Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 14:55:51 (722)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Engum blöðum er um það að fletta að í þessum þremur frumvörpum er verið að leggja til veigamiklar breytingar á því sviði sem frumvörpin ná til. Því er eðlilegt að menn fari aðeins yfir það með gát áður en menn taka svona stór skref í þá átt sem lagt er til og ég vil segja það strax sem afstöðu mína til þessara frumvarpa og breytinga að ég hef nokkrar efasemdir um að menn séu í þessum efnum að ganga götuna til góðs.
    Það er alveg ljóst þó að það sé vissulega rétt sem kemur fram í áherslum hæstv. sjútvrh. að hagsmunir neytenda skipta miklu máli að þá skipta fleiri atriði miklu máli fyrir okkur Íslendinga. Sem útflytjendur á þessu sviði er það fyrst og fremst hagur þjóðarinnar að gengið sé frá þessum málum þannig að sem líklegast sé að menn nái samningum um sem best verð fyrir afurðirnar. Það eru fyrst og fremst þjóðarhagsmunir sem hafa leitt til þess að hið opinbera tók að sér í upphafi að hafa ákveðið eftirlit með þessum málum, bæði á vinnslustigi og útflutningi og ég hygg að býsna sterk rök og miklar breytingar þurfi til þess að menn komist að þeirri niðurstöðu að óhætt sé að leggja þetta af. Það er að nokkru leyti tvískinnungur í þessum frv. hvað þetta varðar þar sem annars vegar er lagt til að einkaaðilar taki að sér þessi verkefni, en hins vegar er lagt til að það verði opinber yfiraðili sem nefnist Fiskistofa ef ég man rétt. Menn eru í raun og veru að færa framkvæmdina út á markaðinn þar sem eins og réttilega var bent á áðan að þau fyrirtæki sem eiga að starfa á þeim akri eru auðvitað háð því að fá viðskiptavini. Þau eru í býsna örðugri stöðu sem þrengir óhjákvæmilega athafnafrelsi þeirra í þessum efnum vitandi það fyrir fram að þetta eru mennirnir eða fyrirtækin sem borga þeim kaupið sem þeir eru að skoða og gera athugasemdir við. Það má ekki gera lítið úr þessari stöðu sem ég tel engan vafa á að muni koma upp og verða umtalsvert atriði þegar fram líða stundir ef þetta fyrirkomulag verður eins og þarna er lagt til.
    Í grg. með frumvörpunum kemur fram, sem mér þykir dálítið merkilegt í ljósi þessara breytinga sem þarna eru lagðar til, að kaupendurnir erlendis leggja gríðarlega mikið upp úr opinberu eftirliti, opinberum stimplum. Það er traustið sem þeir virðast hafa á hinu opinbera og leggja mikið upp úr að sé fyrir hendi. Mér finnst að mörgu leyti að við séum að ganga götu sem fremur en ekki rýrir traust manna á gildi hinna opinberu stimpla í þessum efnum þegar menn fela undirverktökum, skoðunarstofum, að vinna hin praktísku störf í frystihúsunum og á þeim vettvangi. Ég vil því hafa allan fyrirvara á almennri hugsun frumvarpanna þó svo ég sé ekki þar með að segja að þar sé allt slæmt sem lagt er til og að engu hafandi. Sjálfsagt er að líta á þetta efni eftir því sem mönnum þykir skynsamlegast en ég held að menn eigi að stíga ákaflega varlega til jarðar í að breyta miklu frá því fyrirkomulagi sem menn hafa haft og ekki að gera það nema vera alveg fullvissir um að það sé til bóta en ekki til að skapa aukna áhættu og jafnvel auknar líkur á því að við verðum að sætta okkur við lakari verð erlendis en við höfum þó getað búið við.
