Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 21:04:49 (762)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú kann vel að vera að sökum þess hversu langt er liðið á kvöld sé heilastarfsemin hjá mér ekki jafnvirk og hún ætti endranær að vera, en ég fann ekki svarið við spurningu minni. Í ræðu þingmannsins kom fram að hún væri andsnúin þeirri þróun að flytja vinnsluna út á sjó. Ég skildi mál hennar svo að það ætti að freista þess að jafna aðstöðumun vinnslunnar úti á sjó og í landi. Þingmaðurinn drap á það og las það þá eftir einhverjum einstaklingi í Morgunblaðinu, hún vitnar talsvert í Morgunblaðið, að eitt af því sem gerði vinnsluna úti á sjó hagkvæmari væri m.a. það að sjómannaafslátturinn væri eins konar niðurgreiðsla á starfsemi þar. Hún vill jafna aðstöðumuninn. Felst í því að hún vilji m.a. fella niður sjómannaafsláttinn á frystitogurum?