Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 15:43:25 (733)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég ætla í fáum orðum að víkja að nokkrum þeirra atriða sem fram hafa komið í ræðum hv. þm. Minnst hefur verið á tengsl þessara frumvarpa við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Ástæða þess að fyrir liggja tillögur að nýrri löggjöf um þær kröfur sem rétt þykir að við Íslendingar gerum um meðferð á sjávarafla er m.a. þær nýju reglur sem taka munu gildi um nk. áramót í Evrópubandalaginu samhliða því að við væntum þess að Evrópska efnahagssvæðinu verði komið á fót. Hitt er svo satt og rétt að hér er um að ræða þátt í viðameiri skipulagsbreytingum á stjórnsýslu sjávarútvegsins. Um það var tekin ákvörðun að ríkisstjórnin beitti sér fyrir slíkri skipulagsbreytingu. Fyrri hluti hennar var lögfestur á sl. vori og sá hluti sem tengist gæðaeftirlitinu og hinum nýju reglum Evrópubandalagsins er í þessu frv. um meðferð sjávarafurða. Ætlunin er að koma þeirri stjórnsýslu fyrir með þeim hætti sem greinir í því

frv. og fylgifrumvörpunum um Fiskistofu og breytingar á Ríkismati sjávarafurða.
    Hv. 1. þm. Austurl. gat þess, alveg réttilega, að Evrópubandalagið og Bandaríkin gera kröfur um opinbert eftirlit og það er uppistaðan í frv. að með því er verið að tryggja að nauðsynlegt opinbert eftirlit eigi sér stað á þessu sviði. Þó að fram hafi komið ákveðnar efasemdir hjá hv. þm. um nauðsyn þess að stíga frekari skref í þá átt að auka ábyrgð fyrirtækjanna í þessum efnum tók hann fram að hann væri þeirrar skoðunar að í ýmsu tilliti gæti verið rétt að auka ábyrgð fyrirtækjanna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt og þessi frumvörp byggja vitaskuld á þeirri skoðun um leið og kröfum um opinbert eftirlit er fullnægt.
    Það er rétt að ítreka það sem fram kemur í skýrslu fjórmenninganna sem fóru til Brussel til viðræðna við fiskideild Evrópubandalagsins í apríl sl. en í skýrslu þeirra segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Verkaskipting opinberra eftirlitsaðila og einkaaðila var rædd. Voru Evrópubandalagsmenn mjög áhugasamir um þá nýjung sem fram kemur í frv. um skyldu til samnings milli framleiðenda og skoðunarstofu er starfi undir eftirliti opinberra aðila og töldu að jafnvel mætti nýta þetta fyrirkomulag við lausn ýmissa vandamála við eftirlit með matvælum innan Evrópubandalagsins. Töldu þeir þetta fyrirkomulag fullnægja kröfum Evrópubandalagsins. Kom fram hjá þeim að Fiskistofa fullnægði kröfum um opinberan eftirlitsaðila og uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru í tilskipunum Evrópubandalagsins. Þessi niðurstaða úr viðræðunum tekur af öll tvímæli í þessu efni.``
    Það er rétt að rifja upp að þegar Ríkismat sjávarafurða gaf sitt álit sem hefur verið vitnað til í sambandi við þetta frv. hafði þessi ferð til viðræðna við fiskimáladeild Evrópubandalagsins ekki verið farin og þær niðurstöður sem hér liggja fyrir, undirritaðar af þeim sem þátt tóku í viðræðunum fyrir Íslands hönd, lágu þá ekki fyrir. Eðlilega getur það hafa haft áhrif á niðurstöður í umsögn Ríkismatsins á sínum tíma.
    Hv. 1. þm. Austurl. vitnaði einnig í umsögn yfirdýralæknis þar sem fram kom að umdeilt gæti verið hversu langt væri unnt að ganga í að framselja opinbert eftirlitsvald. Við nánari athugun þessara mála hefur ráðuneytið fallist á að eins og frv. var í upphaflegri gerð gat verið umdeilt hversu langt væri unnt að ganga í þessu efni og því hafa við endurflutning þess verið tekin af öll tvímæli í þessu efni og ekki hefur verið gert ráð fyrir því, eins og í upphaflega frv., að unnt væri að veita skoðunarstofum umboð til þess í ákveðnum tilvikum að fara með opinbert vald. Það er ekki lengur fyrir hendi. Þar hafa verið tekin af öll tvímæli og þessar athugasemdir eiga því ekki lengur við að mínu mati og á þessi sjónarmið hefur ráðuneytið fallist. Skoðunarstofurnar eru í raun og veru framlenging á innra eftirliti fyrirtækjanna en ekki opinberu eftirliti ríkisvaldsins.
    Hv. 9. þm. Reykn. innti eftir því hvernig háttað yrði verkaskiptingu eftirlitsaðila með fiskeldisafurðum. Um það hefur verið rætt og er gott samkomulag við landbrn. um að það hefur úrslitavald að því er varðar eftirlit með eldisfiskum þar til þeim hefur verið slátrað en eftir að þær koma til vinnslu taka ákvæði þessara laga við.
    Hv. 3. þm. Vesturl. innti síðan eftir viðbrögðum við fyrirspurn frá samtökum kaupskipaútgerða sem töldu æskilegt að taka af vafa, ef ég skildi rétt, um það hvort frystilestir í kaupskipum féllu undir ákvæði frv. Ég tel að í raun og veru sé óþarfi að taka nokkuð fram um þetta efni, en vitaskuld getur það komið til skoðunar hjá hv. nefnd.
