða og menn fresti því að innleiða þessa einkavæðingu inn í eftirlit með sjávarafurðum á Íslandi. Ég held að eitthvað annað sé þarfara sem menn þurfa að gera núna en setja allt í bál og brand í sambandi við það eftirlit.