    Ég vil nefna sem dæmi og spyrja hæstv. sjútvrh. um það hvort rétt sé að það eigi þar með þessu að leggja t.d. niður opinbert síldarmat. Mönnum er væntanlega kunnugt um það að í síldarútflutningi höfum við náð býsna góðum samningum um afar erfiðar aðstæður ytra, náð þeim hæstu verðum sem menn hafa getað fengið, m.a. í krafti þess kerfis sem menn hafa haft hér á landi í þessum efnum. Sú hugsun hvarflaði nú að mér þegar ég las þessi frumvörp hvort menn væru í raun og veru að gera tillögur um að breyta þessu opinbera síldarmati í veigamiklum atriðum. Ég þykist sjá það í gegnum greinargerðir með þessum frumvörpum að kaupendurnir okkar að síldinni eins og öðrum fiski geri mjög sterkar kröfur um að það sé opinbert mat, öruggt kerfi. Ég held að hæstv. ráðherra verði aðeins að upplýsa okkur um það hvort hann hefur athugað hvaða áhrif þessar breytingar sem hann leggur til munu hafa á möguleika okkar til að selja síld í útlöndum. Hitt er alveg ljóst, og ég held að það hafi komið fram í ræðum manna, að með þessu eru menn auðvitað að leggja kostnað á þá aðila sem fá þetta mat. Deila má um það hvort þeir sem kaupa þessa þjónustu eigi að borga hana fullu eða hvort samfélagið eigi að taka þátt í að greiða hana.
    Það má nefna sem dæmi varðandi síldarsölu að hið opinbera hefur lagt fram umtalsverða fjármuni til þess að greiða fyrir sölu síldar, m.a. með opinberu mati, og endurgreiðslur framleiðenda og seljenda nema aðeins hluta af þeim kostnaði. Það er eins gott að menn gangi til verka í þessum efnum með opin augun og viti hvað bíði þeirra í þessum efnum.

    Áður en ég vík að einstökum atriðum í frumvörpunum, sem ég hef skrifað athugasemdir við hjá mér, vil ég minna á það að fyrir nokkrum árum var það fyrirkomulag tekið upp að þrír aðilar sjá um ákveðinn hluta af þessu sjálfir, Sölumiðstöðin, SÍF og Sambandið og það væri fróðlegt ef það væri hægt að upplýsa okkur um reynsluna af því fyrirkomulagi. Er reynslan af þessu fyrirkomulagi betri en áður meðan ríkið sá um þetta alfarið? Skyldu ekki finnast dæmi sem sýna okkur að ekki hefur alltaf verið unnið eins og vera skyldi í þessum efnum og kannski þau sum ekki mjög gömul? Alla vega held ég að nauðsynlegt sé fyrst menn leggja til að feta sig áfram á þeirri slóð sem lögð var fyrir nokkrum árum að gera þingheimi grein fyrir reynslunni af því.
    Ég vil fyrst víkja aðeins að frv. um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða og ég vil taka undir það sem fram kom hér hjá hv. 1. þm. Austurl. að ég fæ ekki séð að þessi þrjú frumvörp tengist þessum samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Ég er því dálítið hissa á því að sjá það að þessi frumvörp skuli vera tekin fyrir á þeim tíma sem einkum var hugsaður fyrir frumvörp sem tengdust Evrópska efahagssvæðinu og þau frumvörp verði að bíða, fara aftur fyrir í málaröðina fyrir þessi frumvörp. Mér finnst skjóta dálítið skökku við áhersluna í þessum málum sem verið hefur svo að ég tali nú ekki um þær áherslur hjá formönnum stjórnarflokkanna þar sem þeir hafa verið að vega að þingmönnum fyrir það að leyfa sér að taka til máls og hafa skoðanir og leggja spurningar fyrir ráðherrana um Evrópska efnahagssvæðið.
    Hvað varðar þetta frv. um Ríkismatið þá geri ég í fyrsta lagi athugasemd við ákvæðið í 3. gr. frv. þar sem framseld er heimild til ráðherra að taka ákvörðun um að selja hlutabréfin samkvæmt nánari ákvörðun hluthafa sem í þessu tilviki er bara einn, ríkissjóður og handhafi þeirra er sjútvrh. Til að hér sé gengið lengra en æskilegt væri jafnvel þó að menn gætu hugsanlega fallist á að stofna hlutafélag þá er ég ekki tilbúinn að ganga svo langt að veita ráðherra heimild til þess að fara með þessar eignir að eigin geðþótta. Í 3. gr. kemur t.d. ekkert fram um það hvaða sérstöku kjör þetta eru sem heimilt er að bjóða og hvaða skilyrði það eru sem hægt er að setja við sölu. Þetta þarf að útlista betur fyrir okkur áður en afgreiðslu þessa máls lýkur.
