Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:20:24 (744)


     Flm. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Ég vil í upphafi umræðunnar óska eftir því að hæstv. forsrh. verði viðstaddur hana, m.a. vegna þess að hæstv. forsrh. hefur blandað sér í þessa umræðu og má segja að hæstv. sjútvrh. hafi nánast lýst því yfir að þessi mál væru ekki síst í hans höndum, þau væri ekki aðeins sjávarútvegsmál heldur almenn efnahagsmál.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að nú á þessu sumri kom það fram að fiskifræðingar töldu að það yrði að draga mjög úr sjávarafla við Ísland. Vissulega var vandi á höndum hvernig bregðast skyldi við og þá ábyrgð þurfti hæstv. sjútvrh. að axla. Að sjálfsögðu voru uppi ýmsar skoðanir um það hvernig hann skyldi bregðast við. Niðurstaðan varð sú að ekki var farið í öllu að tillögum fiskifræðinga fremur en oft áður og ákvörðun var í hærri kanti þeirrar ráðgjafar sem fiskifræðingar mæltu með eftir ítarlega umfjöllun í ríkisstjórn. Þrátt fyrir að ákveðið væri að aflinn yrði nokkru meiri en fiskifræðingar mæltu með er ljóst að hér er um gífurlegt áfall að ræða, bæði fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenskan þjóðarbúskap.
    Þetta áfall er svo mikið að ekki verður hjá því komist að bregðast við því með einum eða öðrum hætti. Áfallið er mismunandi eftir landshlutum og þá sérstaklega eftir því hvað viðkomandi fiskiskip veiða. Það er ljóst að áfallið er mun meira hjá þeim sem hafa stundað þorskveiðar en þeim sem aðrar fiskveiðar hafa stundað á undanförnum árum. Sú spurning kom því strax upp hvernig jafna ætti þetta áfall. Mér er ekki kunnugt um að uppi séu um það neinar deilur að jafna beri þetta áfall með einum eða öðrum hætti. Deilurnar hafa fyrst og fremst snúist um það hvernig eigi að jafna áfallið og í reynd liggur ekkert fyrir um hvernig það verði gert.
    Frv. sem ég mæli fyrir fjallar um það að nýta aflaheimildir Hagræðingarsjóðs til að jafna þetta áfall. Réttara sagt að veita hæstv. sjútvrh. heimild til að nýta þessar aflaheimildir til jöfnunar.
    Það er ekki mælt nákvæmlega fyrir um hvernig það skuli gert en tekið er ákveðið dæmi, sem unnið er með aðstoð sjútvrn., í greinargerð með frv. um það hvernig mætti beita þessum heimildum.
    Að sjálfsögðu geri ég mér það ljóst að áður en til þess kemur er nauðsynlegt að hafa víðtækt samráð um það við hina ýmsu hagsmunaaðila í sjávarútvegi hvernig þetta skuli nákvæmlega gert. Það væri vissulega betra að kveða skýrar á um það í 1. gr. frv. hvernig þessu skuli úthlutað nákvæmlega en það mundi væntanlega skýrast við meðferð málsins í nefnd og mætti því gera breytingar á 1. gr. í samræmi við það. Hitt er svo annað mál að ég treysti hæstv. sjútvrh. fyrir því að gera það með þeim hætti sem helstu aðilar í greininni mæla með þótt almennt sé það betri regla að kveða skýrt á um slíka hluti í löggjöf.
    Ríkisstjórnin hefur hafnað þessari leið. Hún hefur ekki viljað fara hana og það hefur gengið svo langt að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að verði ákveðið að gera það muni það þýða þingrof og almennar kosningar. Þess vegna m.a. hefur þessi sami forsrh. verið að leita að leið sem gæti hentað í þessu sambandi án þess að hann þurfi að standa við hótunina eða loforðið. Margir mundu frekar vilja líta á það sem loforð, yrði slíkt frv. samþykkt, að hann mundi þá boða til kosninga og rjúfa þing.
    Málið er að mínu mati ekki svo stórt að ástæða sé til að hafa slík orð um það. En væntanlega er hæstv. forsrh. búinn að gefa Alþfl. einhver slík loforð sem hann telur sig bundinn af og er eitt af þeim loforðum sem eru í kistunni frægu sem varð til úti í Viðey.
