Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:55:20 (745)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að ræða nokkuð um aðdraganda þessar umræðu. Við alþýðubandalagsmenn höfðum áður en þing kom saman rætt um nauðsyn þess að strax og Alþingi kæmi saman yrði flutt frv. til laga um breyting á lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Við sendum þess vegna þremur dögum fyrir þann tíma að þing kom saman uppkast að því lagafrv. til þeirra sem eiga sæti í hv. sjútvn. og hugmyndin var sú að freista þess að ná samstöðu með þeim flokkum sem eiga sæti á Alþingi um niðurstöðu í þessu máli. Við höfðum von um það að sú samstaða gæti orðið það víðtæk að málið fengi meirihlutastuðning á hv. Alþingi. Við höfðum ætlað okkur að óska eftir fundi í hv. sjútvn. strax og kostur væri eftir að nefndir þingsins hefðu verið kosnar og vorum auðvitað til viðræðu um breytingar á uppkastinu og öllu sem laut að flutningi þess ef það hefði mátt verða til þess að meiri hluti gæti skapast um aðalatriði málsins. Þess vegna kom okkur nokkuð á óvart að framsóknarmenn hlupu upp til handa og fóta, lögðu fram frv. í þinginu og lá svo mikið á að þeir þurftu að kynna það á blaðamannafundi áður en þeim tókst að dreifa því í þinginu. Ég vona sannarlega að þessi málsmeðferð verði ekki til að spilla því að samstaða geti orðið um framhald málsins síðar þó svo að við höfum tekið þá ákvörðun að flytja annað frv. sem er með nokkuð öðrum hætti en það frv. sem framsóknarmenn fluttu eða hafa lagt hér fram.
    Ég vil fyrst tala nokkuð um aðdraganda málsins, þ.e. þær ákvarðanir sem tengdust ákvörðunum um heildarafla á þessu fiskveiðiári, sem var að byrja núna, og þær þrengingar sem menn sáu fyrir sér að yrðu vegna samdráttarins í þorskveiðunum. Ég verð að segja það eins og er að mér finnst meðferð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á málefnum sjávarútvegsins hafa leitt í ljós að hún er ófær um að leysa með sæmilegum hætti úr erfiðum viðfangsefnum. Ég get auðvitað viðurkennt að það er mjög erfitt mál á að taka þegar menn standa frammi fyrir slíkum samdrætti sem leiddi af þeim ákvörðunum sem urðu lokaákvarðanir um þorskveiði. En ég vil segja að það sem gerðist var það að ríkisstjórnin féll á prófinu. Hún hefur ekki leyst málið enn. Það sem hún gerði var að hún dró úr sárasta broddinum af þessum samdrætti en hún leysti málið ekki eins og hún hefði þurft að gera. Ég heyri líka að framsóknarmenn voru ekki aldeilis á þeim buxunum að leysa málið með þeim hætti sem hefði þurft að gera, þ.e. með þeim hætti að jafna algjörlega út þá skerðingu sem var á ferðinni. Hér koma menn og tala eins og það að flytja þessi frumvörp um Hagræðingarsjóðinn sé hin endanlega og góða lausn á öllu saman. Það er það ekki. Ég lít þannig á að þessi frv. sem við höfum lagt fram um Hagræðingarsjóðinn séu neyðarráðstöfun til að reyna að bjarga því sem bjargað verður eftir að búið er að taka vitlausar ákvarðandir, eins og búið er að gera í þessu máli. Ef menn hefðu viljað hefði verið hægt að taka ákvarðanir sem hefðu leyst málið algjörlega í upphafi. Þegar menn virða fyrir sér niðurstöðurnar sem liggja fyrir núna, ákvarðanirnar um heildarafla í hinum ýmsu tegundum hljóta menn að sjá að það hefði verið hægt að jafna skerðingunum í þorskveiðinni niður með þeim hætti að allir hefðu orðið fyrir svipuðum skerðingum í þorskígildum, allar útgerðir í landinu hefðu orðið fyrir svipuðum skerðingum í þorskígildum. Þá hefðu menn setið uppi í dag með skerðingar milli 2--3% en ekki þau vandamál sem núna liggja fyrir, þ.e. um verulega miklar og mismunandi skerðingar er að ræða eftir byggðarlögum og útgerðum.