    Í grg. með þessu frv. segir að það sé eðlilegt og er lagt fram sem rök fyrir því að breyta Ríkismatinu í hlutafélag að fyrirtækið búi við sama rekstrarform og samkeppnisaðilarnir. Hverjir skyldu vera samkeppnisaðilarnir í þessu? Það er Sölumiðstöðin, það er SÍF og það er Sambandið og mér þætti nú fróðlegt að hæstv. sjútvrh. upplýsti okkur um það hvaða félagaform Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna er. Er það hlutafélag? Eftir því sem ég veit best er Sölumiðstöðin nær því að vera kaupfélag en hlutafélag og dálítið merkilegt og að sumu leyti hlægilegt þar sem margir helstu talsmenn atvinnulífs og einkarekstrar eru samankomnir á einum stað þá velja þeir sér kaupfélagsformið utan um sjálfa sig. Það er margt sinnið sem skinnið, segi ég nú bara.
    Það kemur fram í greinargerð sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á að engin verkefni eru tryggð hinu nýja félagi, Ríkismati sjávarafurða hf. þannig að svo getur farið að menn séu að vaða út í óvissuna. Til hvers er verið að stofna fyrirtæki í ákveðnum tilgangi og engin verkefni tryggð?
    Þá kemur fram í athugasemd við 3. gr. að stefnt er að dreifðri hlutafjáreign og ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra útskýrði það frekar hvað er dreifð hlutafjáreign að hans mati. Um það kemur ekkert fram í frumvarpsgreininni eins og hún er skrifuð að öðru leyti en því að málið er algerlega í höndum ráðherra og því er nauðsynlegt að ráðherrar gefi skýringar á grundvallaratriði eins og þessu.
    Ég hygg að ég hafi ekki fleiri orð um þetta frv. um Ríkismat sjávarafurða en um annað frv. sem heitir frv. til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra hef ég vikið að almennum orðum og tel ekki þörf á að endurtaka það frekar, en ég efast um 22. og 23. gr. frv. Um 22. gr., sem er almenn heimild til ráðherra til að gefa út reglugerð um lögin, vil ég segja að ég er andvígur því að veita ráðherra slíka almenna reglugerðarheimild hvort sem um er að ræða frv. frá hæstv. sjútvrh. eða einhverjum öðrum. Ég tel að hlutirnir ættu að vera þannig að ef Alþingi sér ástæðu til að fallast á að veita framkvæmdarvaldinu reglugerðarvald til að útfæra lagaákvæði þá ætti það að vera tengt tilteknum atriðum eða nánar tiltekið ákveðnum greinum frv. þar sem kemur fram hvaða efnisatriði eigi að felast í reglugerðinni og vera til útfærslu á. 22. gr. gerir það ekki. Hún er almenn heimild og í valdi ráðherra að meta hversu langt hann getur teygt sig.
    Ég hef ákveðnar spurningar við 23. gr., um viðurlögin. Eins og ég skil frv., og má vera að það sé misskilningur af minni hálfu því að ég skal fúslega játa að ég hef ekki haft tíma til að fara til hlítar í þessi frv., en ég skil það þannig að það sé ráðherrann sem hafi þetta viðurlagavald og ég set spurningarmerki við það, ef það er rétt skilið hjá mér, að framkvæmdarvaldið fái viðurlagavald á lög. Ég tel ekki að það sé rétt. Ég tel að því ætti að vera annars staðar fyrir komið hjá einhverri eftirlitsstofnun ef hún er til eða þá einfaldlega á hendi dómsyfirvalda.
    Ég hygg að í þessu frv. sé gert ráð fyrir málskotsnefnd. Það mun vera í 20. gr. Þessari málskotsnefnd er ætlað nokkuð viðamikið hlutverk sem skiptir miklu máli um framkvæmd laganna og skiptir gríðarlega miklu máli gagnvart þeim sem að þessum atvinnuvegi starfa. Ég vil setja fram það sjónarmið að það sé ekki rétt að sjútvrh. skipi meiri hluta í þessari nefnd. Ég tel að ef hún á annað borð á að vera til, sem

ég hef efasemdir um á þessu stigi, ætti að leitast við að nefndin væri þannig skipuð að menn gætu fyllilega treyst því og verið um það sammála að nefndin starfi sjálfstætt án yfirvalds ráðherrans.