    Hér er ekki um það að ræða heldur fyrst og fremst að finna einhverja sanngjarna leið sem þjónar nauðsynlegum hagsmunum og markmiðum í þessu sambandi. Ég vil nefna að því er varðar þetta mál að nánast allir aðilar í sjávarútvegi hafa mælt með því að einhver slík leið sem þessi verði farin. Það hafa allir landshlutar tekið undir það að fara einhverja slíka leið. Þrátt fyrir það reynir ríkisstjórnin að finna nýja

leið til þess að ná sama markmiði en hefur þó ekki komist að nokkurri niðurstöðu.
    Ég vil m.a. taka það fram að það eru ekki aðeins útvegsmenn sem hafa mælt með því að þessi leið verði farin. Það eru ekki eingöngu fiskverkendur, ekki eingöngu sveitarfélög heldur jafnframt sjómenn og landverkafólk. Og ekki síst eftir að hæstv. forsrh. lýsti því yfir að þeir peningar, sem yrði úthlutað til útgerða til að kaupa aflaheimildir Hagræðingarsjóðs, séu fjármagn sem hver og einn útvegsmaður geti farið með að eigin vild. Það er sem sagt ekki nauðsynlegt að nota peningana til að afla sér aflaheimilda heldur eftir því sem hverjum sýnist hverju sinni. Þetta varð að sjálfsögðu til þess að sjómenn mótmæltu þessum fyrirætlunum harðlega.
    Síðan gerist það að Byggðastofnun er falið það hlutverk að leita nýrra leiða en að sjálfsögðu má ekki nota leiðir sem gætu leitt til þingrofs og kosninga. Það var nánast forskriftin. Byggðastofnun fer að leita leiða og niðurstaðan er sú að rétt sé að ná einhvers staðar í peninga til þess að gera aðilum kleift að kaupa þær aflaheimildir sem ríkissjóður hefur tekið til sín. Nákvæmlega sömu aflaheimildirnar nema einhvers staðar skuli ná í peninga til að kaupa þær. Það var ekki verið að gera tillögur um að taka þá peninga af viðkomandi sjóðum, skattleggja þá í ríkissjóð til að ríkissjóður gæti afsalað sér þessu heldur beinlínis að ná í peningana til þess að hægt væri að úthluta þeim. Þetta er sá mesti skollaleikur sem nokkurn tíma hefur verið viðhafður í íslenskri pólitík að mínu mati. Og hvert átti svo að ná í peningana? Það átti náttúrlega fyrst og fremst að ná í þá í þá sjóði sem ríkisstjórnin hafði áður fundið út að væru tómir. Það átti að ná í peninga í Byggðasjóð, það átti meira að segja að ná í peninga í Atvinnutryggingarsjóð sem nýlega var búinn að afskrifa, ef ég man rétt, um 1.400 millj. Guðmundur Malmquist, forstjóri Byggðastofnunar, sagði m.a. af þessu tilefni að Atvinnutryggingarsjóður gæti alveg gert þetta og sagði að innheimta hefði gengið nokkuð vel það sem af væri ári, þ.e. af þeim lánum sem á annað borð kæmu til með að borgast. Tekjur deildarinnar af dráttarvöxtum væru einnig verulegar. Það var allt í einu búið að finna það út að þessi sjóður, sem ríkisstjórnin hafði hamast á allan sl. vetur, ætti afgang. Það var líka búið að finna það út að Byggðastofnun ætti afgang og ég tala nú ekki um að menn voru búnir að finna það út að trúlega mundi vera til þó nokkuð af peningum í Fiskveiðasjóði og það væri rétt að ná í þá. Þar væri sjóður sem væri tiltölulega vel staddur og það skyldi haldið áfram við þá iðju að tæma alla þá sjóði þar sem einhvers staðar fyndist fé.