    En hver er þá ástæðan fyrir því að menn vildu ekki fara þessa leið? Hún var auðrötuð, það var ekki vandinn, og ég efast ekki um það að stjórnvöld gerðu sér fulla grein fyrir því að það væri hægt að gera þetta. Þetta hefði mátt gera með mjög einföldum hætti. Svo ég nefni bara eina útgáfu hefði t.d. mátt úthluta til að byrja með öllum heimildum eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar eins og þær lágu fyrir. Taka síðan viðbæturnar sem ákveðnar voru á alla veiðistofnana og nota þær til að jafna þetta út. Þetta var mjög auðvelt að gera svona. En af hverju var það sem menn völdu ekki þessa leið? Ég held að ekki sé nema ein skýring á því og hún er sú að menn óttuðust um kerfið sitt, menn óttuðust um kvótakerfið. Ef menn hefðu jafnað þessu út með þessum hætti þá væru menn að leggja til atlögu við kvótakerfið og það mátti ekki.
    En það hljóta allir hv. þm. að sjá að ef svona hefði verið farið að þá hefðum við ekki staðið frammi fyrir þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir núna, þ.e. mjög mismunandi skerðingu í útgerðum og eftir byggðarlögum, við hefðum verið með nokkurn veginn svipaða skerðingu um allt land og við sætum ekki uppi með það að kvótakerfið virkar þannig í dag að þær sjávarbyggðir sem liggja að bestu og fengsælustu fiskimiðunum og er ekki hægt að benda á að séu með neina ofveiði verða fyrir mestum búsifjum af völdum þessa samdráttar í þorskveiðinni. En hinir, þ.e. togskipaflotinn sem hefur ekki ekki getað náð kvótanum sínum vegna þess að það er svo lítið af fiski á þeirra miðum, þær útgerðir hafa fengið úthlutað auknum kvótum og standa jafnvel betur eftir þessar skerðingar heldur en fyrir þær.
    Auðvitað er það kvótakerfið sem veldur þessu og er ástæða til að vekja athygli á því í þessari umræðu.
    Mig langar til að segja fáein orð um þetta frv. til laga um breyting á lögum um Hagræðingarsjóðinn sem við höfum lagt hér fram. Fyrsti flm. er Steingrímur J. Sigfússon, en hann er ekki hér í dag og þess vegna mæli ég fyrir frv. en við Anna Ólafsdóttir Björnsson erum meðflm.
    Í greinargerð með frv. segir:
    ,,Ljóst er að nýtekin ákvörðun um aflaheimildir á næsta ári kemur mjög misjafnlega við einstök fyrirtæki, byggðarlög og landshluta. Á sama tíma og fyrirtæki með mikla aflahlutdeild í öðrum tegundum

en þorski fá auknar veiðiheimildir skerðast önnur um tugi prósenta.
     Tilgangur þessa frumvarps er fyrst og fremst að tryggja að fyrirtækin standi jafnar að vígi en ella væri ef ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í lok júlí stæði óbreytt. Notkun veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs er einfaldasta og eðlilegasta aðferðin í þessu skyni og tekur langt fram stórgölluðum hugmyndum um að bæta fyrirtækjunum að einhverju leyti skellinn með peningagreiðslum.
     Í þessu frumvarpi er valin sú leið að breyta ákvæðum um Hagræðingarsjóð varanlega á þann veg að sjóðurinn hafi þríþætt markmið. Það er að greiða fyrir hagræðingu í greininni með úreldingu fiskiskipa, aðstoða byggðarlög í vanda og jafna út sveiflur innan sjávarútvegsins sem eru það miklar að þeim mundi fylgja veruleg röskun á afkomu.
