Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 15:20:46 (723)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Frú forseti. Sá þingmaður, sem hér talaði áðan, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hefur þá sérstöðu í sínum þingflokki að hann hefur býsna góða þekkingu á rekstri. Ég hef þess vegna ástæðu til að ætla að hann hafi eilítið frjálslyndari skoðanir á atvinnurekstri en margir í hans flokki. Ég hlustaði þess vegna mjög grannt eftir því þegar hann ræddi málefni Ríkismats sjávarafurða og kom að þeim þætti sem laut að því að gera þá stofnun að hlutafélagi. Og ég hjó eftir því að hið eina sem honum virtist finnast athugavert við þá ætlun var að sjútvrh. færi með hlutabréfin í hinu nýja hlutafélagi. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hann hvort hann sé í grundvallaratriðum með eða á móti því að stofnunin verði gerð að hlutafélagi.