    Sjútvn. fjallaði líka um þessi mál og nefndin ályktaði, með leyfi forseta, m.a. eftirfarandi: ,,Sjútvn. telur óhjákvæmilegt að allra leiða verði leitað til að minnka áhrif samdráttar í þorskveiðum á þau fyrirtæki, byggðarlög og landshluta sem verst verða úti og jafna eins og kostur er byrðum af yfirstandandi áfalli innan greinarinnar.`` Allar þessar yfirlýsingar urðu til þess að ákveðnar vonir kviknuðu hjá aðilum í landinu. En hvað segir svo hæstv. forsrh. nú fyrir nokkrum dögum eftir að þessi sami forsrh. hafði falið Byggðastofnun að koma með tillögur í málinu, fengið þær tillögur og lagt áherslu á að þær yrðu að vera tilbúnar áður en það þing sem nú starfar kæmi saman? Til hvers var verið að biðja um að þessar tillögur yrðu tilbúnar áður en það þing sem nú starfar kæmi saman ef það var ekki til þess að það Alþingi sem nú starfar tæki á þessum málum? En nú lýsir hæstv. forsrh., sem ekki er viðstaddur, því yfir í blöðum þann 3. sept. að ekki hefði unnist tími til að afgreiða málið í ríkisstjórn vegna þess hve mikið hefði verið að gera hjá henni vegna fjárlagagerðarinnar. Það yrði hins vegar afgreitt um leið og tími ynnist til. Það bráðlægi ekki á að afgreiða málið. Þetta eru skilaboðin. Ríkisstjórnin má ekkert vera að þessu því hún er í fjárlögunum. Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi skipt verkefnum á vikurnar. Eina vikuna og kannski fleiri er verið í fjárlögum og í annan tíma er verið í öðru.
    Það virðist vera niðurstaðan að ríkisstjórnin hafi ákveðið að gera ekki nokkurn skapaðan hlut þrátt fyrir öll stóru orðin, þrátt fyrir að hv. formaður sjútvn. léti hafa eftir sér m.a. með mörgu öðru: ,,Ég er tilbúinn í hvað sem er til að rétta hlut þeirra fyrirtækja og byggðarlaga sem harðast verða úti og mun ekki hika við að styðja góðar hugmyndir sem fram kunna að koma. Ég hef ekki sagt mitt síðasta orð,`` sagði Matthías Bjarnason, er hlé var gert á fundi sjútvn. Alþingis í gærdag. Þetta var 30. júlí.
    Hvað sagði varaformaður nefndarinnar þann sama dag eða daginn eftir í Alþýðublaðinu. Hann sagði m.a.: ,,Sjálfur tel ég það raunar mikil mistök að ríkisstjórnin skuli ekki hafa farið að hugmyndum Sighvats Björgvinssonar.`` Þar hafa nú yfirleitt verið mistök að fara að hugmyndum hans. Þetta er sennilega misprentun í Alþýðublaðinu. ,,Í staðinn uppsker hún það að í nokkrum landshlutum er allt á suðupunkti`` og ég hygg að þetta hafi verið í þann mund sem hv. þm. ritstýrði þessu blaði þannig að hann hefði átt að geta leiðrétt þetta. ,,Það má hugsa sér ýmsar leiðir. Ein er sú að Byggðasjóður hreinlega aðstoði verst stöddu svæðin til að kaupa kvóta af Hagræðingarsjóði en vitaskuld hlýtur Alþingi að hafa síðasta orðið en ég veit að einhverjir þingmenn vilja kanna hvort ekki sé hægt að taka þann þorskkvóta sem var umfram tillögur Hafró og verja honum til jöfnunar. Sé það kleift þá hlýtur að mega athuga það. Ég er hins vegar ekki til viðtals um að verja Hagræðingarsjóðnum án endurgjalds`` sagði Össur að lokum og þar mun vera átt við hv. 17. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson.