    Ég geri einnig athugasemdir við 3. mgr. 21. gr. þar sem vikið er að vanhæfni nefndarmanns. Ég tel það ekki nægjanlega sterkt, eins og segir í síðustu málsgrein á þessari blaðsíðu að nefndarmaður skuli víkja einnig ef hann er fjárhagslega háður málsaðila vegna eignaraðildar, viðskipta eða af öðrum ástæðum. Með þessu móti er opnað fyrir það að menn geti setið í nefndinni og úrskurðað í málum sem varða fyrirtæki sem þeir eiga jafnvel beinan hlut í ef ráðherra metur það svo að hann sé ekki fjárhagslega háður. Þannig að ég hygg að of veikt sé á málum tekið í þessu vanhæfnisskilyrði og ætti að styrkja það.
    Ég vil einnig fjalla aðeins um það sem fram kemur í greinargerð á bls. 6 þar sem greint er frá því að á frv., sem lagt var fram á síðasta þingi, hafi verið gerð breyting sem taki af tvímæli um að skoðunarstofum sé ekki framselt opinbert vald. Það má vera að þetta sé rétt mat. Ég hef ekki skoðað þetta til hlítar, en ég velti því þá fyrir mér hvort ekki beri þá að skilja það svo að núverandi fyrirkomulag Ríkismats sjávarafurða sé þannig að það geti ekki framselt sitt vald og ég bið hæstv. ráðherra að gefa upp álit sitt á þeirri spurningu hvort Ríkismati sjávarafurða sé við núverandi lög heimilt að framselja sitt vald, framselja það t.d. til verktaka og ég spyr ekki að tilefnislausu, og þykir nú leitt að þurfa að trufla hæstv. ráðherra, því að mér er kunnugt um það að Ríkismat sjávarafurða hefur gert samninga við aðila á þann veg að þeir verði verktakar fyrir stofnunina og hafi þann starfa að gefa út útflutningsvottorð, m.a. fyrir ferskan og frystan fisk.
    Ég hef ýmsar spurningar við þetta fyrirkomulag sem ég tel ástæðu til að leita svara við á öðrum vettvangi varðandi stöðu þess verktakamáls gagnvart starfsmönnum og lögum um opinbera starfsmenn. En gagnvart hæstv. sjútvrh. minnist ég á þetta til að fá svör hans við því hvort hann telji það fyrirkomulag standast, að Ríkismat sjávarafurða geti ráðið sér verktaka til að gefa út opinber vottorð. Ég fæ ekki séð að verktaki sé skuldbundinn stofnuninni með sama hætti og starfsmaður sem starfar í umboði stofnunarinnar og í nafni hennar og stofnunin ber því ábyrgð á hans athöfnum. Hitt hygg ég að öllum hljóti að vera augljóst að verktakafyrirkomulag í þessu er miklum mun óljósara og ég hygg að ráðherra verði að gefa okkur nokkrar skýringar á þessu fyrirkomulagi.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, nefna eitt atriði til og bendi á umsögn fjrmrn. á bls. 19 í frv. um meðferð sjávarafurða þar sem vikið er að svokallaðri málskotsnefnd. Þar er vakin athygli á því að ekki sé beinlínis tekið fram að nefndin skuli kostuð af ríkissjóði og ekki sé ljóst hvort nefndin hafi heimild til að krefja málsaðila um allan þann kostnað sem verður til vegna málsins. Burt séð frá afstöðu manna til þess hver á að greiða þennan kostnað, ríkissjóður eða málsaðilar, þá verður lagabúningurinn að vera þannig úr garði gerður að ljóst sé hver eigi að greiða þennan kostnað og um það verði ekki deilt. Ég vek athygli hæstv. ráðherra og sjávarútvegsnefndarmanna á þessu atriði og bið þá að huga að þessu við meðferð málsins í nefnd.
    Ég vil að endingu minnast aftur á þessa málskotsnefnd og spyrjast fyrir um stöðu hennar innan hins þrískipta valds. Ég legg þann skilning í málskotsnefndina að hún sé á vettvangi framkvæmdarvaldsins og að úrskurði nefndarinnar megi bera undir dómstóla, bæði að formi og efni. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra að gefa upp álit sitt á þessu því að það er eitt af þeim atriðum sem mönnum verður að vera alveg tryggilega ljóst hver staða nefndarinnar er í okkar kerfi.