Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 21:59:56 (770)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Aðstæður eru einfaldlega þannig að lög mæla fyrir um hvenær og hvernig skuli bjóða aflaheimildir Hagræðingarsjóðs til kaups. Það varð ekki samkomulag um það innan ríkisstjórnarinnar að gera hér á breytingar og Alþingi hefur ekki haft ráðrúm til að taka afstöðu til þess máls. Við slíkar aðstæður hljóta stjórnarmenn í Fiskveiðasjóði, sem fara með þessi mál, að fara að gildandi lögum. Það ítreka ég.