    Þetta eru þær yfirlýsingar sem hafa legið fyrir og síðan hefur ekkert gerst í málinu. Það er hins vegar ljóst og undir það tek ég hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni að það

er Alþingis að hafa síðasta orðið. Það er Alþingis að taka á þessu máli en það verður ekki gert nema veita hæstv. sjútvrh. nauðsynlegar heimildir og þetta frv. fjallar um það. En því miður hefur þetta mál snúist upp í það að karpa um kennisetningar, karpa um þær kennisetningar Alþfl. að það verði að selja veiðiheimildir hvort sem útgerðin eða fiskvinnslan getur keypt þær eða ekki og hvernig sem rekstrarafkoman sé skuli haldið í þessar kennisetningar. Ef ekki verður haldið í þær þá fari Alþfl. úr ríkisstjórn. Ja, ég segi nú, farið hefur fé betra því að auðvitað er ekki hægt að hlusta á svona endemis rugl í Alþfl. Hvað á það að ganga lengi að atvinnuvegir þjóðarinnar séu skattlagðir án tillits til getu þeirra? Hvað á íslenskur sjávarútvegur að þurfa að hlusta á það lengi og í reynd að sæta ofsóknum af skattlagningarmönnum og öfgatalsmönnum fyrir auðlindaskatti á þrengingartímum? Það er það helsta sem íslenskur sjávarútvegur heyrir þessa dagana að hann fái allt endurgjaldslaust, að menn fái að róa á sjó án þess að greiða fyrir það, að menn fái að sigla skipunum sínum í hvaða veðri sem er út á haf til þess að sækja björgina án þess að borga fyrir það, jafnvel þótt illa gangi. Þetta er tónninn sem menn heyra þessa dagana og hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh eru í stafni og hrópa hæst og þá sérstaklega utanrrh. Og það gengur svo langt að alþýðuflokksmenn á Vestfjörðum álykta sérstaklega um málið og telja það vera skrýtnar kveðjur frá ríkisstjórninni við þessar aðstæður að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega og ég veit að ég þarf ekki að vitna fremur í þá ályktun fyrir hæstv. utanrrh.
    Málið er einfaldlega það að íslenskur sjávarútvegur á í miklum erfiðleikum. Það að samþykkja þetta frv. leysir ekki allt, það er langt í frá. En það er hins vegar rétt, sem formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, lét hafa eftir sér í blöðum þann 26. ágúst, með leyfi forseta, þar sem hann sagði:
    ,,Það væri prófsteinninn á vilja ríkisins til þess að gera eitthvað í hallærinu. Vissulega mundu þá tekjur ríkissjóðs minnka um samtals 525 millj. en í raun er gjaldtakan ekkert annað en nýir skattar. Sú leið að færa verst stöddu fyrirtækjunum þessa fjármuni í formi ávísunar eða vaxtakvittunar er flóknari og ekki eins einföld í framkvæmd.`` Málið er nefnilega það að þetta er prófsteinn á vilja þessarar ríkisstjórnar. Þetta er ekki spurningin um það hvort menn eigi að vaða út í kosningar og rjúfa þing. Þetta er fyrst og fremst spurningin um það að vilja taka á þessum málum með sjávarútveginum en ekki á móti honum. Halda menn virkilega að við vinnum okkur út úr þeim erfiðleikum sem við stöndum nú frammi fyrir með því að vera í andstöðu við allt og alla? Hafa þingmenn stjórnarflokkanna ekkert annað að gera en að rífast við menn um þessi mál út um allt land eins og þeir hafa verið að gera á undanförnum vikum, ekki eingöngu við andstæðinga sína í stjórnmálum heldur enn þá frekar við stuðningsmenn sína? Það vill nefnilega svo til að fólkið út um landið sér að það er sjálfsagt að gera þetta og vill ekki sjá einhverjar hundakúnstir í kringum það burt séð frá því hvað ráðherrarnir hafa sagt. En það virðist vera að það sé ekki nokkur leið að koma vitinu fyrir þessa ráðherra og þess vegna ber Alþingi að gera það. Alþingi ber að taka skynsamlega ákvörðun í þessu máli og taka fram fyrir hendurnar á þessari ríkisstjórn. Það er skylda Alþingis að gera það og það á að gera strax. Það er engin von til að núv. ríkisstjórn komi sér saman um eitt né neitt í þessu máli. Hún er búin að vera að þvæla um þetta nú á annan mánuð og forsrh. segir: Það liggur ekkert á og við megum ekki vera að þessu. Það er svarið. Við höfum mikilvægari málum að sinna. Hvað eru mikilvægari mál en málefni íslenskra atvinnuvega? Halda menn að þeir lifi á því að borga peninga út úr ríkissjóði og rukka inn í ríkissjóð? Halda menn það virkilega að verðmætasköpunin skipti ekki meira máli? Hvernig getur ríkisstjórnin leyft sér að kasta þessum málum til hliðar viku eftir viku og fundið sér ný verkefni til að rífast um og komið á nýjum næturfundum? En það var kannski ekki síst svefnleysið sem varð til þess að sínum tíma hvað þeir tóku vitlausar ákvarðanir. Þá voru næturfundir og aftur næturfundir, ráðherrarnir sváfu ekki neitt, vöknuðu skapvondir og úrillir og tóku náttúrlega vitlausar ákvarðanir. ( Gripið fram í: Þú gleymir . . .  ) Já, en það er ekki af svefnleysi. Auðvitað áttu mennirnir að sofa og auðvitað eiga þeir að reyna að sofa líka almennilega á næturnar til þess að reyna að komast að einhverri vitlegri niðurstöðu í fjárlögunum. En ávallt skulu þeir finna sér tilefni til að vaka og komast aldrei að skynsamlegri niðurstöðu. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. um að forsrh. er á leiðinni.) Það er nú gott að forsrh. er vakandi þó að ég efist ekki um að hann hefði þurft á því að halda að leggja sig.
