Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:04:45 (736)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil enn þakka svörin. Málið er örlítið skýrara en það var þótt varðandi dreifða eignaraðild sé það ekki mjög miklu skýrara.
    Fyrst ráðherra túlkar lagatextann svo að hann geti ekki með starfsreglum gert lagaákvæðin ljósari og fyllri sýnist mér nauðsynlegt að hv. sjútvn. taki þetta ákvæði til skoðunar einmitt í því skyni að gerð verði breyting á frumvarpsgreininni þannig að hún verði ótvíræðari hvað varðar vanhæfi nefndarmanns, hvenær hann er vanhæfur. Ég hygg að það sem ég benti á séu flestir sammála um, að það er mjög óljóst hvernig ber að skilja ,,fjárhagslega háður``.
    Einu svaraði hæstv. ráðherra ekki, sem ég gat ekki um í minni fyrri andsvararæðu, og það er hvort hann teldi að Ríkismat sjávarafurða hefði heimild til þess samkvæmt núgildandi lögum að gera verktakasamning við einstaka aðila sem tækju að sér að gefa út útflutningsvottorð, hvort það samrýmdist núverandi lögum að framselja með þeim hætti tiltekið vald sem stofnunin hefur.
    Ég hef vissar efasemdir um það og reyndar hef ég ýmsar athugasemdir við þessi dæmi sem ég hef undir höndum um verktöku hjá Ríkismati sjávarafurða. Það lýtur í sjálfu sér ekki svo mjög að hæstv. sjútvrh. heldur meira að lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.