Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 15:33:34 (728)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög. Ég þakka fyrir þann málefnalega málflutning sem hefur verið hafður uppi, enda er í sjálfu sér ekki ástæða til annars. Hér er um að ræða mál sem í eðli sínu er ekki flokkspólitískt og ég ætla ekki að fara hér í umræður um smáatriði, enda hygg ég að það muni verða gert með mjög ítarlegum hætti í sjútvn. Ég hygg að allir þeir sem koma að þessum málum séu sammála um það að aðalatriðið er fyrst og fremst, með þessum breytingum, að sjá til þess að íslensk framleiðsla standist þær kröfur sem eru gerðar til sjávarafurða á erlendum mörkuðum og ég hygg að það sé tryggt með því kerfi sem hér er verið að setja fram.
    Þau frv. sem eru til umræðu eru hluti af nokkuð róttækri uppstokkun á stjórnsýslu sjávarútvegsins. Það sem hefur einkum komið til umræðu og það sem menn setja e.t.v. helst krókinn í eru skoðunarstofurnar. Menn spyrja til að mynda hvort með þeim sé verið að færa vald frá hinu opinbera til einkaaðila og ég hygg að svarið við því sé já. Það er verið að gera það en samt sem áður hefur hið opinbera áfram hið endanlega eftirlitsvald. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér aðeins grein fyrir því hvernig þetta kerfi er upp byggt.
    Fiskistofan gefur út vinnsluleyfi og án þess er óheimilt að vinna sjávarafla, veiða hann, geyma hann eða starfrækja uppboðsmarkaði. Lögin fyrirskipa síðan að Fiskistofan gefi út viðurkenningu fyrir skoðunarstofurnar og síðan, sem er afar mikilvægt, hefur hún jafnframt eftirlit með því að skoðunarstofurnar sinni sínu starfi á fullnægjandi hátt. Síðan kveður frv. á um það að fyrirtæki, bæði í útgerð og í vinnslu, verði að hafa samning við viðurkennda skoðunarstofu sem veiti hinu innra eftirliti nauðsynlegt aðhald. Síðan er það Fiskistofan en ekki skoðunarstofurnar sem geta svipt fyrirtæki og skip leyfum vegna vanrækslusynda sem hljóta að koma upp á. Ég hygg því að það sé alveg ljóst að vald hins opinbera er ekki framselt til skoðunarstofanna með þeim hætti að ekki sé viðunandi.
    Ég hjó eftir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kallaði nákvæmlega þennan þátt tvískinnung. Með öðrum orðum, hann orðaði það efnislega svo að eftirlitið væri fært út á markaðinn en samt væri eftir sem áður opinber eftirlitsaðili og í hans máli var þetta orðað svo að hér væri um tvískinnung að ræða. Ég tel það alls ekki. Ég tel einmitt að í þessu felist með vissum hætti snilld, ef við getum kallað það svo, þessa kerfis vegna þess að með því er í senn uppfyllt sú krafa erlendra aðila að opinbert eftirlit sé til staðar, en samt sem áður er verið að færa verkefnin frá hinu opinbera og út á markaðinn. Og miðað við þær yfirlýsingar sem hv. þm. gaf áðan um stuðning sinn við hlutafélagaformið hygg ég að hann sé í hjarta sínu sammála því.
    Sömuleiðis vil ég aðeins víkja að máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem hafði uppi efasemdir um að rétt væri að hafa þetta fyrirkomulag þar sem skoðunarstofurnar gera samning við fyrirtæki. Hafi ég skilið röksemdafærslu hans rétt gekk hún út á það að skoðunarstofurnar hefðu vegna þessara samninga hagsmuni af því að vera í tengslum við fyrirtæki. Ef skoðunarstofunum gengi síðan illa að láta viðkomandi fyrirtæki sinna sínu innra eftirliti og færu að reka á eftir því ættu stofurnar á hættu að missa viðskiptavini. Mér finnst hv. þm. gleyma einu mjög mikilvægu atriði og það er að skoðunarstofurnar hafa líka þrýsting ofan frá vegna þess að Fiskistofan fylgist með þeim. Staðreyndin er sú að ef Fiskistofan kemst að því að skoðunarstofurnar sinni ekki sínu hlutverki sviptir hún þær starfsleyfinu þannig að þó að vont sé að missa viðskiptavin er enn verra að missa leyfið.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, láta koma fram vegna þess að mér finnst sem menn hafi vissa tilhneigingu til þess að sjá einungis gallana en ekki kostina við þetta kerfi.