Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:07:15 (738)



     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kom inn á það í minni ræðu að Bandaríkjamenn hafa tekið upp svokallað HACCP-kerfi og Kanadamenn hafa gert það kerfi að skyldu í sínum fiskiðnaði og munu væntanlega verða fyrstir þjóða til að nota bandarísku gæðamerkin sem fylgja þessu kerfi á sínar afurðir.
    Ég vil því koma inn á þetta aftur og spyrja hæstv. sjútvrh., vegna þess að átt hafa sér stað viðræður við Bandaríkjamenn um þessi mál, hvort eitthvað liggi fyrir um það hvort við getum tekið upp hin bandarísku gæðamerki á okkar afurðir og hvort það kerfi sem til stendur að komið verði á muni breyta einhverju í því sambandi.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra um það hvað sé gert ráð fyrir að margir starfsmenn færist frá Ríkismati sjávarafurða til Fiskistofu. Það mætti halda að Ríkismat sjávarafurða væri feiknalega stór og dýr stofnun. Þar starfa 28 manns og stofnunin hefur verulegar sértekjur. Þess vegna eru vissulega uppi nokkrar efasemdir um sparnaðinn. En það verður líka dýrt að gera þessa breytingu því gert er ráð fyrir því að allt að 20 starfsmenn eigi sex mánaða biðlaunarétt og 8 starfsmenn tólf mánaða biðlaunarétt að þeim frádregnum sem flytjast yfir til Fiskistofu. Því hljóta að vakna spurningar um það hvort þær breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar í þessu efni, og ég viðurkenni að það verða að eiga sér stað ákveðnar breytingar, sé ekki hægt að gera með ódýrari hætti.
    Einnig vil ég að lokum koma inn á það hvort ekki er nauðsynlegt að setja ákvæði um að utanrrn. geti ekki veitt útflutningsleyfi á sjávarafurðum nema að Fiskistofa hafi samþykkt þau. Því miður er það svo að lítið samband hefur verið milli utanrrn. og stofnana sjútvrn. í þessu sambandi og utanrrn. hefur lítt skeytt um það hvort gæðamál séu í lagi.