     Að svo breyttum lögum um Hagræðingarsjóð lægi beinast við að nýta við núverandi aðstæður allar handbærar veiðiheimildir sjóðsins til að draga úr því áfalli sem skertar þorskveiðiheimildir eru þeim útgerðum og þar með byggðarlögum sem háðastar eru þeim veiðum.
     Breytingarnar gera ráð fyrir að horfið verði frá því að selja aflaheimildir sjóðsins og nota andvirðið til að greiða rekstur Hafrannsóknastofnunar sem í reynd jafngildir að gera féð upptækt í ríkissjóð sem áður greiddi fyrir rekstur stofnunarinnar. Í samræmi við þetta falli brott 6., 7. og 8. gr. í núgildandi lögum. Ljóst er að hugmyndir um sölu veiðiheimilda sjóðsins voru frá upphafi mjög umdeildar og voru þó í eldri lögum ákvæði sem heimiluðu úthlutun aflaheimilda án endurgjalds til byggðarlaga ef þannig stóð á.
     Við núverandi aðstæður í íslenskum sjávarútvegi er viðbótarskattlagning af því tagi sem ríkisstjórnin ákvað við afgreiðslu síðustu fjárlaga, eins og áður sagði, fráleit og síst til þess fallin að bæta andrúmsloftið í samskiptum stjórnvalda og greinarinnar.
    Þegar er orðið ljóst að þær tekjur, sem átti að afla með sölu veiðiheimilda, munu ekki skila sér og þarf af þeim sökum hvort eð er að taka á vanda ríkissjóðs með öðrum hætti. Á því er hins vegar full þörf ef takast á að snúa bökum saman í þeim miklu erfiðleikum sem sjávarútvegurinn býr nú við eins og reyndar fleiri greinar íslensks atvinnulífs, því miður.
     Sú skattheima, sem ríkisstjórnin ákvað að leggja á sjávarútveginn í formi sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs, er óðs manns æði við núverandi aðstæður í greininni og það lá reyndar ljóst fyrir þegar í vetur.
     Annar megintilgangur laga um Hagræðingarsjóð var frá upphafi að koma til aðstoðar byggðarlögum sem yrðu fyrir áföllum vegna minni veiðiheimilda og einnig hefur verið gripið til sjóðsins þegar ákveðnar greinar innan sjávarútvegsins hafa orðið fyrir áfalli, sbr. loðnubrestinn fyrir tveimur árum og úthlutun veiðiheimilda sjóðsins til loðnuflotans þá.
     Það er því í fullu samræmi við upphaflegan tilgang sjóðsins að grípa nú til þessara veiðiheimilda til að milda það áfall er útgerðir, sem umfram aðrar eru háðar þorskveiðum, verða fyrir. Um leið jafnast staðan milli byggðarlaga og landshluta sem eins er ástatt með.
    Flutningsmönnum er ljóst að lög þessi gætu þurft að taka breytingum í tengslum við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem nú stendur yfir. Ekki þykir þess vegna ástæða til að hafa í þessu frumvarpi endurskoðunarákvæði eða tiltekinn gildistíma.``
    Í athugasemum við einstakar greinar kemur fram, um 1. gr.:
    ,,Fyrri breytingin, stafliður a, gerir ráð fyrir að sú tenging við hafrannsóknir, sem settar voru inn í lögin á sl. vetri, hverfi en í staðinn verði sett inn í markmiðsgrein laganna, það hlutverk að jafna út sveiflur innan sjávarútvegsins.
     Stafliður b bætir því við ákvæði 3. mgr. að byggðarlög geta notið aðstoðar sjóðsins ef straumhvörf hafa orðið í atvinnumálum, ekki aðeins vegna sölu fiskiskips eins og verið hefur, heldur einnig ef verulegur samdráttur verður í aflaheimildum af öðrum orsökum.``
    Þetta er sem sé rýmkun á þeim möguleikum sem byggðarlög gætu haft til þess að fá aðstoð úr sjóðnum.
