Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 21:56:32 (768)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er svo að stjórn Fiskveiðasjóðs sem fer með málefni Hagræðingarsjóðs ber að fara að lögum. Gildandi lög í landinu mæla fyrir um það að hún skuli bjóða kvóta Hagræðingarsjóðs með forkaupsrétti til kvótahafa þegar í byrjun fiskveiðiárs og stjórnin getur ekki á nokkurn hátt aðhafst með öðrum hætti en að fylgja eftir gildandi lögum. Ég tel að það sé ómaklega vegið hér að stjórnarmönnum í Fiskveiðasjóði með þeim athugasemdum sem hv. 1. þm. Austurl. gerði hér. Þeir geta ekki sem í stjórninni sitja farið eftir frumvörpum sem fyrir liggja á Alþingi, jafnvel þó að einhverjir þeirra kunni að vera þeim sammála. Það er vitað mál að sumir fulltrúar sem sitja í stjórn Fiskveiðasjóðs eru fulltrúar samtaka sem hafa ályktað um það efni að nota bæri Hagræðingarsjóðinn í þeim tilgangi að jafna þorskveiðiáfallið. Þótt þeir hafi haft þessa skoðun og séu fulltrúar samtaka sem hafa slíka skoðun þá sitja þeir í stjórn og ber lögum samkvæmt að fara að þeim lögum sem um þá stofnun gilda og það er ekki hægt að segja þeim það til álitshnekkis eða áfellis.