Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:18:35 (742)


     Jóhann Ársælsson (um þingsköp) :

    Virðulegur forseti. Ég viðurkenni að þetta er skýrt eins og það er fram sett núna. Ég taldi hins vegar, vegna þess að forseti tók það ekki fram við kynningu sína á umræðunni að það hefði kannski fallið niður hjá honum að gera grein fyrir því með hvaða hætti umræðan ætti að fara fram. Ég vil endurtaka það að þegar verið er að biðja um umræður utan dagskrár um mikilvæg mál er ekki sjálfgefið að einhver mál sem komin eru inn á málaskrá þingsins henti til að sú umræða geti farið fram. Ég tel að frv. um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, sem lá fyrir, sé um afmarkað málefni og það ætti ekki að vera kappsmál forseta þingsins að menn noti umræður um afmörkuð málefni til að fara um víðan völl í umræðunni og skipuleggja mál með þeim hætti að það sé bókstaflega lagt fyrir þingmenn að vegna þess að eitthvert mál sjávarútvegsins sé á dagskránni sé hægt að taka almenna umræðu um sjávarútvegsmál undir þeim lið. Þess vegna taldi ég og tel enn að það hefði verið eðlilegra að okkar umræða um sjávarútvegsmálin hefði farið fram.