    Um 2. gr. segir:
    ,,Greinin felur í sér að í stað þess að stjórn Fiskveiðasjóðs sé sjálfkrafa jafnframt stjórn Hagræðingarsjóðs verði stjórn sjóðsins skipuð fimm mönnum kosnum af Alþingi til fjögurra ára í senn.``
    Þetta tel ég að þurfi ekki sérstaks rökstuðnings við, það er auðvitað augljóst að ef á að úthluta úr þessum sjóði með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir þá þarf að skipa sérstaklega í stjórn sjóðsins með tilliti til þeirra aðila sem eiga hlut að máli.
    Um 3. gr.:
    ,,Breytingin leiðir af því að horfið er frá sölu veiðiheimildanna með því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í 6.--8. gr. gildandi laga og á því síðari málsliður 5. gr. ekki við.``
    Um 4. gr.:
    ,,Breytingarnar gera ráð fyrir að í stað 6., 7. og 8. gr. komi ein ný grein í samræmi við breytt hlutverk og markmið sjóðsins.
     Í stað þeirra ákvæða, sem lutu að forkaupsrétti sveitarfélaga, skipa eða sölu veiðiheimilda til hæstbjóðanda, koma atriði sem skilgreina þá þætti er lúta að aðstoð við byggðarlög og sveiflujöfnun í sjávarútvegi.``
    Um 5. gr.:
    ,,Greinin kveður á um að sjávarútvegsráðherra skuli hafa samráð við stjórn Hagræðingarsjóðs, sjávarútvegsnefnd Alþingis og hagsmunaaðila við setningu reglugerðar um sjóðinn.``
    6. gr. þarfnast ekki skýringar.
    Vitanlega væri hægt að ræða margt í tengslum við umræðuna um þessa tillögu að breytingu á lögunum um Hagræðingarsjóð. Ég læt mér nægja að taka undir ýmislegt af því sem hv. 1. þm. Austurl. sagði um rökstuðninginn fyrir því að nýta aflaheimildir Hagræðingarsjóðs með þeim hætti sem hér er lagt til því að raunverulega er um sömu aðferð að ræða og nú, þ.e. við úthlutanirnar fyrir þetta ár. Hins vegar erum við með tillögu okkar að leggja til meiri breytingu á þessu en gert er í tillögu framsóknarmanna.
    Mig langar til, vegna þessarar umræðu sem hér er hafin, að fara fáeinum orðum um stöðu sjávarútvegsins almennt þó að hún muni vera í knappara formi en ég hef talið að þyrfti að vera um þau mál á hv. Alþingi um þessar mundir.
    Þegar hæstv. ríkisstjórn tók við var aftur að byrja að halla undan fyrir sjávarútveginum eftir þær aðgerðir sem fyrri ríkisstjórn hafði gripið til til þess að rétta hlut greinarinnar eftir fastgengisævintýri ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Mörg verkefni og stór blöstu við ríkisstjórninni og nýjum sjávarútvegsráðherra sem tók við eftir langa setu fyrirrennara síns í stólnum. --- Ég hefði gjarnan viljað, virðulegur forseti, að hæstv. sjútvrh. væri viðstaddur á meðan umræðan fer fram. ( For seti: Forseti skal verða við því að reyna að finna hæstv. sjútvrh.) Ég hafði fyrst og fremst í huga að beina máli mínu til hæstv. sjútvrh. en mér þykir afskaplega vænt um að hæstv. forsrh. er staddur hér í salnum því hann hefur auðvitað ekki minnstu ábyrgðina á þeim málum sem hér um ræðir. Hann hefur tekið að sér, að því er hæstv. sjútvrh. hefur sagt, að ljúka málum Hagræðingarsjóðsins, þ.e. því sem snýr að þeim bótum sem menn eiga að fá sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu vegna samdráttar í þorskveiðum. Mér skilst að hjá Alþfl. sé aðferðin sem hæstv. forsrh. stefnir að kölluð tvöfaldur Münchhausen. Ég kann ekki að útskýra það nákvæmlega en alþýðuflokksmenn gera það kannski í umræðunni á eftir. ( ÖS: Ekki ég.) Ekki ég, segir hv. 17. þm. Reykv. --- Ég var satt að segja að vona að hæstv. sjútvrh. sæi sér fært að vera hér. Það er mjög stutt í frestun fundarins, virðulegur forseti. --- Þarna birtist hæstv. sjútvrh.
