Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:16:23 (741)

     Forseti (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Forseti vill af þessu tilefni lesa upp úr síðari mgr. 50. gr. þingskapalaga sem hljóðar svo:
    ,,Forseti getur leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. [þ.e. hvað varðar hálftímaumræðuna] og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar formlegra þingmála.``
    Nú er það svo að á dagskrá í dag hafa verið sett formleg þingmál er öll varða sjávarútveg. Það mál sem hér hefur verið tekið á dagskrá hefur mjög lágt númer, er 16. mál þingsins. Þess vegna ákvað forseti að setja það mál á dagskrá og hafði sambandi við hv. þm., Jóhann Ársælsson, um það hvort hann vildi að mál Alþb. um sama efni, Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, 66. mál, yrði tekið til umræðu í tengslum við 16. mál. Ég taldi niðurstöðu hafa orðið þá milli okkar hv. þm. í gærkvöldi að svo yrði. Forseti tók það fram í upphafi fundar að þess væri óskað að umræða um þessi tvö mál færi fram sameiginlega og fundurinn samþykkti það. Þegar hv. 1. þm. Austurl. hefur mælt fyrir 6. dagskrármálinu mun hv. 3. þm. Vesturl. mæla fyrir 7. dagskrármálinu. Umræðan fer síðan fram sameiginlega.
    Þetta vildi forseti að kæmi hér fram áður en umræðan hefst og mælt verður fyrir frumvörpunum og vonar að þetta sé skýrt.