    Við þingmenn Framsfl. og fleiri teljum það skyldu Alþingis að taka á þessu máli og samþykkja þessa einföldu og sjálfsögðu heimild til sjútvrh. sem er eina leiðin í þessu máli og auðvitað ættu stjórnarliðar að viðurkenna þetta sem mistök sem annaðhvort stafi af svefnleysi, vanþekkingu, vangá eða einhverju slíku og fara þá leið sem allir mæla með í þessu sambandi. Þeir væru meiri menn eftir það og ég vænti þess að þeir muni gera það. Hitt er svo annað mál að auðvitað mun samþykkt þessa frv. ekki leiðrétta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins. En það sem er verst er að núv. ríkisstjórn með forsrh. í broddi fylkingar telur að rekstrarskilyrðin séu bara góð. Ég las það eftir forsrh. að hann hefði sagt hér á Alþingi, og ég fletti því upp, með leyfi forseta: ,,Þegar menn eru að tala um stöðu sjávarútvegsins eru menn að horfa á spár fyrir næsta ár.`` Það er náttúrlega alveg óskaplegt að menn skuli vera farnir að horfa fram á næsta ár. Væntanlega er ríkisstjórnin líka að gera það í fjárlögunum. Ætli hún sé ekki að fjalla um næsta ár. ,,Afkoman er ekki slök eða mjög slæm á þessu ári vegna þeirra aðgerða sem gripið var til.`` ( Gripið fram í: Hún er 14% á næsta ári.) Hún er bara ágæt, afkoman á þessu ári, segir forsrh. og það er hægt að lifa lengi

á því og svo eru menn farnir að tala um næsta ár.
    Hverjar eru þessar aðgerðir sem forsrh. er að tala um? Aðgerðirnar eru þær að ákveðið var að taka fjármagn Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins og úthluta því til sjávarútvegsins. Það var nauðsynleg ráðstöfun, því miður. En hún bætti ekki rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Hún gerði sjávarútveginum kleift að greiða ýmislegt af vanskilaskuldum sínum en hafði ekkert að segja að því er varðaði rekstrarafkomu. Og ef menn halda að hægt sé að lifa lengi á þeirri ráðstöfun þá vaða menn í mikilli villu. Hins vegar er það ekkert einfalt mál að grípa til þeirra aðgerða sem þarf í þessu sambandi. Það er a.m.k. lágmark að einhver skilningur sé hjá núverandi stjórnvöldum í þessu máli. Það er ekki að sjá að hann sé hjá hæstv. forsrh. Ég leyfi mér að vona að hann sé hjá hæstv. sjútvrh. En hæstv. sjútvrh. lét að því liggja þegar hann sagði að hann hefði ákveðið að leggja fram tillögu um hámarksafla á næsta ári að hann gerði það m.a. vegna þess að hann óttaðist að aðilar í ríkisstjórn kynnu að gera eitthvað miklu verra. Þetta er nú ekki nákvæm tilvitnun í orð núv. hæstv. sjútvrh. en ég hygg að það sé ekki mjög langt frá því. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. hafi ekki sömu hugsanir varðandi rekstrarstöðu sjávarútvegsins, að hann óttist að það sé rétt fyrir hann að sitja í ríkisstjórninni til þess að þessir menn komi ekki enn þá fleiri fyrirtækjum á hausinn. Ég trúi þeim að vísu vel til þess. En það getur enginn sjútvrh. setið í ríkisstjórn með það að markmiði að koma í veg fyrir það að einhver annar geri eitthvað miklu verra. En það er kannski ekki undarlegt að mönnum detti það í hug þegar menn lesa hvers konar skilningsleysi er hjá forustu ríkisstjórnarinnar í þessum málum.