    Ég var að byrja að tala um það að þegar hæstv. ríkisstjórn tók við var byrjað að halla undan fyrir sjávarútveginum eftir að gripið hafði verið til aðgerða til að rétta hlut greinarinnar eftir fastgengisævintýri ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Fram undan var þess vegna að tryggja undirstöðu útgerðar og fiskvinnslu. Útgerð og fiskvinnsla þarf auðvitað að skila hagnaði eigi hún að geta staðið undir hinum miklu skuldum sem höfðu safnast upp á undanförnum árum. Endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar þurfti að hefjast strax svo að nýjar hugmyndir næðu að mótast fyrir áramótin 1992--1993. Flutningur fiskvinnslunnar á haf út var hafinn og var séð hvert stefndi ef ekkert yrði að gert. Margir bundu vonir við að við skiptin, þegar nýr sjútvrh. tók við völdum, yrði hægt að gera einhverjar breytingar á stefnunni í sjávarútvegsmálum, einhverjar lagfæringar á því sem menn höfðu ekki verið sáttir við hjá fyrirrennara hans. Það stóð ekki á nýjum ráðherra að láta ljós sitt skína. Stóryrtar yfirlýsingar hans um hinar miklu skuldir útgerðar og fiskvinnslu og kröfur um það að brugðist yrði snarlega við heyrðust víða af fundum þar sem hann mætti.
    Nú hefur rödd hæstv. sjútvrh. hljóðnað. Það er ekki lengur eins mikið um yfirlýsingar um að aðgerðir megi ekki bíða lengur. Það er helst að heyrist í honum þegar hann telur sig þurfa að hefja upp raust sína til að verja kvótakerfið en þá sparar hann ekki kraftana við að halda, að manni finnst, gamlar ræður fyrirrennara síns um það sem hina endanlegu lausn á vanda útgerðarinnar í landinu. Kröfurnar um að nú megi ekki bíða lengur með að koma á viðunandi rekstrargrundvelli fyrir útgerðina í landinu, skapa útgerðinni svigrúm, veita útgerðinni réttlátan skerf af þjóðarkökunni og breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu útgerðinni í vil heyrast hins vegar ekki lengur. Hvað hefur gerst? Er þetta allt saman komið í lag? Eru kröfur hæstv. sjútvrh. orðnar að veruleika? Hefur honum tekist að breyta því sem hann vildi breyta og hélt ræðurnar um? Ég held ekki. Hefur flutningur fiskvinnslunnar út á sjó verið stöðvaður? Hæstv. sjútvrh. hefur viðhaft orð um þá hluti undanfarið sem benda til þess að hann sé kominn eindregið á þá skoðun að ekkert sé við því að gera, að flutningur fiskvinnslunnar haldi áfram út í sjó. Það sé svo hagkvæmt að ekki sé neitt við því að gera. Það er ekki einu sinni gert neitt í því að reikna það út hver hagkvæmnin er. Menn láta sér bara nægja að skoða tölur sem byggjast á rekstrarreikningum fyrirtækja úr greininni. Menn velta engu fyrir sér í þessu efni af öðru tagi. Eru menn kannski búnir að ná sátt um stjórn fiskveiðanna? Svarið er því miður nei. Það gerist lítið þar.
    Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að leysa vanda sjávarútvegsins, þann vanda sem hæstv. sjútvrh. talaði svo mikið um á sínum fyrstu missirum sem sjútvrh.? ( ÖS: Hún lækkaði verðbólguna.) Lækkaði verðbólguna, kallar hv. 17. þm. Reykv. fram í. Verðbólgan er lág. Hún mælist í núll komma eitthvað prósentum í dag eftir því sem mér skilst. Það dugar ekki til. Hafa menn ekki horft á þær tölur sem útgerð og fiskvinnsla hafa kynnt að undanförnu um afkomu sína? Hafa menn ekki áhyggjur af því að það stefni í jafnvel 14% halla á næsta ári? Hvað halda menn að langur tími sé til stefnu? Birtast úrræði hér á gamlárskvöld? Hæstv. forsrh. talaði þannig að menn gátu ráðið af orðum hans að það yrði bara nóg að ákveða að lagfæra þetta á gamlárskvöld. Kannski verður það þannig að hæstv. ríkisstjórn komi með úrræðin á gamlárskvöld. Ég ætla satt að segja að vona að menn skoði þessi mál svolítið fyrr, og helst strax.
    Mig langar til að vitna í örfáar tölur um afkomuna í útgerð og fiskvinnslu sem hafa borist mér í hendur. Þessar tölur, ég tek það fram, eru reiknaðar út með álagi vegna vaxta þar sem Þjóðhagsstofnun hefur ekki tekið vaxtareikning með sama hætti inn í þær tölur sem hún hefur birt og aðrir aðilar í sjávarútvegi telja eðlilegt að tekið sé tillit til.
    Síðustu tölurnar, það er spáin fyrir 1993, eru þannig að veiðar án frystiskipa verði reknar með 9,7% halla eftir áramótin, þegar menn eru búnir með sjóðina, að vinnslan verði rekin með 9,8% halla, að frystiskipin verði rekin með 6,1% hagnaði, að veiðar og vinnsla verði samanlagt rekin með 10,1% halla, að veiðar og vinnsla án frystitogara verði rekin með 14,4% halla. Þetta er sá veruleiki sem hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sjá fyrir sér. Samt sjáum við ekki að neitt eigi að gerast. Við sjáum ekkert af því sem hv. 1. þm. Austurl. var að tala um áðan. Við sjáum ekki vextina lækka. Við sjáum ekki að gengishækkanirnar stöðvist. Við sjáum ekki að það verði breytingar á útgjöldum útgerðar og fiskvinnslu.
    Ég veit ekki, satt að segja, hve langlundargeð útgerðar og fiskvinnslu í landinu er mikið, en ég trúi að býsna mikið sé farið að togna á því og að menn þurfi að fara að fá einhverjar niðurstöður í því hvað eigi að gerast í þessari atvinnugrein sem við lifum öll á. Ég held að hæstv. ríkisstjórn komist ekki undan því lengur að fara að svara til hvaða ráða hún ætlar að grípa til þess að koma grundvelli undir útgerð og fiskvinnslu í landinu. Ég held líka að fólkið í landinu, verkafólkið, fiskvinnslufólkið og aðrir aðilar, sem eiga beinastan hlut að máli í sambandi við fiskveiðar og vinnslu, komi til með að fara að gera kröfur um að fá að vita hvað eigi að gerast. Er það virkilega þannig að menn eigi að horfa upp á það að nú haldi áfram fjárfestingaræði í sjávarútveginum af nýju tagi, þ.e. að fiskvinnslan flytjist út á sjó, án þess að hreyfa legg eða lið, bara vegna þess að þessar tölur líta svona út í dag?
