Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 15:24:13 (727)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja fram þrjú frv. sem öll snerta sjávarútveginn á einn eða annan hátt og menn spá mjög í það í þessum ræðustól hvernig þau tengjast þeirri umræðu sem við annars stöndum í þessa dagana, þ.e. umræðunni um Evrópskt efnahagssvæði og frv. sem þarf að leggja fram og lögtaka síðar í framhaldi af því.
    Ég get að vísu fallist á að það geti verið margt í þessum frv. sem ekki tengist þeirri umræðu beint en ég bendi þó á að í frv. til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu er 22. gr. örstutt setning sem segir: ,,Sjávarútvegsráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um efni þessara laga.`` Það er einmitt það sem hefur verið gert í mörgum þeim frv. til laga, sem við erum að ræða þessa dagana, að ráðherra er fengið það vald að setja reglugerð, oft til þess að koma til móts við og uppfylla skilyrði Evrópubandalagsins og hins Evrópska efnahagssvæðis um lög og reglur og ég held að verið sé svona að lauma því með á ýmsum stöðum í þessum frv. að setja eigi reglugerð um þau efni sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu til nánari uppfyllingar. Þannig sýnist mér að þessi frv. tengist umræðunni um Evrópskt efnahagssvæði líka enda kom það að nokkru leyti fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra hér áðan.
    Einnig má benda á að í þessu sama frv. sem ég nefndi segir um meginatriði frv. að verði það að lögum verði löggjöfin sambærileg við löggjöf Evrópubandalagsríkja og einnig er talað um Bandaríkin og Kanada þannig að þarna er þessu stungið með a.m.k. á nokkrum stöðum sem ég hef rekið augun í við yfirlestur á frv.
    Að öðru leyti er verið að ræða það sérstaklega í sambandi við Ríkismat sjávarafurða að gera það að hlutafélagi og uppfylla þar með væntingar ríkisstjórnarinnar um að selja síðar meir ríkisfyrirtæki og losa þannig fjármagn ríkisins. Ég er ekki jafnsannfærð um það og hæstv. ríkisstjórn að einkavæðing sé alltaf það besta í þessum málum og alls ekki í sambandi við Ríkismat sjávarafurða. Ég tel að það þurfi að vera ákveðin opinber stofnun sem hafi það með höndum. Ég sé heldur ekki að þó svo að Ríkismat sjávarafurða sé gert að hlutafélagi, sem ríkið reyndar á að eiga og leggja til hlutafé eingöngu í upphafi, það verði endilega til þess að þau hlutabréf seljist. Fyrirtækið á að keppa við aðrar skoðunarstofur á jafnréttisgrundvelli og eins og raunar kom fram í máli hv. 5. þm. Vestf. hér áðan þá er engan veginn víst að verkefni séu svo mikil að hægt sé að keppa að neinu ráði um þessi verkefni á frjálsum markaði og að þessi hlutabréf verði eftirsóknarverð. Og þá sé ég ekki að mikið hafi áunnist af þeim markmiðum sem ríkissjóður ætlar að ná með því að selja hlutabréf, þ.e. losa ríkissjóð þarna út úr rekstri sem kostar hann fjármuni og koma þeim kostnaði yfir á aðra.
    Margir eru búnir að ræða um þetta á undan mér þannig að ég ætla svo sem ekki að endurtaka það en í umsögn fjmrn. um frv. um stofnun hlutafélags um Ríkismatið er vakin athygli á því að í þessu frv. er ekkert ákvæði þess efnis að þeir starfsmenn, sem hverfa frá Ríkismati sjávarafurða til þessa nýja hlutafélags sem fyrirhugað er að stofna, fái ekki biðlaun. Jafnframt er vakin athygli á því að ekki sé samræmi á milli annarra frumvarpa sem voru lögð fram um einkavæðingu eins og Sementsverksmiðjur ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins. Þarna er um það að ræða að starfsmenn muni geta fengið biðlaun greidd þó svo að þetta hlutafélag eigi að taka við þeim störfum sem Ríkismatið hafði og ég er ekki að lasta það, síður en svo. Ég tel að menn eigi rétt á biðlaunum, enda sé sá réttur tryggður með 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þarna getur líka verið um umtalsverða fjármuni ríkisins að ræða, þ.e. að starfsmennirnir hafi þarna biðlaun jafnframt því sem þeir eru komnir í störf hjá hinu nýja hlutafélagi. Þarna er ákveðið misræmi á milli í frumvörpum sem lögð hafa verið fram, þ.e. um Sementsverksmiðjuna, Síldarverksmiðjurnar og aftur Ríkismatið, sem ekki kemur heim og saman þar sem um svipaðar breytingar virðist vera að ræða. Þetta varð tilefni talsverðra umræðna í fyrravetur í sjútvn. og ég held að þetta sé eitt af því sem ekki er komin samræmd ákvörðun um hvernig með skuli fara.
    Að lokum, vegna þess að eins og ég hef rætt um áður mun eiga að koma kostnaði frá ríkinu yfir á aðra aðila, langar mig að spyrja hverju þetta mundi geta breytt í stöðugildum viðkomandi stofnana og beini þeirri spurningu þá til hæstv. ráðherra. Álítur hann að það verði fjölgun starfsmanna með öllum þessum breytingum sem hann hefur lagt til? Kemur þessi fjölgun þá fram í aukningu starfa? Hvar verða þau störf til? Verða þau hér í Reykjavík eða eru þau líka dreifð um landið? Það væri mjög æskilegt að fá svör við þessu.