    Hv. 3. þm. Vesturl. ræddi einnig um hugsanleg tengsl skoðunarstofu við einstök fyrirtæki. Í því sambandi vil ég vísa til þess sem þegar hefur komið fram hjá hv. 17. þm. Reykv. að Fiskistofa mun hafa eftirlit með skoðunarstofunum og minnsti misbrestur af þeirra hálfu á því að framfylgja sínum skyldum getur leitt til þess að þær missi leyfi til þessara verkefna.
    Hv. 5. þm. Vestf. spurði hvort ákvæði frv. hefðu einhver áhrif á möguleika okkar til sölu á síldarafurðum. Ákvæði frv. breyta engu í því efni. Það hefur verið staðið mjög vel að því eftirliti og síldarframleiðendur munu laga sig að þessari nýju löggjöf og hún mun tryggja þeim allan mögulegan markaðsaðgang.
    Þá spurði hv. þm. hver hefði verið reynslan af eftirlitsdeildum sölusamtakanna. Ég hygg að þær hafi fengið umboð til þess að sinna núverandi verkefnum í sjávarútvegsráðherratíð hv. 1. þm. Austurl. Ég held að það hafi verið rétt skref sem þá var stigið og reynslan hafi að öllu jöfnu verið góð af því starfi.
    Þá vék hv. þm. að því að Ríkismati sjávarafurða, eftir að því hefði verið breytt í hlutafélag og falið verkefni skoðunarstofu, væru ekki tryggð sérstök verkefni með frv. Ég bendi fyrst og fremst á í þessu sambandi að utan sölusamtakanna er mjög verulegur hluti af framleiðslu og sölu á okkar sjávarafurðum þannig að þar er um mjög stóra markaðshlutdeild að ræða sem þetta fyrirtæki ætti að geta átt mjög greiðan aðgang að í þeim viðskiptum sem ráð er fyrir gert að skoðunarstofurnar eigi við við framleiðendur.
    Hv. 5. þm. Vestf. vék einnig að kröfum um dreifða hlutafjáreign. Það er að sönnu rétt að þar eru ekki sett gagnkvæm mörk um hvaða skilyrði verða sett en augljóst er að það er ekki ætlunin að þjappa þar saman fámennisvaldi heldur tryggja að yfirráð yfir fyrirtækinu geti verið í höndum fleiri aðila.
    Þá vék hv. þm. að ákvæðum 23. gr. frv. um viðurlög ef brugðið er út af þeim fyrirmælum sem lagafrv. gerir ráð fyrir. Ég hygg að þar hafi komið fram nokkur misskilningur af hálfu hv. þm. Framkvæmdarvaldið fer ekki með refsiákvarðanir, það gera dómstólar. Hér er hins vegar verið að kveða á um það hvers konar viðurlögum þeir koma við vegna brota á þessum lögum.
    Þá vék hv. þm. að vanhæfi nefndarmanna og taldi að það væri í valdi ráðherra að úrskurða um hvenær þeir væru vanhæfir. Svo er ekki. Það er tekið fram í lögunum hvenær nefndarmenn eru vanhæfir og að öðru leyti gilda um það efni almennar vanhæfisreglur. Mat ráðherra ræður engu þar um.
    Það er rétt hjá hv. þm. og að gefnu tilefni ástæða til að ítreka að sú úrskurðarnefnd sem rætt er um í 21. gr. frv. er stjórnsýsluaðili og eðli máls samkvæmt hafa dómstólar úrslitavald í þessum málum sé þeim skotið til þeirra. Hér er um að ræða mjög mikilvægt ákvæði að mínu mati til að tryggja þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli skjóta og örugga úrlausn í ágreiningsefnum án þess að þurfa að bíða margra ára niðurstöðu dómstóla nema þeir óski að skjóta ákvörðunum nefndarinnar til dómstólanna.
    Hv. 6. þm. Vestf. spurði um hvaða áhrif þessi frumvörp hefðu á fjölda opinberra starfsmanna. Heildarskipulagsbreytingin, sem hér er um að ræða og að hluta til tók gildi með lagabreytingum í vor og væntanlega verður lokið með þessum breytingum, er engin. Það er ekki gert ráð fyrir því að breyting verði á heildarfjölda starfsmanna. Hins vegar verða breytingar innbyrðis á einstökum sviðum og opinberum starfsmönnum við gæðaeftirlit fækkar. Þeim fjölgar hins vegar sem starfa að eftirliti með sjávarafurðum hjá skoðunarstofum. Því má gera ráð fyrir því að fleiri verði við störf að gæðaeftirliti þegar þessi löggjöf hefur náð fram enda verið að gera hér ítarlegri og meiri kröfur þó að opinberum starfsmönnum við þau verkefni fækki.
    Að því er varðar umfjöllun hv. þm. um biðlaunin gildir allt annað um þær breytingar sem hér er verið að mæla fyrir en um þau ágreiningsefni sem voru til umfjöllunar á síðasta þingi varðandi Síldarverksmiðjur ríkisins og Sementsverksmiðju ríkisins vegna þess að hér er verið að gera eðlisbreytingu á Ríkismatinu. Það mun hafa önnur verkefni með höndum eftir þessa breytingu en fyrir hana og þess vegna er þeim málum skipað með öðrum hætti. Það hefur engin fordæmisáhrif að því er varðar önnur fyrirtæki, til að mynda Síldarverksmiðjurnar.
    Ég hygg þá, frú forseti, að ég hafi í öllum meginatriðum vikið að þeim álitaefnum sem varpað hefur verið fram í umræðunni og ítreka þakklæti mitt til hv. þm. og vona að hv. sjútvn. geti tekið til starfa til að fjalla um þessi mál með skjótum og vönduðum hætti eins og hennar er vandi.