    Það var býsna mikill gróði af fiskeldinu og loðdýraræktinni á sínum tíma þegar menn voru að leggja af stað í þá för. Það er líka mikill gróði af fiskvinnsluskipunum í dag. En hver verður hann eftir tvö ár? Hver verður hann eftir þrjú ár? Vita menn það? Verður fiskvinnsluskipunum leyft að halda áfram að nýta kvóta sinn með allt öðrum hætti en öðrum skipum? Munu ekki sveitarfélögin í landinu fara að óska eftir því að fá tekjustofna í þessum frystihúsum eins og þeir hafa átt í öðrum frystihúsum í landinu? Verður ekki þessi atvinnugrein að fara að bera samsorta álögur og aðrar atvinnugreinar í sjávarútvegi? Ég held það. Ég held að menn komist ekki undan því. Og ég held það gerist líka annað. Ég held að það gerist að verðið á vörunum frá frystitogurunum muni lækka í hlutfalli við vörur annars staðar frá. Það er þannig núna að talið er að um 10% hærra verð sé á vörum frá frystitogara en sambærilegum vörum sem seldar eru frá frystihúsi, einfaldlega vegna þess að menn borgi fyrir ferskleikann eingöngu vegna þess að hann er merktur frystiskipi. Ég held að þannig verði þetta ekki áfram því að frystihúsin í landinu verða að bregðast við. Þau hafa fram að þessu selt sínar vörur undir einu merki og það hefur verið nákvæmlega sama hvort þessar vörur hafa verið úr fiski sem búið var að geyma í ís í tíu daga eða tvo. Ef þessar vörur væru allar merktar dagmerkingum væri hægt að selja hluta þeirra í samkeppni við hina fersku vöru frystitogaranna. Það hlýtur að gerast. Það er alveg fyrirsjáanlegt að þessi fullvinnsluskip, eða ryksuguskip eins og við kölluðum þau fyrr á árum, munu ekki sýna eins mikinn gróða fram yfir aðra vinnslu á fiskafurðum og þau hafa gert á undanförnum árum.
    Þessu þurfa menn að gera sér grein fyrir. Ég tel að þetta þurfi að stöðva tímabundið. Ég er ekki að tala um það að banna það að skip verði byggð. Það er langt frá því. Ég tel hins vegar að það megi gera hlutina á annan hátt. Ég tel að t.d. mætti ákveða það að þau skip sem yrðu smíðuð ný fyrir Íslendinga yrðu smíðuð á Íslandi. Það yrði notað tækifærið til að byggja upp atvinnu í landinu, til að skjóta fótum undir íslenskan iðnað, um leið og menn væru að breyta sínum skipastóli sem nauðsynlegt er. Það er ástæða til þess að vekja athygli manna á því að það er ekki eins og þetta verði bara nokkur skip og svo verði skriðan stöðvuð. Við eigum fjölmarga ísfisktogara sem eru úreltir og við getum ekki haldið áfram að reka til lengdar með þeim hætti sem gert hefur verið. Það eru úrelt vinnubrögð að senda skip á sjó sem kemur inn eftir 10--11 daga til löndunar. Það verða menn að horfast í augu við. Það hlýtur að gerast. Annaðhvort verður þessum skipum breytt, útgerðarmunstrinu breytt, eða þeim verður lagt og það koma frystiskip í staðinn, eða önnur skip sem taka við þessum veiðum. Þetta þurfa menn að horfast í augu við.
    Það er mjög mikið átak sem leiðir af þessari breytingu og ef við ætlum að horfa upp á það með hendur í skauti að það gerist við þær aðstæður sem nú eru, þ.e. með þessum gífurlega hallarekstri útgerðar og fiskvinnslu, erum við bara að segja við útgerðarmenn og þá sem ráða fjármagninu í landinu, þ.e. bankana: Beinið þessum útgerðaraðilum, sem enn eiga þá von að fara ekki á hausinn, beint í frystitogararekstur. Það er nákvæmlega það sem við erum að segja. Ef ekki verður skapaður grundvöllur fyrir almenna útgerð og fiskvinnslu í landinu mun þessi skriða ekki verða stöðvuð. ( Forseti: Forseti vill minna hv. þm. á að einungis ein mínúta er til hlés vegna þingflokksfunda.)

    Virðulegur forseti, ég hef ákveðið að ljúka máli mínu snarlega. Ég mun frekar taka til máls aftur í þessari umræðu en skipta ræðu minni í sundur. Ég mun þess vegna ljúka málin mínu, ekki fresta ræðu minni því að ég tel að ekki sé ástæða til þess að efna til einhverra stórkostlegra langhunda í sambandi við þessi mál núna. Ég tel að nauðsynlegt hafi verið að koma á umræðum um sjávarútvegsmál í hv. Alþingi, en ég er ekki einn þeirra sem tel að langar ræður sem ganga dögum saman geri meira gagn en umræða sem tekur styttri tíma.