    En hvað þarf að gera? Það þarf fyrst og fremst að lækka kostnaðinn hjá sjávarútveginum og lagfæra raungengið. Þegar menn segja slíka hluti þá sprettur núv. utanrrh. venjulega upp og hrópar: Eru menn nú enn einu sinni að kalla á gengisfellingu? Ég er ekki að kalla á gengisfellingu. En ég ítreka það sem ég sagði á sl. vetri að það er ekki hægt að búast við því að sjávarútvegurinn geti lifað við hærra og hærra raungengi. Það er ekki hægt að reikna með því að í öllum þessum samdrætti geti hann búið við hærra raungengi en hann gerði á árinu 1990. Þá var raungengi á mælikvarða verðlags 97,3 en nú er það áætlað 100,6 eða allnokkru hærra en það var á árinu 1990. Á mælikvarða launa var það 88 en er nú áætlað 93,4. Halda menn virkilega að hægt sé að reka undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar með þeim hætti að hækka raungengið stöðugt? Ekki mikið, en nóg til þess að menn hafa litla von um framhaldið? Halda menn að hægt sé að lagfæra stöðu sjávarútvegsins með því að skattleggja hann? Hvers konar hagfræðingar eru það sem núverandi ríkisstjórn hlustar á? Eru það bara hagfræðilærðir menn í Alþfl. sem farið er eftir? Ég veit að þeir eru margir, en hagfræðikenningar þeirra margra eru því miður villukenningar.
    Ég ætla mér ekki, hæstv. forseti, að hafa mörg orð um þetta mál. Á undanförnum mánuðum hefur það verið mikið rætt og er komið að því að það þurfi að taka ákvarðanir. Ég vil að endingu vitna í greinargerð með þessu frv. þar sem segir:
    ,,Það er jafnframt nauðsynlegt að bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins að öðru leyti. Raungengið hefur hækkað of mikið og því getur sjávarútvegurinn ekki staðið undir þeim kostnaði sem á honum hvílir í dag með þeim tekjum sem eru til skiptanna. Það verður því að leita allra ráða til að lækka kostnaðinn og verja þannig gengi krónunnar. Ríkisstjórnin hefur enga tilburði haft uppi til að undirbúa mál með þeim hætti. Nauðsynlegt er að létta margvíslegum kostnaði af sjávarútveginum. Rafmagnsverð er of hátt, aðstöðugjald er óréttmætt og vextir allt of háir. Ríkisstjórnin hefur auk þess beitt sér fyrir margvíslegum álögum á sjávarútveginn og hafa aðilar í greininni metið hækkanir á opinberum álögum allt að 1 milljarði króna á árinu 1992.
    Sjávarútvegurinn hefur náð fram verulegri hagræðingu á undanförnum árum og á eftir að sýna mikinn árangur á því sviði. Hann þarf tíma og aðstæður til að halda þeirri vinnu áfram. Jafnframt þarf að skapa honum svigrúm til að nýta sér ýmsa möguleika í vannýttum tegundum og að auka vinnslu innan lands.
    Með samvinnu ríkisvalds og greinarinnar sjálfrar er mögulegt að vinna sig út úr erfiðleikunum. Ríkisstjórnin hefur í reynd hafnað slíku samstarfi.``
    Það er aðalatriði málsins að ríkisstjórn Íslands hefur í reynd hafnað samstarfi við íslenskan sjávarútveg að vinna sig út úr þessum vanda og þess vegna er skylda Alþingis að grípa inn í málið og það verður þá að hafa sinn gang hvort núv. forsrh. rýfur þing og boðar til kosninga eða ekki.
    Ég er ekki sérstaklega að óska eftir því af þessu tilefni að það verði gert þótt ég óski eftir því að núv. ríkisstjórn fari sem fyrst frá. Ég get vel sætt mig við að hæstv. forsrh. taki þau orð sín til baka. En ég óska eftir því að Alþingi Íslendinga taki af skarið um það að ríkisstjórninni beri að hafa samvinnu við sjávarútveginn um lausn erfiðra mála og fyrsta skrefið í því sambandi er að samþykkja þetta frv. og úthluta þessum veiðiheimildum með eðlilegum hætti eins og áður hefur verið gert og sýna með því einhvern skilning á þeim vanda sem uppi er.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, vil ég leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hæstv. sjútvn.